Fimmtudagur, 21. júní 2007
Hvar er Fjalla Eyvindur þegar við þörfnumst hans mest.
Fjölskyldan var búin að ákveða fyrir margt löngu að fara norður til Akureyrar um sl. helgi - konan ætlaði að halda upp á 20 ára stúdents afmæli frá MA - skemmta sér ærlega og rifja upp gamla tíma - vel það.
Til að gera bílferðina skemmtilega var búið að plana stopp á leiðinni - fara út fyrir þjóðveginn og skoða staði sem við annars höfðum aðeins séð nöfnin á - á skiltum við þjóðvegi númer eitt. Vorum sem sagt ekkert að flýta okkur og gáfum okkur tíma. Aðal stoppstaðurinn og þar sem við vorum búin að ákveða að snæða kvöldverði úti í náttúrunni var við stað sem við líkt og flestir íslendingar höfum ekið framhjá án þess að svo mikið sem hægja á okkur - Borgarvirki í Vesturhópi - skammt frá Blönduósi.
Veðrið var fremur leiðinlegt - rigning á köflum og okkur leist svosem ekkert sérstaklega vel á það að sitja úti og borða ljúffengt nestið. En þegar við komum í Hópið þá auðvitað glennti sólin sig og bauð okkur velkomin - bjartviðri - hlýtt og notalegt. Við brunuðum sem leið lá í átt að Borgarvirkinu - staðnum sem engar heimildir eru til um tilurð á en prófessor Haraldur Bessason tjáði föður mínum að hann teldi einna helst að þetta væri frá tímum Tyrkjaránsins - en fólk var hrætt á þeim tíma og vildi verjast - fróðlegt væri ef einhver lumaði á frekari skýringum.
Þegar við komum upp að Borgarvirkinu - hálf manngerðu virki sem stendur á hæsta hólnum í Hópinu var útsýnið gríðarlegt - stórkostlegt. Þýskur ferðabíll - búinn öllum þægindum stóð við staðinn þar sem búið var að koma upp borði fyrir fólk eins og okkur að borða nesti - og við því auðvitað ekkert að segja. En þegar við nálguðumst þá varð okkur ljóst að ekki var um fólk að ræða sem ætlaði að borða sitt nesti og halda svo áfram ferðinni - nei ekki aldeilis - hér var um þýska ferðamenn að ræða sem auðvitað nýttu sér ókeypis aðstöðu og voru búnir að planta sér þarna niður og ætluðu að dvelja um nóttina - voru búin að koma sér þægilega fyrir á stoppstaðnum - og sátu og drukku bjór - við nestisborðið.
Mikið er það leiðinlegt að fólk sem aldrei myndi gera slíkt hið sama í sínu heimalandi - skuli ekki kunna að virða þær reglur sem gilda - svona svæði eru ekki tjaldstæði - nei, þetta eru staðir til að stoppa á - njóta útivistar og halda svo sína leið. Og þetta var ekki eina tilfellið í þessari ferð - nei ekki aldeilis - á mörgum sambærilegum stöðum stóðu ekki bara einn heldur á stundum margir erlendir ferðabílar.
Er ekki kominn tími til að setja upp skilti til að benda fólki á þetta. Í heimalandi þessa fólks myndi enginn gera þetta - einfaldlega af því að það er ekki öruggt - ræningjar og þaðan af verri lýður rænir nefnilega svona fólk.
Já hvar Fjalla Eyvindur þegar maður þarf á honum að halda - gerum fólkinu grein fyrir að íslenskir útilegumenn séu á sveimi og enginn vill verða á þeirra vegi......né stoppstað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Við þurfum greinilega að koma á magnaðari sögum um "ungbarnaskipti" álfheima við mannfólkið sem og betri sögum af tröllum sem eru EKKI orðin að steini fyrir löngu.
B Ewing, 21.6.2007 kl. 14:40
Eyvindur liggur grafinn í sóleyjartúni á austurströnd Hrafnsfjarðar á ströndum. Krossinn er vel sýnilegur af sjó. Kannski er ráð að fara með særingar þar og sjá hvað skeður.
Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2007 kl. 16:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.