Er náttúran einskis virði nafnlaus?

Getur verið að við lifum til þess eins að geta sagt frá. Sagt frá því sem við höfum gert og séð - og þess vegna sé ekkert verðmæti í því sem við ekki þekkjum. Er staðreyndin sú að náttúran er verðlaus ef hún heitir ekki eitthvað - hafi nafn sem hægt er að segja frá. Fáir töluðu um Kárahnjúka áður en virkjanaframkvæmdir hófust - flestum var sama því þeir höfðu aldrei á Kárahnjúka heyrt minnst - fáir höfðu komið á svæðið og því fáir sem voru til frásagnar - og svo væri ennþá ef ekki væri fyrir virkjanaframkvæmdirnar. En eftir að þær hófust Þá skyndilega varð fallegt uppi á Kárahnjúkum og nátturuverðmæti stórkostleg - og allir höfðu skoðanir á málinu. Allskyns hólar og hæðir og fjöll og dalir -  sem allt hafði nöfn lágu undir óbætanlegum skemmdum.

Ég gekk eitt sinn Laugaveginn - frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Þúsundir manna hafa gert hið sama. En ég gekk með staðkunnugum - manni sem hafði skrifað bók um leiðina og þekkti til - þekkti hvern hól og hverja hæð - fjallstoppa og dali. Það var stórkostleg upplifun - enda fékk ég að vita hvað allt hét - það varð svo miklu verðmætara - ég gat sagt frá þegar heim var komið - sagt frá þessu fjalli og fögrum dal.

Sömu leið á svipuðum tíma gekk kona mín. Hún gekk í hópi sem teymdur var áfram af leiðinlegum fararstjóra - sem ekkert sagði frá og ekkert fræddi. Henni leiddist þessi langa ganga. Hólarnir og hæðirnar voru þreytandi - fjöllin grá og dalirnir djúpir. Fegnust varð hún að skríða inn í tjald að degi loknum.

Svona getur þekking á staðháttum skipt máli - að vita hvað náttúran heitir. Gefur henni gildi.

Og nú er komið að Vestfjörðum. Nú er innprentað hvað firðirnir heita - hvað náttúran heitir. Fólki er gert ljóst að nú eigi að skemma Dýrafjörðinn - Arnarfjörðinn og alla þessa fegurð. Fólkið í Reykjavík er sjokkerað - er hreinlega hneykslað á þeirri fásinnu að hreyfa eigi við fagurri náttúrunni - sem heitir svo fallegum nöfnum. En hvers virði eru Vestfirðir mannlausir - hver á að njóta nafnanna - náttúrunnar og alls þess sem hún hefur upp á að bjóða?

Er það rangt að vilja nýta þá möguleika sem til staðar eru - gera landið byggilegt þeim er það vilja byggja. Ég held ekki.

Staðreyndin er sú að víða hafa framkvæmdir sambærilegar þeim sem rætt er um á Vestfjörðum reynst jákvæðar - ég nefni bæjarfélag í Noregi sem heitir Hammerfest. Þar er mikill uppgangur sem að stórum hluta tengist gríðarlegri gasvinnslustöð sem þar er staðsett - og gasið er unnið úr svæði sem kallast Mjallhvít. Þar á sér stað ágæt samlegð framkvæmda í gasvinnslu og t.d. fiskeldis - þorskeldis. Umframorka er nýtt beint inn í klakstöðvar - inn í eldið. Þar kvartar enginn í dag og sátt ríkir um málið.

En auðvitað ber okkur að fara varlega - vega og meta - skoða og rannsaka. Við megum ekki gleyma því að náttúran á alltaf að njóta vafans - alltaf. En okkur ber líka skylda til þess að gera landið okkar byggilegt - annars er það einskis virði. Bæði okkur sem lifum hér í dag - og eins börnum okkar um ókomna framtíð.

Berum virðingu fyrir þeim er vilja byggja landið - berum virðingu fyrir landinu. Sýnum skynsemi og tökum ábyrga afstöðu.

Það er mín skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þetta er góð skoðun.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 7.6.2007 kl. 07:39

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞEtta á enn frekar við um sjóvarbotninn.

Hann sér enginn nema fiskarnir og aungvir telja það lífríki til náttúrunnar, svona daglig dags.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 7.6.2007 kl. 08:56

3 Smámynd: Þorbjörg Ásgeirsdóttir

Fyrir mér er náttúran jafn verðmæt hvort sem hún hefur nafn eða ekki. Fegurðarstaðall tengist heldur ekki mínu mati á náttúrunni - óspillt náttúra er allltaf óspillt náttúra.

Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 7.6.2007 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband