Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Skipulagsfræðingur með söguþekkingu dettur ofan í holu á Ísafirði.
Ég sá þessa fyrirsögn fyrir mér á forsíðu Séð og heyrt - en ég nefnilega fékk mann í heimsókn sem eins og fyrirsögnin bendir til er með fjöl-menntun frá tveim menningarsvæðum - lærði bæði á Íslandi og í útlöndum - og sem steinlá í götunni minni - sú vinstri lenti ofan í holu en hægri löppin upp á malbikshrauk. Já það er íllfær um göturnar á eyrinni. Og til að toppa ófærðina og valda sjónmengun af versta tagi þá voru bæjarstarfsmennirnir í holufyllingum í gær - svona eins og blindir menn í bútasaum - höfðu ekki hugmynd um hvar ætti að byrja - enda Tangagatan og reyndar vel flestar götur á eyrinni - eins og sneið af svissneskum osti - þykk sneið með djúpum holum - bara verri.
En aumingja skipulagsfræðingurinn sem hróðugur var búinn að segja mér af mikilli innlifun og söguþekkingu að Ísafjörður væri með elsta bæjarskipulag á Íslandi. Já allveg eldgömlu - meira að segja eldra en malbiksleyfarnar sem þekja eyrina. Ekki veit ég hvernig á því stendur að Ísafjarðarbær kemur ekki til móts við íbúana sem leggja sitt af mörkum við að gera upp gömul hús - skapa fallegt upprunalegt útlit gamalla hverfa - með því að hreinlega helluleggja þessar gömlu götur. Það er nefnilega svo að á Ísafirði er hellusteypa - nokkuð sem er einkaframtak duglegrar fjölskyldu og því þarf hvorki að bíða eftir að Ómar komi siglandi á strandferðaskipi eða fært verði vestur - hellusteypan er á staðnum.
Ég vil ekki þurfa að sértryggja alla gesti sem koma til mín - fólk sem glápir á fallega uppgerð hús og endar ofan í holu - holu sem erfitt getur verið að komast uppúr - og kannski er bara bæjarstjórnin föst í holu líka? tja ekki veit ég.
En semsagt - drífum í því að gera Eyrina aðlaðandi fyrir alla þá ferðamenn og Vestfirðinga sem þangað leggja leið sína - helluleggjum allar götur á eyrinni og hættum þessum "malbiks"framkvæmdum - enda eru hellulögn bæði endingarbetri og fallegri.
það er mín skoðun.
ps. skipulagsfræðingurinn er að ná sér -búinn að kaupa sér snjóþrúgur og ætlar ekki að taka neina sénsa í næstu heimsókn - ef það verður bílfært eða flogið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.