Laugardagur, 11. ágúst 2007
Aum er Grímseyjarferjan.
Þetta er að verða hálf dapur farsi þessi Grímseyjarferja - sem svo kallast þó aldrei hafi dallurinn til Grímseyjar komið.
Ég hef hinsvegar komið til Grímseyjar. Fór þangað sem strákur með systkinum og foreldrum - auðvitað á gamla Drang. Ekki man ég sérstaklega eftir því að uppi hafi verið háværar kröfur um aðstöðu fyrir túrista í þá daga. En mig minnir að ferðalangar hafi setið aftur í skipinu en farangurinn hafður fremst.
Og það var töluverður hópur um borð - útlendingar í meirihluta og blikkuðu þeir okkur krakkana á bryggjunni og dáðust að dugnaði að nenna í 6 tíma siglingu til Grímseyjar - en mig minnir að svo langan tíma hafi siglingin tekið. Við vorum auðvitað nestuð líkt og tíðkaðist þegar fjölskyldan lagði upp í ferðalög - en við höfðum aldrei áður farið í siglingu og þaðan af síður í siglingu með útlendum ferðamönnum. Eftir á að hyggja hefði líklegast verið betra ef mamma hefði nestað okkur meira internasjonellt - og minna hlustað á pabba sem er svo þjóðlegur í nestunum. Við vorum semsagt með svið og annað þjóðlegt í farteskinu.
Svo var haldið úr höfn - Akureyrarhöfn því að í þá daga var Akureyrarhöfn fyrir skip - ekki skemmtibáta og líkamsræktarstöðvar eins og er í dag. Stefnan var auðvitað tekin út Eyjafjörð. Við sátum niðri krakkarnir og útlendingarnir sögðu "hæ há arjú". "Fæn" svöruðum við. Ekki vorum við búin að sigla lengi þegar mikið hungur sótti að fjölskyldunni. Pabbi gamli fussaði og benti á að við værum vart komin út úr höfninni. En við gáfumst ekki upp og ég var sendur út af örkinni til að sækja fyrsta nestisboxið. Þegar ég kom upp á þiljur sé ég að við erum á móts við Krossanes. "Mikið óskaplega hungrar mann á svona siglingum" hugsaði ég.
Niðri í matsal voru sumir útlendingarnir farnir að draga djúpt andann - sjóveikin var aðeins farin að segja til sín - því auðvitað hafði þetta fólk aldrei á sjó komið. Eldri kona kastaði hressilega upp og ælan rann líkt og hraunstraumur eftir gólfinu. Samferðafólk hennar reyndi eftir bestu getu að þurrka upp matarleifarnar frá deginum áður.
Þetta hafði nú ekki mikil áhrif á hungur fjölskyldunnar. Ég var kominn með nestisboxið og pabbi dró upp vasahníf sem hann sagði vera með reynslu enda margnotaður af afa þegar hann réri frá Hrísey í gamla daga. Útlendingarnir fylgdust með - þessir sem ennþá héldu haus. Pabbi dró upp sviðahaus og stakk úr honum augað - rétt mér og ég smjattið vel á. Ekki varð þetta til að bæta ástand útlendingana - gusurnar gengu upp úr þeim á víxl - en fjölskyldan herti átið. Hver á fætur öðrum voru sviðakjammarnir hreinsaðir.
Svona gekk ferðin - við átum og útlendingarnir ældu. Ferðin sóttist vel. Nestið sem átti að duga í þessa tveggja daga ferð kláraðist á móts við Grenivík - en í Grímsey var auðvitað hægt að fylla á. En heimsóknin í Grímsey var mér ógleymanleg og því hlakka ég til þegar hægt verður að komast þangað í bát sem hægt verður að treysta.
Athugasemdir
Fyrir mörgum árum réð ég mig á vertíð í Grímsey. Steinbítsvertíðin átti að standa yfir í 2 mánuði að mig minnir, enn einhvernveginn endaði þessi vertíð hjá mér þannig að ég snéri til baka eftir tæp 2 ár.
Grímsey er flottur staður og hefur allt að bera til að vera svona túrista staður, þar er mikið fuglalíf og stórbrotið landslag þó staðurinn sé ekki stór.
S. Lúther Gestsson, 11.8.2007 kl. 16:00
oj . . mér varð óglatt bara af lestrinum :) Gaman að lesa bloggið þitt!
Arna Einarsdóttir, 11.8.2007 kl. 19:37
Góð saga. Ég dundaði mér við svipað í gamla Herjólfi. Nema á matseðlinum var hamborgari með græðgislega mikilli sósu og vel útilátinn skammtur af kokteilsósu með frönskunum, fórnalömbin voru blásaklausir þjóðverjar sem ældu jafn oft og ég stakk einhverju af sullinu upp í mig. Ég verð að viðurkenna eitt og það má alls ekki fara lengra, djö.... hafði ég gaman af öllu saman. þegar til eyja var komið labbaði glænýr stofn þjóðverja í land, sem sagt fagur græn kvikindi sem fengu einlæga kveðju stráksins í leiðarlok Sig Hæl.
Hallgrímur Guðmundsson, 12.8.2007 kl. 03:03
Þú verður bara að drífa þig áður en "nýja" ferjan kemur. Sæfari er bara ágætis skip og alveg hægt að treysta honum. Sú "nýja" kemur ekki alveg strax.
Jón Ingi Cæsarsson, 12.8.2007 kl. 11:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.