Laugardagur, 10. nóvember 2007
Skugga-Sveinn á fjölunum fyrir Vestan. Litli Leikklúbburinn með metnaðarfulla sýningu á haustdögum.
Ekki veit ég hvort að tilviljun ein réð því að ég var fenginn til að koma á eina æfingu með Litla Leikklúbbnum (LL) á Ísafirði og lesa hlutverk "Jóns sterka" í Skugga Sveini - en það sumsé gerðist og nú er ég "orðinn Jón sterki...".
Aldrei, aldrei fyrr hef ég nálægt leikhúsi komið - í það minnsta ekki baksviðs né á sviði. En nú er ég sem sagt kominn í hlutverk í Skugga Sveini sem LL er að setja upp undir stjórn konu minnar Hrafnhildar Hafberg.
"Nú,nú - seisei, varla hefur það verið mikil breyting" segja sumir, "þú ert líklega undir sömu stjórn á æfingum líkt og heimavið". Og auðvitað er það rétt. En munurinn er bara sá að nú býr aumingjans Hrafnhildur með okkur báðum.... "Jóni sterka og mér" - eins og það hafi nú ekki verið nóg að búa með mér einum - þó ég sé ekki ýmist staddur á "grasafjalli að gutla við grefils fitl í sólskyninu" eða "að berja danskinn á Bakkanum" líka líkt og Jón sterki......
En Jón Sterki er skemmtilegur karl, þó mestur sé hann í kjaftinum - eins og Sigurður á Dal bendir réttilega á í leikritinu. Hann er hrokagikkur hinn mesti - lítur stórt á sig - og rífur kjaft við menn og málleysingja. En þegar á hólminn er komið þá.....
Já - ég held að þetta verði hin mesta skemmtun. Og upplifunin að fá að taka þátt í þessu felst ekki síst í því að maður fær nýja sýn á hið hversdagslega - þ.e. samferðafólkið. Í hlutverkunum eru nefnilega einstaklingar sem maður á förnum vegi þekkir sem sjúkrafluttningamann - bóksala - tölvunörda og guð má vita hvað. Skemmtilegur hópur sem umbreytist í útilegumenn - lögréttu og sýslumenn - bændur og búalið. Meira að segja Hólasveinar eru þarna komnir ljóslifandi og syngjandi í þokkabót! Já, það er ekki amalegt að vera með kennslustöðu við Hólaskóla og kynnast þeim Hólasveinum eins og þér létu hér á árum áður - syngjandi glaðir og kokhraustir - eða eru þeir kannski ennþá svona....?
Leikmyndin mun vekja eftirtekt enda um nýstárlega hugmynd að ræða sem miðar að því að heiðra minningu Sigurðar málara Péturssonar - skemmtileg útfærsla hjá honum "Jóni Sigurpáls vip.hon.art." Já hún á eftir að koma skemmtilega á óvart þessi sýning.
Það passar vel að sýna Skugga Svein í nýopnuðu Edinborgarhúsinu eftir miklar endurbætur - stórglæsilegum húsakynnum LL - en þegar húsið var opnað á sínum tíma var það einmitt Skugga Sveinn sem var fyrsta sýningin.
Nú er bara að sjá hvort fólk mæti..... en frumsýningin er 17. nóvember....
Athugasemdir
Þú ættir þá að fara létt með han Jón ;)
Leitt að geta ekki séð þetta hjá ykkur. Nema auðvitað að þið séuð með sýningu á tímabilinu 30. des - 4 jan?
Ársæll Níelsson, 10.11.2007 kl. 19:50
þetta er snilld, njóttu þess bara að geta valið hvor þú ert þennan og hinn daginn - konan ræður vel við báða ...
Ester Rut Unnsteinsdóttir, 14.11.2007 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.