Hverra manna ertu þú vinur?

Ég er Akureyringur í húð og hár þó ættir eigi ég að rekja í Svarfaðardal og austur á land. Og þegar ég var að alast upp á Akureyri og mætti manni sem tók mig tali þá hófust viðræðurnar ávalt á þessum orðum:"hverra manna ert þú vinur".

Þetta þótti ekkert tiltökumál enda eðlilegt að vita hverra manna menn eru. Enginn áfellisdómur - nema kannski ef maður var ekki "af réttum ættum" að mati viðmælanda. En ekki spurði maður til baka...."en þú"... nei það bara var ekkert svoleiðis.

Og ég man líka vel eftir því þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í atvinnulífinu - þ.e. sem sumarstarfsmaður með skóla - varla stærri eða merkilegri en brunahani í götukanti - nú, þá hafði pabbi samband við kennidíana og ég var settur sem aðstoðarmaður Geirsa í Tryggvabrautinni - dældi bensíni á bíla og ýmislegt sem til féll. Það þótti bara allt í lagi að pabbi reddaði mér þeirri vinnu - enda bjó jú einn kennidíinn í götunni heima og var ágætis kunningi pabba. Það var bara svoleiðis.

Nú hin síðari ár - sérstaklega eftir að ég menntaði mig - þá hef ég lítt getað beitt pabba fyrir mig - enda karlinn kominn á eftirlaun og hefur engin ítök - og kennidíarnir búnir að selja. Ég hef því þurft að telja upp á pappír allt sem ég hef lært og gert og sem ég tel skipta máli í það og það skipti. Og stundum hefur það bara ekki dugað til - ég ekki passað fyrir viðkomandi starf - þótt hæfur - en bara annar sem var hæfari - út af betri menntun og meiri reynslu. Ég hef auðvitað tekið því enda engin ástæða til annars.

En það er þetta með hæfnina. Mér virðist nefnilega hæfni vera svo merkileg. Það sem einum finnst gott - þykir öðrum slæmt. En auðvitað er mikilvægt að hæfnin sé tengd því sem verið er að leita í fari umsækjenda. Ekki er til dæmis gott að ráða dýralækni sem mannalækni þó auðvitað megi fullyrða að sumir sjúklinganna séu "bölvaðar skepnur" og sumir lítt skyni bornir. En það bara passar ekki. Frekar en að ráð glæpamann sem lögfræðing - jafnvel þó að sá hinn sami hafi áralanga reynslu og margoft komist í kast við lögin.

Maður getur nefnilega verið hæfur þó annar sé kannski bara miklu hæfari. Sama hverra manna maður er.

En á Akureyri gilda greinilega ennþá sömu gömlu gildin og spurningin "hverra manna ertu" hljómar líklegast enn.

Nóg um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Þetta er mjög skemtilegur pistill,svona svartur humor,sem vantar allt of oft í bloggum.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 12.1.2008 kl. 17:49

2 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

Meiriháttar pistill, og að mínu mati alls ekki svartur húmor heldur algert raunsæi. Þetta er svona og ágætt, maður kemst ekki endalaust á forsendum annarra, verður að standa og falla með sjálfum sér. Takk fyrir þetta Svarfdælingur.

Sólveig Hannesdóttir, 12.1.2008 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband