Mánudagur, 15. október 2007
Það kostar klof að ríða röftum.
Nú er umræðan um að leyfa sölu bjórs í matvöruverslunum farin á flug - aftur. Að vísu er Guðlaugur gamli MA ingur kominn "á bakvið eldavélina" - í Heilbrigðisráðuneytið - og þarf líklegast að reikna út aukinn kostnað fyrir heilbrigðiskerfið þegar "allt fer á flot".
Nokkrar spurningar vakna: Er þetta ráðlegt? - Skiptir þetta einhverju máli? Hvað nákvæmlega er fengið með þessari breytingu?
Nú er það svo að hægt er tengja alkahólisma við áfengisneyslu....hm.. en jú, maður verður líklega ekki alki nema að drekka - í það minnsta þarf maður að drekka til að vera virkur alki - og aukið aðgengi hlýtur að ýta undir það - í það minnsta hjá heilsdagsölkum sem drekka líka eftir að ÁTVR lokar.
En áfengisverslanir eru jú ansi mikið opnar - ekki minna opnar en t.d. matvöruverslanir - tja, að mestu leyti og víða úti á landsbyggðinni þar sem sólarhringsbúðir þekkjast ekki. Svo ekki er það aðgengið sem ríður baggamuninn. En er það verðlagið sem er að drepa okkur? Telur fólk að verðið lækki við það að gefa söluna frjálsa? Tja, rannsóknir í t.d. Svíþjóð hafa sýnt að með því að gefa sölu áfengis frjálsa þá muni verð í raun hækka - einfaldlega vegna þess að það magn sem sem einstakur innflytjandi flytur inn mun minnka - og því munu samningar við erlenda byrgja í raun verða dýrari. Svo að ég held að þau rök muni ekki duga - verðið stýrist líklegast mest af opinberum gjöldum - og vart lækka þau þegar bölið eykst....eða hvað heldur þú Guðlaugur?
Af hverju er þá ekki bara hægt að tala hreint út og upplýsa að það sem í raun býr að baki er að búa frjáls í frjálsu landi - að hafa fullt aðgengi að þeim vörum sem má kaupa án frekari vottorða eða opinberra leyfa. Semsagt - mega fara út í búð og kaupa bjór - bara af því að það er hluti af sjálfstæðinu og það bara kemur engum við eftir tvítugt....
En hvað gerist þá í búðunum.....nánast allir starfsmenn sem eru á kössunum í þeim verslunum sem ég versla í eru langt undir 20 ára aldri....! Kannski skaffar Rauðikrossinn sjálfboðaliða með aldurinn í lagi?
Já þetta er ekki auðvelt - Það er nefnilega svo að það kostar klof að ríða röftum.
Athugasemdir
Er það sambærilegt, Andri, tóbak falið einhvers staðar á bak við og bjór í kælinum?
Finnst ykkur í alvörunni ekkert mál að börn og unglingar alist upp við það að kælivaran lifrarpylsa og kælivaran bjór séu jafngildar neysluvörur sem jafnsjálfsagt sé að kippa með sér um leið og eplum og brauði?
Kolgrima, 16.10.2007 kl. 10:00
Alveg út í hött! Skil ekki hvað fólk á svona erfitt með að fara í ríkið. Veitir líklega ekki af meira skipulagi í líf sitt. Og ef að Gulli á að fara að reikna eitthvað fyrir þjóðina . . . þá Guð hjálpi okkur.
Fiðrildi, 16.10.2007 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.