Laugardagur, 7. apríl 2007
Að kunna að klæða sig og skíta.
Í dag ætla ég að segja frá nýjum hluta í lífi Sölku. Hún kastaði nefninlega samfellunni og spígsporar um eins og nýfædd í hlutverki tíkar úr Tangagötunni. Horfir yfirlætislega á ketti og aðkomufólk. En bærinn er fullur af hvoru tveggja. Og hún er búin að finna sér stað til að skíta. Á nýhlaðinn kant í garðinum - svona hálf inni í beði og hálf á stéttinni - þarf bæði að vera fim og frjálsleg í fasi til að skíta við slíkar aðstæður. Maður eiginlega fyllist stolti við að sjá aðfarirnar - þetta myndi sko enginn aðkomumaður á Ísafirði geta - ekki séns.
Og rétt í þessu sem Salka kastaði samfellunni fylltist bærinn af aðkomufólki - að mér sýnist mest úr Reykjavík. Og ég veit það því þetta fólk er allt öðruvísi en við landsbyggðarfólkið - og ég veit það vel því að ég hef oft komið söður. En það er alveg sama hvað ég fer oft söður - ég er einhvernveginn alltaf öðruvísi. Svona dálítið sveitó í nýrri Melka skyrtu og skinnjakka frá Gefjuni. Maður eiginlega er svona hálfgert eins og í sundbol á skíðum. Passar ekki - og það heima hjá sér. En Sölku gæti ekki verið meira sama - hún er nefnilega búin að prufa að dressa sig upp og fílaði það bara ekkert. Svo ég ætla að gera eins og hún - gefa þessu liði langt nef - fara bara aftur í Melkaskyrtuna mína - skvetta á mig kölnarvatni og keyra niðrá Ásgeirsbakka og fara á "Aldrei fór ég suður" hátíðina. Þó að það sé auðvitað ekkert langt heiman frá mér og á hátíðina - ekki svona á Reykjavíkurstórborgarskala - en halló, við erum fyrir Vestan og þar er dálítill spölur úr Tangagötunni niðrá Ásgeirsbakka - og ég fer á bílnum.
Og óíkt slæmri upplifun hér um daginn þá var gufan opin í dag. Meira að segja búið að kveikja á ofninum og hún var Heit - og ég fór. En í fyrsta skiptið síðan ég flutti vestur fyrir um 3 árum var hún full af fólki - ósköp venjulegum náungum - geðþekkum guttum að sönnan - hélt þeir væru hérna í tjaldferðalagi með pabba og mömmu - en varla,- það er svo kalt - og sumir voru nefnilega með einskonar skegg og aðrir með tattú. En ágætir strákar. Ég spjallaði helling við þá. Alltaf gaman að tala við fólk sem er í heimsókn - svona venjulegt fólk - og geta leiðbeint þeim um praktíska hluti - segja þeim hvar sjoppan er og búðin og svoleiðis. Svo fóru þeir allir í sturtu . En þegar þegar ég fór uppúr þá voru þeir allir farnir - þessu ljómandi góðu strákar. En fyrir utan Sundhöllina var aftur á móti fullt af einhverjum rokkurum að sönnan - allir eithvað svo kúl gaurar - í leðurjökkum og támjóum skóm - með svört spangargleraugu og reykjandi. Mér fannst ég eitthvað kannast við þá - svona eins og ég hefði hitt þá áður - en gat ómögulega komið fyrir mig hvar. Þeir kinkuðu kolli til mín - bara sison - en ég bara strunsaði framhjá í Melkaskyrtunni - djö... fer nú ekki að leggja lag mitt við svona lið -eins gott að passa sig á svona liði - gæti bara lagst uppámann með partý og allskonar. Leiðinlegt samt að geta ekki kvatt ungu mennina í gufunni.
Já það er svo.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.