Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Sunnudagsbíltúr til Dalvíkur.
Sunnudagar að sumri voru dagar heimsókna með afa og ömmu - á Hól við Dalvík - þaðan sem afi átti ættir sínar að rekja. Og á sunnudögum fór ég með afa og ömmu í heimsókn.
Afi tók daginn snemma - var mættur út á bílaplan við elliheimilið á Akureyri vel fyrir brottfarartíma - að setja í gang og gera klárt. Ljósblár skódinn var í huga gamla mannsins skip sem gera átti út og það var hrein fásinna að yfirfara ekki vél og búnað áður lagt væri úr höfn. Vélin var ræst - þanin að hámarki svo að blásvartur strókurinn stóð aftan úr skódanum og lagðist yfir hverfið - enginn svaf frameftir þegar afi var að hita bílinn. Vélarhúddið var svo opnað og rær og boltar yfirfarnir með skiptilykli - ýmist hertir eða losaðir. Jafnvel smurt ef þurfa þótti.
Þegar vélin var talin heit var hóað í okkur ömmu. Ég settist í aftursætið og amma við hlið afa. En reglur voru skýrar - ekki mátti heyrast í okkur bofs á leiðinni. Afi var nefnilega við stjórnvölinn - aleinn og þurfti ekki á truflun að halda - og lét okkur heyra þær ordrur ef við voguðum okkur að vera með eitthvað blaður á leiðinni - hvað þá þegar amma vogaði sér að hreyfa við stjórntækjunum - svo sem miðstöðinn eða þaðan af mikilvægari tækjum. En auðvitað laumaði amma að mér nammi og smákökum - svona til að drepa tímann því leiðin var löng til Dalvíkur. Og leiðin var svo miklu lengri en kílómetrarnir segja til um. Afi var nefnilega ekkert fyrir það að vera að vaða eitthvað áfram í hærri gírunum - hann lét sér nægja þá tvo fyrstu og þandi skódann út í eitt.
Kýrnar hættu að bíta gras og horfðu á drynjandi skódann í forundran. Teinréttur sat afi við stýrið með hatt á hausnum og skipti sér ekki af því hvað öðrum fannst - hvert aðrir væru á leið eða hvort yfir höfuð einhver annar væri á ferðinni. Hann brunaði sína leið - að heimsækja sitt fólk á þess að líta til hægri eða vinstri.
Þegar á Hól var komið var auðvitað drukkið kaffi - gengið um hlaðið og upp í hlíðina fyrir ofan þar sem eitt sinn hafði staðið bær - minningar. Margt hafði breyst - en skyldan var einföld - ættfólk skyldi maður heimsækja - svo var það bara.
Já þetta voru ferðir. Miklar ferðir. Og þegar við komum til baka til Akureyrar og afi brunaði suður Austurveginn að elliheimilinu var betra að vera við öllu búinn - því á blússandi ferð laumaði hann sér á milli brunahana og hjólhýsis sem stóð á bílastæðinu - rétt bílbreiddin á milli og beint í sitt bílastæði. Ekkert hik og þrátt fyrir að ég henti mér kylliflötum á gólfið þá heyrði ég hvininn þegar hann smaug á milli. Alvöru parkering hjá kalli. Þetta var hans stæði - hans aðferð og hann var ekkert að reikna með að brunahani færði sig um set - hvað þá hjólhýsi.
En af einhverjum ástæðum grunaði ömmu að ekki væri nú allt með feldu í aksturslagi afa - hún spurði pabba nefnilega eitt sinn þegar við komum utan að Dalvík "hvernig er það eiginlega.....mega bílar taka fram úr manni báðum megin..." - það var nefnilega svo að auðvitað var afi ekkert að skipta sér af þeim sem fyrir aftan voru - hann keyrði bara á miðjum veginum og svo sættu menn bara færis á að skjótast frammúr - ýmist hægra megin eða vinstra.
Og ekki hef ég hugmynd um hversvegna þetta rifjaðist upp.....en svona er þetta bara - kannski afþví að ég spjallaði við Dalvíking hér um daginn...hvur veit.
Athugasemdir
Raunsönn og goð lýsing á bílferðum á Skoda, á ekki ósvipaða minningar og þú, um ferðir á Skoda, Varðandi hraðaksturinn mann ég að það tók tæpa 3 klukkutíma að fara 100 km án þess að stoppa.
haraldurhar, 30.11.2008 kl. 01:01
Hæ,hæ. Rosalega er gaman að lesa þetta, enn skemmtilegra að ramba óvart inn á þetta blogg. Þú ert svaka góður penni
Kveðja Alma úr Suðurbyggð 21
Alma (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 10:48
Það er ekki að ósekju sagt ef maður lendir fyrir aftan bíl sem keyrir alltof hægt út á miðri akrein , þá er talað um gamalt fólk með hatt. Flott minningabrot og skemmtilega sett upp
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 12:03
Skemmtilegt að lesa þessar æskuminningar þínar. Upp í hugann komu minningar úr minni æsku þegar ég var í willys jeppanum með mínu foreldrum í innanbæjar akstri í Súðavík eða langferðum frá Súðavík til Ísafjarðar. Þá átti maður náttúrulega að sitja kjurr í aftursætinu og alls ekki standa á milli framsætanna til að sjá fram fyrir bílinn. Það var sko ekki bannað af því að það væri hættulegt, ónei, það var bannað af því að það truflaði bílstjórann við aksturinn. Þetta var nefnilega fyrir Herdísi Storgaard sérlegan slysavarnafulltrúa barna og áður en nafnið barnabílstóll varð til. En þá voru nú líka bara ca. 5 bílar í Súðavík.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 30.11.2008 kl. 23:39
Blessaður Tolli, fór hér af tilviljun....og þú að skrifa um afa. Vá sit hlæjandi með tárin í augunum. Veit ekki alveg hvort þetta er hlátur eða grátur hjá mér. Skiptir ekki máli, hvort tveggja er hollt. Man líka eftir sögunni þegar Kalli á hóli fékk kúlutyggjó og það var meiriháttar aðgerð að ná tyggjóinu úr yfirvaraskegginu. Því auðvita var honum kennt að blása kúlur um leið og hann smakkaði tyggjóið. Bestu kveðjur Inda frænka
Inda frænka (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.