Viskunnar menn

Nú er berjatíminn að hefjast. Sumir hafa meira vit  á berjum en aðrir og enn aðrir hafa enn meira vit á berjum en sumir. Og svo hittast þessir menn og drekka kaffibolla á loftinu hjá Braga. Þá situr maður hljóður og hlustar á visku mannanna sem tínt hafa ber um allar hlíðar og firði.

Þetta eru Grasa-Guddur nútímans. Fremstur fer í flokki Magnús og liggur karlinn sá ekki á skoðunum sínum og þekkingin hreinlega svífur út í belg og biðu - og ef mældur væri í desíbilum vær'ann langt yfir hættumörkum. Ekki veit ég hvort málverkið á suðurgafli smiðjunnar skírskoti til þessa. En berin þekkir hann betur en flestir - eða eins og hann segir sjálfur "ég veit það....þó ég hafi ekki hugmynd um það" með tilheyrandi handapoti til áherslu.

Húsráðandi sjálfur hefur nú tínt nokkra pottana og lent í hvílíkum berjum að annað eins hefur aldrei sést - nema auðvitað hjá hinum sem allir hafa lent í enn meiri berjum en allir hinir til samans sem hafa þó verið í ótrúlegu berjamagni og svo miklu að annað eins hefur ekki sést......nema náttúrlega af sumum sem sáu meira. 

Er nema furða að maður sitji hljóður og fullur aðdáunar yfir þeim ævintýrum sem þessir menn hafa upplifað - og ekki ýkja þeir - draga heldur úr!

Já, svo er nú það. Berin verða tilbúin eftir tíu daga - það segja karlarnir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ég er sko búnað fara í berjamó og tína tvisvar í fulla súrmatsfötur! Þau eru alveg tilbúin á nokkrum stöðum og gegn hóflegri greiðslu skal ég upplýsa þig um þa´staði......

Ylfa Mist Helgadóttir, 8.8.2008 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband