Fimmtudagur, 7. júní 2007
Refur í hænsakofa - minning úr sveit.
Ég hefði líklegast verið stimplaður ofvirkur strax í barnæsku - en það hugtak var bara ekki til og því var ég "kraftmikill og uppátækjasamur" strákur. Svona heilbrigður gutti sem fólk hafði gaman af - en mamma var þreytt. Hún sá um börnin fjögur og svo fimm en pabbi fór í sveitirnar og læknaði dýrin stór og smá. Og ég get ekki skilið enn þann dag í dag hvernig móðir mín fór að þessu. Gafst reyndar stundum upp á eina drengnum í hópnum og batt mig við flaggstöngina í garðinum heima. Það voru bar engin önnur ráð - ég var út og upp um allt.
Svo auðvitað þegar pabbi kom heim þá leysti hann sinn mann - veitt'onum frelsi og með það var ég horfinn. Já þetta voru skemmtilegir tímar og sökum þessara eiginleika þá upplifið ég margt - og foreldrar mínir líka - sumt taugastrekkjandi. En þá var auðvitað ekkert rítalín - ekkert prosac og fólk bara tók þessu sem órjúfanlegum hluta lífsins.
Ég fór að rifja þetta upp þegar ég ók um sveitir Eyjafjarðar með pabba - fyrrum héraðsdýralækni í Eyjafirði og Akureyri. Mikið var breytt og fátt eins og áður - útihúsin flest tóm og búpeningur vart sjáanlegur á túnunum. Í ferðinni i hittum við aldraðan bónda og stórt bros færðist yfir andlit gamla mannsins þegar pabbi kynnti mig sem litla hnokkann sem gjarna var með í vitjunum í gamla daga.
Mitt barnaheimili voru ferðir með pabba í sveitirnar - í vitjanir. Þá var gaman. Kellingarnar á bæjunum elskuðu þennan ljóshærða hnokka - ég fékk appelsínu hjá húsfreyjunni á þverá - mysing í skeið hjá Mæju í Árgerði og svo mætti lengi telja. Og kaffið eftir að dýralæknirinn kom úr fjósi - það var sko ekkert slor. Enda mátti sjá úr langri fjarlægð þegar pabbi hafði ekki haft tíma til að drekka kaffi á bænum - þá sat ég í framsætinu eins og öskrandi ljón - hótaði því að fara aldrei aftur í sveitina með helv...dýralækninum. Svo var farið í nýja vitjun - og kaffisopi þeginn.
Það var í einni slíkri ferð sem ég hvarf. Var ekki margra ára og eftir að hafa mokað mesta skítinn úr flórnum - snyrt beljurnar og laumað í þær fóðurbæti - og í því augnabliki sem vökul augu bændanna og dýralæknisins litu af mér - þá hvarf ég.
Þegar í ljós kom að ég var horfinn hófst mikil leit - enda hættur margar á stórum sveitabæjum - mykjuhús og skurðir - vélar og tæki - bæjarlækur og á - allt lífshættulegar gildrur. Í langan tíma var leitað - en hvergi fannst ég - ekki í fjósinu - hlöðunni eða niður á túni.
Ekki var laust við að ótti væri farinn að grípa um sig hjá pabba og bændunum - sem voru farnir að óttast að ég hefði skokkað niður að á - og dottið í ána. En engin ummerki voru um að ferðir mínar við ána - sem betur fer. En hvar í ósköpunum gat hann verið - bændunum féllust hendur - vissu ekki hvar ætti að leita.
Við fjósið stóð hænsnakofi - í svolítilli hæð frá jörðu og upp að litlu gatinu lá spýta fyrir hænurnar að ganga eftir til að komast inn. Gatið var rétt um höfuðstærð og því datt ekki nokkrum manni í hug að þar inni væri nokkuð annað að finna en hænur. Dyrnar að kofanum sem ætlaðar voru mannfólkinu voru að auki lokaðar utanfrá. Mikill hávaði barst þó frá kofanum - hænurnar görguðu sem þær máttu og haninn gól - skyndilega sést undir iljarnar á tveimur Nokia stígvélum - og smám saman kom lítill búkur í ljós - með ljósan koll - glaður í bragði en þreyttur eftir átök við hænurnar. Þær höfðu verið settar í bað - búið var að baða hópinn.
Miklir fagnaðarfundir urðu og allir hlógu að þessu - en varpið lá niðri á bænum í marga daga - svona óþarfa bað var hænunum ekki að skapi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Athugasemdir
Mikið hafði ég gaman af að lesa minning úr sveit
Sigurbjörg Sigurðardóttir, 7.6.2007 kl. 16:32
Já Tolli minn... enda vorum við náttlega "Natural born speed freaks" svo það þurfti ekkert að vera að vera dæla í okkur þessu dótinu - Já þetta er orðið bara ömurlegt eins og staðan er í dag... Foreldrarnir dæla rídalíni í ormana og henda þeim á leikskóla, dagvistun og hvað allar þessar "ég hef ekki tíma til að ala þig upp" sjoppur heita... Ja það er sem ég sæji það að einhverjir yrðu ekki "vistaðir" ef það þyrfti að sækja þá útá miðjan Eyjafjörð aftur og aftur eftir ýmist jakahlaup sem mistókst eilítið eða eftir einhverja flekasmíðina og tilraunasiglingar í framhaldinu... Ætli einhverjir afar dagsins í dag myndu færa 10 ára gutta brúsa með terpentínu til að þvo svertuna neðan úr gúmmískónum eftir "teikingar"... "svona rétt til að amma þín hafi ekki áhyggjur af þér vinur". Varla.. enda kannski ekkert sérstaklega til eftirbreytni. Nei í dag er sjóndeildarhringurinn hjá guttunum að vísu í Wide Screen en það er af tölvu- og sjónvarpsglápi en ekki vegna þess hversu duglegir þeir eru að kanna heiminn. Gott að vera gutti í gamla daga á Akureyri
Þorsteinn Gunnarsson, 8.6.2007 kl. 02:40
Mikið er ég sammála þessu og þetta er frábær grein að lesa. Ég hef það á tilfinningunni að fólk sé allt of lélegt við það að eyða tíma með börnunum sínum og lyf, skóladagheimili og íþróttafélög (t.d.) hafa stóran part uppeldis barna á herðum sínu.
Ásthildur Gunnarsdóttir, 8.6.2007 kl. 13:48
Skemmtileg saga hjá þér Tolli að vanda.
Hvað varðar vondu foreldrana sem setja börnin sín á rítalín af því þeir nenna ekki að vera með þeim, þá er það auðvitað skandall. Þetta vesalings fólk sem ekki nennir að fara með börnunum í skólann til að passa að þau geri ekki allt vitlaust þar. Nennir ekki að vera heima og hugsa um börnin er frekar útivinnandi að afla tekna fyrir óþarfa. Enda veit hver maður að við þurfum ekki svona mikla peninga og þjóðfélagið hefur ekkert að gera með allt þetta vinnuafl.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 11.6.2007 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.