Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Eitt er að vita - annað er að skilja bara ekkert í því sem maður veit - fyrr en alltof seint!
Nú benda menn hver á annan. Þessi vissi þetta strax í vor - hinn jafnvel fyrr og þrátt fyrir að sá hafi vitað það þá hélt hann bara að hinn myndi gera eitthvað í því. Og svo skilur enginn neitt.
Eitt er að vita - hafa verið sagt - en allt annað er að skilja. Og það er vandinn. Björgvin fékk upplýsingar - honum var sagt - en alveg gleymdist að útskýra. Geir vissi allt fyrstur - Davíð var alltaf að segja honum frá - en hvernig getur sá sem ekkert skilur sjálfur útskýrt fyrir þeim sem þarf að skilja? Allt verður bara gjörsamlega óskiljanlegt!
Þeir kumpánar eru nefnilega bestir í veislum og við hátíðleg tækifæri - þegar allt er í góðum gír - en þegar kárnar gamanið þá fara þeir í ekkibendaámig leikinn margfræga!
Ég man eftir svo skemmtilegri ræðu hjá Davíð Oddssyni í veislu á Decode - þegar átti að veita fyrirtækinu 20 milljarða ríkisábyrgð - hnyttin og skemmtileg ræða í ógleymanlegri veislu. Þá var Davíð í essinu sínu - með allt á hreinu. Þá var líka svo gaman.
En nú er allt svo leiðinlegt. Allir að kvarta. Það er ekkert gaman - því þá þarf maður að sýna hvað í manni býr!
Og þegar ekkert býr í manni nema froðusnakk - ræður á tyllidögum - opnun nýrrar sjoppu - Nú þá er voðinn vís.
Þess vegna er nauðsynlegt að leita til þeirra sem kannski þegja dags daglega - en kunna að bregðast við þegar á reynir.
Og ef menn ekki leita eftir hjálp - nú þá þarf auðvitað að taka af þeim völdin!
Og mér sýnist staðan vera sú í dag - að það þurfi að hreinsa út þessa sem ekkert "vita" - nú eða "skilja" og setja inn þá sem skilja-geta-kunna.
Og það strax!
Athugasemdir
Skemmtilega frá sagt og ég er sammála efni pistilsins í einu og öllu.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 09:25
Alveg rétt nú er bara að setja inn nýtt lið, við eigum fullt af góðu og velmenntuðu fólki. Burt með spillingarliðið úr bæði bönkunum og stjórninni
Guðrún (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.