Unga fólkið byrjar í sumarvinnu - ekki er ráðlegt að hrækja upp í augað á vinnuveitandanum.

Á þessum árstíma verður mér oft hugsað til atviks sem átti sér stað margt fyrir löngu - þegar sölulúgur voru að hefja innreið sína í Kaupfélaginu og við strákarnir hættum að fara í þrjúbíó og höfðu aldur til að fara í fimmbíó. Þetta var líka tíminn þegar Stjáni var í dyrunum á Nýjabíó og sætin voru merkt almenn sæti eða betri sæti.

Við Pálmi fórum oftast saman í bíó. Ég fékk pening hjá pabba en Pálmi átti alltaf pening - króna var fyrsta orðið sem hraut af vörum hans. Svo röltum við sem leið lá ofan úr Suðurbyggðinni og niður í bæ - auðvitað með viðkomu á öllum merkilegum stöðum - enda var farið tímanlega af stað því margt þurfti að bauka - sunnudagur og lífið lék við okkur.

Pálmi var reyndar dálítið merkilegur fyrir þær sakir að hann vantaði alltaf fyrir helmingnum af miðanum og ég þurfti að lána - notaði í það nammipeningana mína. Svo í hálfleik (ekki hlé - heldur hálfleikur) þá átti hann alltaf pening fyrir nammi - en ég þurfti að betla smakk. Það er nú önnur saga.

En það var einmitt í slíkri sunnudagsbíóferð sem óhappið verður. Við stoppuðum í sölulúgunni í Stórubúðinni við tjaldstæðið - en það var KEA búðin alltaf kölluð til aðgreiningar frá Litlu búðinni sem var sunnar í Byggðaveginum - í bílskúr og seldi fimmtíuaura lakkrís. Pálmi var eitthvað að betla frænku sína sem vann í búðinni og ég stóð fyrir aftan hann - þungt hugsi og kvefaður. Ekki var nokkur annar á ferli. Ég saug hraustlega upp í nefið - ræskti mig og safnaði safaríkri og þykkri slummu í munninn - snéri mér eldsnöggt við og lét vaða - en auðvitað án þess að gá hvort einhver væri fyrir aftan mig.

Ég hefði auðvitað betur gert það því þar var nú skyndilega staddur mann ræfill sem tók á móti slummunni líkt og Brasilískur knattspyrnumaður að skalla bolta eftir fyrirgjöf - hann að vísu tók'ann ekki á ennið - neibb - slumman fyllti aðra augntóftina - lak þar niður í rólegheitum - græn og gullfalleg. Við horfðumst í augu - eða auga - sögðum ekki orð í einhverjar sekúndur - en svo sé ég að svipur mannsins breytist í grettu - hann roðnar og fer allur að skjálfa. Við Pálmi tókum kipp og hurfum niður tjaldstæðið öskrandi af hlátri - enda nokkuð fyndið atvik - fannst okkur.

Ekki vissi ég deili á manninum fyrr en ég mætti fyrsta daginn minn í sumarvinnuna - þar sem ég átti að vera handlangari hjá múrara - og múrarinn tók á móti mér - við horfðumst þegjandi í augu í nokkrar sekúndur - svo sagði hann "sæll vinur og velkominn". Við ræddum þetta aldrei. Þetta varð skemmtilegt sumar og múrarinn fínn.

svo var nú það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband