Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Að koma út úr skápnum í krummaskuðspirringi.
Datt í hug að setja inn nýjan pistil um lax. Svona til að ná úr mér krummaskuðspirringnum. Ég nefninlega ætlaði að skreppa í gufu - þessa sem í nágrannalöndum kallas "sauna" og þykir sjálfsagður hlutur - enginn lúxus, bara normal þægindi. En ekki á Ísafirði. Það er nefninlega ekki bara það að í bænum sé einn saunaklefi - svona tréskápur með litlum ofni - nei málið er að þegar skápurinn á að vera opinn almennum karlpeningi - til að slappa af kófsveittur og nakinn eða í brók -þá þarf maður helst að hringja á undan sér til að starfsmennirnir muni eftir að ýta á "on" takkan. Líklegast stendur pé og a með bollu - svona skandínavíska. Og ég náttúrlega hringdi í kvöld til að kanna hvort að ekki væri opið - "jú ekkert mál, lokum klukkan níu" svaraði karlmannsrödd sem ég þekkti. Vörðurinn síkáti í Sundhöllinni - já höll - ekki laug heldur höll.
Ég tók sundbrók og handklæði og labbaði þessa 50 metra - jebb, bý rétt við höllina - lúxus. Skellti mér úr og í brókina - og inn í skápinn fór ég - eithvað svo tilbúinn til að svitna - mása og stynja af ánægju. EN - ískuldi streymdi á móti mér - ekki þessi þægilegi sauna ylur sem er svo góður á lyktina - jújú, saunað var opið - bara slökkt!!
Ja, hann var ekki hýr maðurinn sem kom út úr þessum skáp - nei hann var hundfúll. Já það kom yfir mig krummaskuðspirringur - hvurn andskotann er maður að gera hérna - maður kemur ekki einu sinni hýr út úr skápnum.
já það er vandlifað. Nú verð ég að horfa á björtu hliðarnar - fyrst ég fæ ekki að fækka fötum og koma hýr og sveittur út úr skápnum fer ég bara í bíó. Nei alveg rétt - það er ekkert bíó á Ísafirði í kvöld...eða? ætti ég að hringja...?
Æi ég geymi laxinn - nokkrir reyndar búnir að ráðleggja mér að fara aftur í hundana. Ætli kvöldið í kvöld sé ekki bara farið i hundana - mér sýnist það.
úff.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.