Fimmtudagur, 20. desember 2007
Undirbúningur jóla er annatími snyrtimenna - nokkur góð ráð.
Ég er snyrtimenni. Ekki snyrtipinni - snyrtimenni. Ekki svo að ég sé signt og heilagt að skvetta á mig Kölnarvötnum eða kreista fílapensla. Nei - ég er haldinn snyrtiáráttu sem hefur það birtingarform að ég ét allt sem mér finnst skaða heildarmyndina - en þar á ég heildarmynd þess sem verið er að matbúa eða baka fyrir jólin.
Og þar er hápunkturinn auðvitað piparkökuhúsið sem skreytt er sælgæti og ýmsu gúmmelaði. Alltaf finnst mér einhverju ofaukið og ét ég þá viðkomandi stykki. En auðvitað felst í þessu ákveðin áhætta - nú maður getur jú eyðilagt jafnvægið með því að éta fyrir slysni ranga skreytingu. Verstu mistökin eru þegar maður á leið hjá húsinu á þeim tíma sólarhrings þegar maður er hálfur í draumheimum - svo sem þegar skroppið er ofan til að kasta af sér vatni um miðja nótt - nú þá sér maður illa og finnst eins og þurfi aðeins að rétta til útlitið á húsinu. Svo endar þetta náttúrlega með því að skaðinn verður tilfinnanlegur. Ráðið við slíkum mistökum er að snúa húsinu þannig að skaðinn verði lítt sjáanlegur. Lágmarka skaðann.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig piparkökuhús og skreytingar.
Eins er það með smákökurnar - en endalaust er hægt að éta þessar sem hafa ekki "rétta lögun" - eða eru "of dökkar". Best er þó að stunda þá iðju þegar frúin er ekki við - enda óvíst að hún hafi sömu sýn og maður sjálfur - reyndar mjög ólíklegt að svo sé - reyndar með öllu vonlaust.
Hér hef ég ráð. Ef kökurnar eru ennþá á bökunarplötunni þá er um að gera að hræra í þeim svo uppröðunin verði óreglulegri og þ.a.l. erfiðara fyrir konuna að átta sig á fækkuninni. En það er með ólíkindum hve naskar þessar konur eru á minnstu frávik frá bökuðum kökufjölda. Ef hinsvegar kökurnar eru komnar í kökubauk þá er ekkert annað en að þykkja undirlagið - t.d. með gömlum dagblöðum.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig smákökur.
Svo eru fleiri möguleikar. Hér er einn sem átti sér stað á heimili fyrir norðan. Húsmóðirin hafði keypt dýrindis ávaxtaköku sem átti að njóta um jólin. Kakan sem var hátt í 50 sentímetra löng að mig minnir var geymd í ísskápnum. Húsbóndinn hafði þann hátt á þegar hann vaknaði á nóttunni að koma við í ísskápnum til "að kanna hvort ekki væri allt með felldu". Nótt eina rekur hann augun í kökuna og án þess að ráða við sig opnar hann umbúðir kökunnar og skar af endanum. Þegar hann setur kökuna inn í ísskapinn á ný - sér hann að engin ummerki eru um heimsóknina - þar sem sást jú bara í annan endann á kökunni þegar búið var að raða undanrennufernum þétt að kökunni. Hann hugsaði sér gott til glóðarinnar og vandi komur sínar í ísskápinn á hverri nóttu fram að jólum. Svo fór það auðvitað svo að þegar húsmóðirin ætlaði að sækja kökuna á jólakaffiborðið var pakkningin tóm - nú fyrir utan endann er vísaði út úr ísskápnum.
Húsbóndinn reyndi auðvitað að bera af sér alla sök - en illa gekk þar sem hjónin voru jú bara tvö í kotinu og ekkert hundspott til að kenna um.
Já maður hefur margt lært af honum pabba gamla.
Athugasemdir
Góður pistill og frábærar leiðbeiningar. Konuna og köttinn hef ég ekki þannig að ef til vill nýtast þær ekki þessa dagana.
Júdas, 21.12.2007 kl. 07:52
= speki dagsins takk fyrir það Tolli
= "þykkja undirlagið"
Ester Rut Unnsteinsdóttir, 21.12.2007 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.