Úlfúð - barist um bitana

Ég var að tala við danskan mann um daginn. Ýmislegt bar á góma en það sem mér þótti merkilegt var að hann sagði mér frá því að hann sæi um að útvega dýragörðum mat ofan í ljónin!

Og þar duga sko engir smá bitar samkvæmt evrópuþingsstöðlum - nó þeinkjú - ljónin líta ekki við neinu nema vænum bitum og helst á beini. Og þegar verið er að fóðra þau þá urra þau og líta hvert annað hornauga - passa upp á bitana og ekki er gott að vera með fingurna nálægt.

Þau stærstu og frekustu fá sér fyrst - urra á hina og láta engan komast upp með að næla sér í bita. Á stundum gerast leikar svo svakalegir að stór sér á þeim minni.

Þetta þótti mér merkilegt spjall og sá fyrir mér lætin í ljónagryfjunni. Betra fyrir dýrahirðinn að fara varlega - úff.

Á leiðinni heim ákvað ég að líta við í smiðju einni hér í bæ - kanna hvort ennþá væri heitt á könnunni. Þegar ég var sestur og búinn að heilsa köllunum bar að góðan gest. Það var Úlfar í Hamraborg og bar hann poka einn í annarri hendinni. 

Kliður fór um borðið - kurraði í mönnum og þeir færðu sig framar á stólana. Nú var nefnilega Úlfar kominn með samlokur sem ennþá voru í góðu lagi þó þeir taki þær úr sölu í Hamraborg - þar er ekkert boðið uppá nema nýsmurt.

Kallarnir iðuðu - spennan magnaðist - Úlfur hálf henti pokanum á borðið og kippti að sér hendinni. Sá stærsti í hópnum - eða ætti maður að segja sá æðsti - Garðar - lét hendur skipta - nældi sér í loku og munaði minnstu að hann fingurbryti Óla frá Gjögri sem auðvitað var minni og átti að bíða - vera ekki með þessa frekju - þegar aðal átti að velja fyrst! Hinir biðu átekta - mynduðu hálfhring um fenginn og sleiktu útum....svo fengu þeir sér. Eina hljóðið sem heyrðist næstu mínúturnar var kjamsið í körlunum - mér fannst ég meira að segja heyra mal.

Ég sat um stund og hugsaði: Þetta minnir mig á eitthvað....ég bara kom því ekki fyrir mig - mér fannst ég hafa upplifað þetta áður?!

Á leiðinni heim mundi ég það..... - já mannskepnan er skammt á veg komin þegar góðar samlokur eru annarsvegar!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Var einhver að tala um ESB???

Bjarni Kjartansson, 26.9.2008 kl. 08:38

2 identicon

Stórskemmtileg færsla hjá þér. Ég hreinlega skellti upp úr við lesturinn.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband