Til hamingju Ísfirðingar - mikið hitamál er leyst.

Já það er yfir mörgu að gleðjast þessa dagana. Hér fyrir Vestan á að fara að grafa göng yfir í Bolungarvík þó að menn séu ekki á eitt sáttir hvað göngin eiga að heita - en grafin verða þau og ku verða hægt að keyra þau í báðar áttir - sem er jú gott.

En það mál sem stendur uppúr að mínu mati hér á Ísafirði og er í engu minna mál en valdatafl þeirra borgarbúa - en það vatnsfötumálið.

Vatnsfötumálið...hvað er nú það kunna margir að spyrja. Já það er nefnilega fátt eins notalegt og að sitja kófsveittur og allsber í gufubaði. Og til þess að kynda undir - ekki ósvipað og sjálfstæðismennirnir í Reykjavík gerðu - þá þarf maður að skvetta vatni á ofninn - til að magna hita og almenna vellíðan.

Og hér er einmitt undirrót eins mesta vanda síðari ára hér - og það er vatnsfatan og ausan! Hún var nefnilega orðin slöpp sú gamla - og ausan varla svipur hjá sjón. Og svo sjóðhitnaði allt saman og varð vart á haldið.

En viti menn - þegar ég kom í gufuna í gær þá var búið að kaupa þessa dýrindis fötu úr tré og ausu í stíl! - já, menn eru bara að "spandera" á Ísafirði.

Ég vil óska meirihlutanum til hamingju með ákvörðunina sem líklegast hefur verið lengi í nefndum - í það minnsta tók þetta tíma. Og talandi um tíma - væri nú ekki ráð að kalla til annan fund og sammælast um að kaupa fallegt tímaglas á vegginn.

Já, ég segi til hamingju Ísfirðingar með bætta aðstöðu til afslöppunar.

Hver segir svo að hér séu ekki "hitamál".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert óborganlegur Þorleifur minn  En ekki trúi ég öðru en vísindamaðurinn og múrarinn hafi getað í sameiningu fundið út úr hvernig á að bera vatn í ofninn.  Annars er sú saga að það tapaðist ein fata þegar verið var að gera gönginn vestur, svo var mál með vexti að það var verið að múra veggina, og einn múrarann vantaði smá vatn í fötu, þarna horfði hann á vatn renna með miklu afli í stokk einum til hliðar við veginn, og hann setur út fötuna sína, hafði sett á hana kaðal, en fatan fór eins og tappi í niðurfall og stíflaði allt rennslið, það kostaði víst miklu meira en eina fötu að laga það fötumál, svo það er von að það taki langan tíma að skoða einhver fötumál, sérstaklega þegar þau eru í einhverju sambandi við vatn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband