Spýtum í lófann og tökum slaginn - nýtum tækifærið og eflum nýsköpun á Íslandi.

Það er ljóst að við slíkt skipbrot sem Íslenska þjóðin upplifir nú þarf þjóðin á öllu sínu fólki að halda. Nú þegar veit ég til þess að ungt fólk er farið að leita til útlanda eftir vinnu og það er í raun það versta sem getur gerst - að missa gott fólk úr landi.

Ríkisstjórnin verður nú þegar að marka stefnu í uppbyggingu á sviði nýsköpunar og sprotafyrirtækja.

Ekki dugir að vísa til staðbundinna atvinnuþróunarfélaga og misgóðra "nýsköpunarsjóða" sem hvorki hafa fjármagn né þekkingu til stórra verkefna.

Nú þarf að taka til hendinni - bæta í og leggja fjármuni í að byggja upp. Við höfum mörg tækifæri - sum byggja á áratuga langri þekkingu og reynslu - önnur eru ný af nálinni með mikla framtíðarmöguleika.

Ég vil nefna ýmsa möguleika er tengjast grunnatvinnuvegum okkar - fiskveiðum og landbúnaði. Hér er margt hægt að bæta - og um leið mörg ný tækifæri. En vandamálið hefur verið að lítið fé hefur verið lagt í raunverulega nýsköpun á sviðinu. Á Íslandi er gríðarleg þekking á sviði veiða og vinnslu sem væri hægt efla mjög til nýskpöpunar - sem kostar og allir vita að íslensk útgerð berst í bökkum. En hví ekki að leggja t.d. tvo milljarða í sjóði til að styrkja nýsköpun á sviði sjávarútvegs - tveir milljarðar eru smápeningar miðað við þær upphæðir sem bankarnir virðast hafa leikið sér með á sviði bónusgreiðsla og launagreiðsla til örfárra manna. Og það sama á við um landbúnaðinn. Íslensk náttúra bíður upp á marga möguleika í landbúnaði - sem því miður kostar peninga að þróa  - peninga sem við ættum ekki að hika við að leggja fram. Nú er tækifærið.

Það er fásinna að ætla að auka þorskkvóta til muna. Hinsvegar eru gríðarlegir möguleikar í þorskeldi. Þar er óplægður akur og möguleikar okkar Íslendinga felast í þekkingu og reynslu. Eflum þennan iðnað til muna.

Það sama á við um eldi annarra tegunda. Sérstaða felst í hreinleika Íslands - bæði til lands og sjávar - og þessa sérstöðu verðum við að nýta betur.

Ég vil nefna lífvísindi. Á Íslandi hefur skapast gríðarleg þekking á sviði lífvísinda og má í því sambandi nefna Íslenska Erfðagreiningu. Nú er talað um að ÍE sé að fara úr landi - sé á barmi gjaldþrots og fáist á spott prís. Hví ekki að efla háskólana í landinu og kaupa þetta fyrirtæki? ÍE væri með því móti góð viðbót og undirstaða menntunar og þekkingar á lífvísindum - myndi tengja saman háskólana í landinu og sú aðferðafræði sem þar er notuð myndi nýtast fjölmörgum öðrum greinum.

Ég vil nefna þekkingu á sviði virkjana og jarðvarma. Hér hefur skapast gríðarleg þekking sem reynt var að selja forkólfum útrásarinnar. Nú standa þessi fyrirtæki eftir í almannaeigu og eiga að haldast sem slík. Nú er lag að efla þann þekkingariðnað - og selja þá þekkingu dýrum dómum.

Gerum nú skurk í að byggja upp það sem við höfum stutt allt of lítið - byggjum á okkar fólki og okkar reynslu. Verum óhrædd að horfa til Íslands - í stað þess að einblína stanslaust út í heim.

Á Íslandi eru fjöldi ungra sprotafyrirtækja sem þurfa á styrk að halda til að geta eflst og orðið að alvöru atvinnufyrirtækjum. Fjárfestum í þessum fyrirtækjum - sem geta skapað svo miklu meira.

Svo má ekki gleyma því að Ísland hefur á síðustu vikum verið rannsóknastofa í hagfræði - nú höfum við möguleika á að nýta þessar ófarir til þekkingaröflunar. Gerum það í stað þess að kenna hver öðrum um. Eflum kennslu á því sviði og fáum heim íslensku sérfræðingana sem starfa úti í löndum og hafa setið á hliðarlínunni með innáköll og góð ráð. Gerum Ísland að miðstöð hagfræðiþekkingar.

Nú er tækifærið - tækifærið okkar Íslendinga. Spýtum í lófana og tökum slaginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála að nú þarf að virkja hugvitið og tækifærin um allt land og það þarf

einmitt núna að minna á að tækifæri eru enn til staðar!

Vi meigum ekki missa allt besta fólkið úr landi

Heiða Björg (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 23:20

2 identicon

Sæll Þorleifur.

Þetta er þarflegur og góður pistill hjá þér og vonandi að þessar tillögur komist til þeirra sem með völdin fara.  Þessu þarf að koma í framkvæmd og það strax því nú þola hlutirnir ekki langa bið.

Með góðri kveðju

Heiðar Kristinsson

Heiðar Kristinsson (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 17:16

3 identicon

Já þetta er flott hjá þér Þorleifur en hvernig verður með nýsköpunarverkefni ef allt unga fólkið flýr land, það er að missa allt sitt hér á landi.

Guðrún (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband