Afhjúpaður við kjólakaup - kvenlegt eðli í súkkulaðilandi.

Ég komst í'ann krappann - þar sem karlmennskan ræður ríkjum - í heimabæ jakkafatanna og formlegheitanna - í Brussel.

Ég fór utan að hitta nokkra kollega - ræða málin og spekúlera - kynna niðurstöður og taka þátt í Evrópumálunum. Já ég fór til Brussel. Hafði að vísu komið þar áður en fannst lítt spennandi - kannski vegna þess að ég hafði engan tíma til að skoða - bjó og fór á fund í ESB hverfinu - sterílu og ljótu.

En nú hafði ég auka tíma - tíma til að labba og skoða. En fyrst var það fundurinn með skriffinnunum - bírókrötunum. Í háreistu húsi sem ekki hafði nokkra hlýju settumst við á fund. ESB fulltrúinn var ung kona sem augljóslega var þreytt - ofurþreytt og stressuð. Ég kveikti á tölvunni - hugðist taka á móti mikilvægum sendingum - enda tæknin svo mikil að maður þarf ekkert að detta úr sambandi þó maður sé í útlöndum.

Og til mín streymdi tölvupóstur. Fyrst kom eitt bréf frá "Edinborgarhúsinu" á Ísafirði. Ég opnaði póstinn og reyndist hann vera frá fínni frú sem músíserar í "Skugga-Sveini" - og hljóðaði uppá að ég skyldi kíkja í flottustu fatabúð Brussel borgar ef ég hefði tíma. Nú, jæja hugsaði ég og einbeitt mér að fundinum. Kollegarnir sem sátu mér við hlið skildu auðvitað ekki skilaboðin - enda á íslensku. Karlmenn frá skotlandi - Frakklandi og Noregi.

En þá kom gusan - tölvubréfin streymdu inn - öll merkt "Edinborgarhúsinu" - ég hélt að um bilun væri að ræða - og ákvað að opna þau til að kanna vandann - og þá byrjuðu myndirnar af skjótast fram - af gullfallegum stúlkum í kjólum! og undir stóð - "þessi er fínn" ...."líst betur á þann númer tvö"....og svo framvegis. Kollegarnir í jakkafötunum kímdu - horfðu á mig kankvísir þegar ég lokaði myndunum einni af annarri.

Svo lauk fundi - og glósurnar byrjuðu fyrir alvöru..... "mikið hefur þú bætt á þig...ertu kominn í D-skálar..." ... og ólmir vildu þeir fara með mér í kjólabúðina - sáu svo vel fyrir sér íslendinginn í rauðum blúndukjól - eitthvað svo jólalegur - með belgískt súkkulaði á milli fingra.

Og auðvitað reyndist mér gjörsamlega ómögulegt að fara inn í nokkra búð - ávallt hafði sá franski orðið og talaði með öllum öngum við afgreiðslustúlkurnar  - benti á mig og svo greyp hann um mitti sér og veifaði frá sér....og afgreiðslustúlkurnar brostu - litu á mig, kinkuðu kolli og brostu til mín með meðaumkun...og ég skildi ekki orð.....

Já - það var ekki laust fyrir að frúin í Edinborgarhúsinu hafi gert mér lífið erfitt í borg bírókratanna - og nú er maður stimplaður "the Icelandic transverstite".....

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Ekki gleyma að kaupa þér rauða skó með pinnahælum við rauða kjólinn! Slaufa  í hárið og þá ertu kominn með jóladressið.

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 29.11.2007 kl. 18:50

2 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

og svo er að mæta í herlegheitunum upp í Edinborgarhús og panta sérrí ...

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 29.11.2007 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband