Mánudagur, 16. júlí 2007
Brúðkaupið og kellingin á móti.
Ég hef alltaf dáðst af nöldrandi kellingum. Fátt er eins tímafrekt og að vera að pirra sig á öllu mögulegu og ómögulegu. Þegar ég tala um kellingu á ég ekkert endilega við kvenkyns persónu - nei ég tek orðið kelling og geri það að lýsingarorði fyrir "nöldrandi persónu sem veit ekkert hvað hún er að tala um". En þetta lýsingarorð notar vinur minn Finnbogi Bernódusar í Bolungarvík og er ég sammála honum.
En aftur að þessum téðum kellingum. Ég er slík á stundum. Já segi það og skrifa - bölvuð kelling - nöldrandi yfir einhverju sem skiptir engu máli. Er svo pollrólegur þegar meira bjátar á - skrítið það. En ég er náttúrlega bar amatör kelling - kann í rauninni ekkert að beita mér - enda hlustar konan yfirleitt ekkert á mig - heyrir þetta ekki.
Sumar kellingar eru hinsvegar miklu meiri kellingar en aðrar - eru sannkallaðar kellingar - með munninn fyrir neðan nefið en því miður minni starfsemi fyrir ofan það. Ég hafði kynni af einni slíkri um sl. helgi - en þá var ég staddur í brúðkaupi suður í henni Reykjavík.
Veðrið var með eindæmum - hreinlega heitt og sólin skein - svo að Snæfellsjökull í fjarska var rósrauður og bleikur - í stíl við stemmninguna. Brúðkaupið var haldið á heimili brúðhjónanna á Seltjarnarnesi. Mikið tjald hafði verið reist á bílastæðinu og rúmaði það á annað hundrað gesti - skemmtileg stemning og fólk í góðu skapi. Allir nema kellingin á móti - hún var auðvitað urrandi ill á bak við tjöldin - enda óþolandi að reist skuli "hús" án hennar leyfis og hvað þá að til stæði að gifta fólk - bara sísona. Nei - hún benti brúgumanum á að "þó hann væri Ásgeir í Tölvulistanum þá væri hann ekkert yfirvald" - þeinkjú verrí möts. Og auðvitað kvartaði kellingin - yfir hávaða og ræðuhöldum - söng og guðsorði. Já hún stóð sína plikt af stakri prýði.
Já - maður fyllist lotningu yfir dugnaðar kellingum líkt og þeirri á móti. Hún kann greinilega til verka. Ég reyndar tel að slíkir eiginleikar séu ákaflega dýrmætir - en vannýttir. Ég sé t.d. að hægt væri að nota svona kellingar til ýmissa "leyniaðgerða - önderkover oppereisjón" - t.d. að planta þeim á tjaldstæði á bíladögum á Akureyri - nú til að dempa lætin og jafnvel svæla liðið heim til sín - nú eða vera með sveit slíkra kellinga sem hægt væri að senda á vettvang til að brjóta upp mótmæli - svo sem hjá Saving Iceland. Svo mætti auðvitað fara í útrás með kellingahópinn - taka að sér að ryðja hús og borgarhluta. Danska lögreglan myndi líklegast þiggja með þökkum að fá hópinn í Kristjaníu - svæla út dópistana - láta þá fá gúmmorren.
Já - nú er ráð að menn geri sér grein fyrir þessari óbeisluðu orku sem felst í nöldrandi kellingum landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vá hvað ég er sammála þér hérna með þessar blessuðu "kerlingar". Ég bý á stað þar sem allt er fullt af svona kerlingum og eru nokkrar þeirra landsþekktar eða í það minnsta landshlutaþekktar.
Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 16.7.2007 kl. 12:30
halkatla, 16.7.2007 kl. 16:23
Ég hef heyrt þá kenningu að sumar kellingar séu svona vegna þess að það er lítið um hreyfingar í rúminu hjá þeim. Held að það sé stundum einhver sannleikur í því.
Vantar allavega eitthvað til Þess að slaka aðeins.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 19:35
Einhverstaðar þarf þrýstingurinn að komast út.
Skafti Elíasson, 18.7.2007 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.