Mánudagur, 19. nóvember 2007
Það sem vel er grafið geymist vel!
Í kvöld er frumsýning á Skugga-Sveini. Örlar á stressi og spenningi - það er gott. Veður er vont og minnir sjálfsagt um margt á líf þeirra útilegumanna - það er líka gott.
Fyrstu setninguna skrifaði ég í fyrradag. Nú er frumsýningin afstaðin og reyndar sýning nr. 2 líka. Jón minn sterki er búinn að rífa kjaft og fá flengingar - en ótrauður heldur hann fram ágæti sínu.
En það sem ég sagt vildi hafa er að Matthías spilaði ákveðna rullu í hugum margra krakka fyrir norðan - ekki beint sjálfur heldur húsið hans sem stóð og stendur enn á stöllunum fyrir neðan kirkjuna - Sigurhæðum. Háreist hús á fallegum stað. Þar grófum við okkar fyrstu flösku - ef svo mætti að orði komast. En áður en maður komst á innkaupa-aldurinn þurfti að fá einhvern til að kaupa fyrir sig flösku - kryppling eða aumingja eins og stundum var sagt. Og fenginn varð að fela - ekki þorði maður með hann heim. Og því lá ágætlega við fela við rætur húss Matthíasar - sem stóð jú nærri bænum og var í leiðinni heim.
Í þá daga voru menn ekkert fjasask þetta með eðalvín og ártöl - nei, vínið var "Stjáni bróðir" - kínverskt rauðvín eða krypplingur. Ekkert flóknara en það. Að vísu var maður á þeim tíma líka sannfærður um að hvorki pabbi né mamma kynnu að telja - því við og við hnuplaði maður kirsuberja vínflösku úr heimilisframleiðslunni....dísætu og drakk af stút í lystigarðinum sem konurnar gerðu um árið.
Það var í þá daga - þegar fjársjóður var ennþá grafinn. Flöskur og bara allt sem átti að geymast til betri tíma. En auðvitað var best að muna vel og leggja á minnið hvar gröfturinn átti sér stað - því annars varð veiganna ekki neitt né afraksturs notið. Og stundum urðu það einmitt örlög greftrunar - "líkið" bara fannst ekki aftur. Ætli maður eigi ekki eina eða tvær flöskur ennþá grafnar á góðum stað við rætur Matthíasar.....
En verri voru þó hremmingarnar sem Taui vinur minn lenti í. Hann eins og svo margir fór í unglingavinnuna - sem hét einfaldlega vinnuskólinn í þá daga - enda var maður undir húðlatri stjórn góðra manna - Bjössa Sverris og Sigga Davíðs....og lærði vel til verka - við að hesthúsa einni með öllu og lítilli kók....en það er nú önnur saga. En hvað um það, aumingjans Taui hafði reitt arfa allan liðlangan daginn þegar verkstjórinn kom á landróvernum og deildi út launaumslögunum - en í þá daga fengu menn borgað í peningaseðlum. Taui greyið, ekki með vasa á buxunum og í skítugum jakka tók á það góða ráð að grafa umslagið - á góðum stað í útjaðri garðsins - kirkjugarðsins. Lagði vel á minnið hvar staðurinn var og ætlaði svo að sækja fenginn að loknum vinnudegi - og njóta erfiðisins með ljúffengum ís og gúmmelaði.
En aldrei fann Trausti ræfillinn staðinn - "leiðin voru eitthvað svo lík" og ómögulegt var að átta sig á staðsetningunni.....já þetta var launalausasti mánuður Taua - sem í dag skilst mér að geri það gott í Könudu.
Já - minningar um Matthías ylja manni.
Athugasemdir
Til hamingju með Skugga-Svein :) alltaf gaman að fylgjast með áhugaleikfélögum á landsbyggðinni. Vonda veðrið hefur passað vel við í þetta skiptið. Gamla Skugga hefur eflaust oft verið kalt á klónum
Ásta Steingerður Geirsdóttir, 19.11.2007 kl. 20:34
skuggalega spennandi - gangi þér vel og góða skemmtun
Ester Rut Unnsteinsdóttir, 21.11.2007 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.