Föstudagur, 4. maí 2007
50 tommu flatlús á búðarkalli í hversdagsfötum - með 10% fluttningskostnaði og 25% verndartollum.
Ég hef rætt í nokkrum pistlum um ótrúlegan verðmun á flatskjám á Íslandi og í Svíþjóð - og hef fengið viðbrögð. Nú má ekki misskilja að ég hafi verið að setja ofan í við "búðarkallinn í hversdagsfötunum" - neinei. Ég er bara að tala almennt um þennan mun. Og í dag - þá var ég einmitt stoppaður af búðarkallinum margfræga í hversdagsfötunum og vildi hann ræða flatskjá við mig. Mér leist ekkert sérstaklega vel á það því mér heyrðist hann segja flatlús - og fannst það enganveginn við hæfi niðrí miðbæ Ísafjarðar - og auðvitað ekki þar sem ég var með konunni. En hann gaf sig ekki og þegar hann nefndi stærðina - 50 tommur þá leið næstum yfir mig. Ég sá fyrir mér skrímslið sem aumingjans maðurinn væri með í brókunum - sá stutti væri líklegast skorpinn eftir blóðsjúgandi 50 tommu kvikindi - úfff.
Hann horfði á mig -starði - og skildi ekkert hvað væri eiginlega að viðmælandanum - náfölum og ræfilslegum. Svo sló hann létt á öxl mér og sagði - "37 tommur er líklegast besta stærðin fyrir þig - þetta er svo lítið hjá þér" - hvurn andskotann er maðurinn að segja hugsaði ég. Konan tók ekki eftir neinu og fannst þetta bara hið eðlilegasta mál - eðlilegt samtal tveggja kalla niðrí bæ. Ég skildi hvorki upp né niður - förum heim sagði ég hastarlega við konuna - ég hef ekkert hér að gera. Á leiðinni heim rann upp fyrir mér ljós - flatlúsin var flatskjárinn margumræddi. Þessi sem kostar svo mikið á Íslandi og lítið í Svíþjóð - og auðvitað þarf ég ekkert stærri en 37 tommur - plássið er svo lítið hjá mér - í 120 ára gömlu húsinu.
Já seisei - svona getur þetta verið. En niðurstaða þessa var að vondikallinn er ríkið - íslenska ríkið. Sem á stundum mætti halda að lifði sjálfstæðu lífi - enginn réði við skepnuna og hún gengi sjálfala um - nartandi af öllum - og þeir einu sem sleppa eru þeir sem koma sínu til útlanda þar sem ríkið nær ekki þá. Já ríkið - hvaða skepna er þetta eiginlega - sem hugsar svo ílla um afkvæmin að stór hluti virðist vart hafa í sig eða á - treður á þeim sem minni og selur sig hæstbjóðanda á götuhorni náttúrunnar - fáðu þér hluta af mér - kostar bara nokkrar krónur.
Nei - þetta þarf að endurskoða - afnema þessa tolla á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi - leyfa okkur borgurunum að njóta afgangsins frekar en að eyða honum í utanlandsferðir uppgjafaþingmanna og samráðsmönnum þeirra.
Það er löngu hætt að fraleiða Rafha eldavélar á Íslandi - takið eftir því. BURT MEÐ AÐFLUTTNINGSGJÖLD OG VERNDARTOLLA.
Það er mín skoðun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.