Sunnudagur, 16. september 2007
Skíthræddur smali skjálfandi á beinunum....
Ég fór í göngur í gær morgun - rifinn upp klukkan fimm um morgun og dreif mig ásamt fleirum út í Óshlíð þar sem bóndinn á Hanhól beið með virðulegan staf. Nú átti að smala Óshlíðina - snarbrattar hlíðar - djúpar gjár og varasamar skriður - fara um ófærur og vera upp á náð almættisins kominn.
Við hófum ferðina við Kálfadal - klifum fyrsta hjallann og gengum tveir, bóndinn og ég sem leið lá upp hlíðina. Við blasti Kálfadalurinn, grunnur en grösugur og því mátti búast við að finna fé á beit. Ekki var þó svo í þetta skiptið heldur beið tófa ein hvít og loðin í hlíðinni og kippti sér lítið upp við að bóndinn nálgaðist, sem er margreynd refaskytta og ætti því með réttu að vera ógn í tilveru skolla. En kannski vissi hún að ekki vorum við hennar vegna á ferð um fjallið - að hún væri óhult, ffallegt dýr í íslenskri náttúru. Mér varð hugsað til stofnunar Refaseturs Íslands sem átti að eiga sér stað í Súðavík síðar um daginn - nokkuð sem verður gaman að heimsækja á ferð um Djúp.
Og í einfeldni minni hélt ég að þetta væri byrjun á notalegri göngu í fallegu veðri í stórbrotnu landslagi. En raunin varð önnur. Bóndinn réði ferðinni og ég fylgdi honum líkt og hlýðinn hundur um hvert fótmál - mótmælti ekki heldur þagði á milli þess sem ég dæsti og blés.
"Hlauptu upp hallann " kallaði bóndinn og benti með stafnum - "það er greiðfærast að vera á fjárgötunni" - "stingdu þér niður undir klettinn". Já, nú var bóndinn á heimavelli - tignarlegur með stafinn og gaf lítið fyrir máttleysislegar athugasemdir smaladrengs um hættur í hlíðinni.... minnti á stundum á Gandálf úr sögunni um hringinn. Ég ætlaði mér að vera til gagns og hætti að malda í móinn - varð sammála öllu sem bóndinn sagði og svo var ég beygður - kjarklaus í klettabeltinu - að hann hefði auðveldlega fengið mig til að ganga í Framsóknarflokkinn ef hann hefði bara haft með sér pappíra til að skrifa á. Langskólanámið mátti síns lítið í faðmi fjallsins.
Langt fyrir neðan sást glitta í bíl á leið til Bolungarvíkur - og lítt greinilegri var girðingin sem reist var til að stöðva grjóthrunið - já, greinilegt var að sérfræðingar vegamála höfðu ekki staðið í mínum sporum - við rætur þverhníptra kletta - í stórgrýttum skriðum og ófærum sem virtust bíða átekta eftir að kasta úr sér bjargbrotum mönnum til viðvörunar "verið heima mannskepnur".
Allt eitthvað svo stórt og hrikalegt að manni leið eins og manni á árbakka sem hvetur ána til að beina rennslinu í hina áttina - vanmáttugur. En ekki bóndinn - hann var kóngur í ríki sínu og gekk hröðum skrefum eftir kindagötunni og virtist allt eins geta verið að rölta um miðbæ Bolungarvíkur - afslappaður á heimaslóð. Eina hljóðið sem heyrðist var hvinið í vindinum sem spilaði á klettana og undir sló hjartað í mér taktinn.
Skriðurnar fannst mér erfiðastar - laust grjótið og brattinn gerði það að verkum að undirlagið fór allt af stað og staka grjót tók á rás niður hlíðina - í gríðarlegum loftköstum kastaðist það á ógnarhraða og undirstrikaði ógnarkraft fjallsins. Stórkostleg sjón og manni varð enn frekar ljóst hættan sem slíku fylgir fyrir vegfarendur um Óshlíðarveg.
Svo voru það gjárnar - þær þurfti bóndinn að skima því aldrei var að vita nema að staka kind lægi þar í leyni - og þá var um að gera að fara varlega enda hafði verið næturfrost og aukin hætta á að manni skriki fótur. Ekki hefði þurft spyrja að leikslokum ef slíkt gerðist. Og ég varð sífellt hræddari - en þagði og elti.
Ég er ekki lofthræddur maður að eðlisfari - en þetta eru aðstæður sem eru hreint ólýsanlegar - engin leið nema áfram - ekkert upp og ekkert niður - í það minnsta ekki gangandi - og því ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og fylgja bóndanum.
Þetta var ótrúleg upplifun að eltast við fé í ófærum og snarbröttum hlíðum fjalls sem margir hafa óttast á ferð sinni um hlíðina - nú skildi ég hræðsluna og gerði mér grein fyrir hve við mannfólkið erum óveruleg í samanburðinum við náttúruna.
Athugasemdir
Það er öllum hollt og nauðsynlegt að finna fyrir þeim aðstæðum þar sem maðurinn verður að treysta á sjálfan sig. Og þá jafnframt að finna til ákveðinnar auðmýktar fyrir náttúrunni og umhverfinu sem á einu andartaki getur breytt öllu því sem máli skiptir.
Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 22:01
Já, það er gaman að fara í göngur og réttir.
Mér þykir verst að í ár verð ég líklega fjarri góðu gamni þar sem ég verð fyrir sunnan um næstu helgi - en mér skilst að Dýrfirðingar muni smala þá. Það þýðir að ég missi líka af kjötsúpunni góðu á Gemlufalli, sem við fáum venjulega í verklaun þegar fé er komið af fjalli.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.9.2007 kl. 11:02
Þessi pstill var hreint afbragðs lesning!!! Hann er í formi, bóndinn á Hanhóli. Svo miki er víst.
Ylfa Mist Helgadóttir, 17.9.2007 kl. 16:55
Mér sýnist nú að bóndinn hafi nú ekki þurft að vera í formi, hafandi annan eins jálk með sér til að hlaupa þarna upp og niður!!
Karl Jónsson, 18.9.2007 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.