Miðvikudagur, 4. apríl 2007
LAXINN: GREIN I.
Atlantshafslaxinn hefur ávallt vakið áhuga fólks og ófáar eru sögurnar af laxveiðiferðum þegar sá stóri slapp. Ástæða þessa áhuga felst etv. í því hversu tignarlegur fiskur laxinn er þegar hann á ferð sinni upp árnar til hrygningar lætur fátt stoppa sig og stekkur upp flúðir og fossa.
Vísindamenn hafa heillast af laxinum sökum þess flókna lífsferil sem laxinn lifir og gífurlegrar aðlögunarhæfni að lífi jafnt í sjó og fersku vatni. Atferli laxins, að færa sig úr ánni í sjó, ferðast um langan veg áður en að hann leytar uppi fæðingará sína til að hrygna sem kynþroska fiskur hefur lengi verið mönnum umhugsunar og rannsóknarefni.
Í nokkrum pistlum verður fjallað einstök atriði í lífsferli laxfiska og reynt að svara hinum ýmsu spurningum sem vakna þegar líf þessa merkilega fisks er skoðað. Fyrsti pistillinn fjallar um lífsferil laxins en síðan verður í nokkrum pistlum þar á eftir farið nánar í einstaka lífeðlisfræðilega þætti er skipta veigamiklu máli í lífsferli laxanna.
LAXFISKAR YFIRLIT YFIR LÍFSFERIL. Laxfiskar eru forn fylking beinfiska (latneskt heiti er Protacanthoptergii) sem talið að hafi myndast fyrir um 180 milljón árum og tilheyrir laxfiskaættin (Salmonidea) henni. Laxfiskaættin skiptist í þrjár undirættir, mallar (Thymallinae), karpafiskar (Corigoninae) og laxfiskar (salmoniae). Til laxfiska teljast fimm ættkvíslir, þ.m.t. Atlantshafslax, nokkrar tegundir af Kyrrahafslaxi, nokkrar tegundir Urriða og Bleikju.Helsta búsvæði laxfiska er á norðlægum slóðum. Þó er einnig að finna laxfiska á suðlægum slóðum sem líklega hafa verið innfluttir af mönnum en sloppið úr haldi og náð að fjölga sér í náttúrunni.
Laxinn eyðir ýmist allri ævinni í ferskvatni eða hluta í ferskvatni og hluta í sjó.
Þar sem laxinn eyðir allri ævinni í ferskvatni verða oft stór vötn í hlutverki sjávar og ganga fiskarnir í þær ár sem í vötnin renna.
Líklegt þykir að laxfiskar eigi uppruna sinn í ferskvatni þar sem þeir leita upp í ferskvatn til að hrygna og jafnframt sú staðreynd að hrognin þola ekki seltu.
Við kynþroska á sér stað útlitsbreyting hjá laxinum, frá silfurgljáandi áferð í litríkan riðabúning og er það merki um að laxinn sé að verða tilbúinn til að ganga upp í heimaá sína til hrygningar, sem yfirleitt á sér stað seint á haustin. Hængarnir koma fyrr á hrygningarsvæðin en hrygnurnar sem lenda inná þeim svæðum sem hængarnir hafa helgað sér. Þar grafa hrygnurnar holur og gjóta eggjum sínum, atferli sem hrygnur geta endurtekið nokkrum sinnum. Hængarnir sprauta síðan sviljum yfir hrognin áður en þau eru hulin möl á árbotninum. Því er staðarval fyrir got mjög mikilvægt til að tryggja afkomu hrognanna. Á þessum tíma étur laxinn ekkert og er því af skiljanlegum ástæðum mikið um afföll. Þeir fiskar sem lifa af til vors ganga þá niður til sjávar á ný og dvelja í sjó yfir sumarið, eða jafnvel lengur, áður en þeir ganga upp í árnar á ný til að hrygna.Hrognin eru grafin í möl á árbotninum yfir veturinn og klekjast eftir 6-8 mánuði og er klak háð hitastigi árinnar (um 400 daggráður þarf til klaksins). Fyrst eftir klak kallast seiðin kviðpokaseiði, eru um 2,5 sm að lengd og dvelja niðurgrafin í mölinni á árbotninum þar til forðanæringin er á þrotum og laxarnir verða að finna sér fæðu. Fyrsta sumarið tvöfalda seiðin líkamslengd sína og dvelja í ánni allt að 4 árum, algengast er 3 4 ár en 2 8 ár er einnig þekkt, eða þar til að þau hafa náð göngustærð sem er á bilinu 12-18 sm. Í Kálfá, þverá Þjórsár hafa rannsóknir sýnt að laxagönguseiði eru á bilinu 10 16 cm. Þegar sá tími rennur upp sem seiðin fara að ganga til sjávar hafa þau tekið miklum breytingum, bæði innra sem ytra. Þegar þessir ungu laxar hafa náð til sjávar fara þeir að vaxa hratt og þeir hundraðfaldað þyngd sína á einu ári í sjó ásamt því að útlitið breytist og þeir fá silfurgljáandi áferð (göngubúningur).
Afföll í sjó eru hinsvegar mikil enda lífsbaráttan hörð og þegar þau skila sér uppí árnar á ný er talið einungis á bilinu 1-30% nái til baka. Í ánum taka svo veiðimenn við og fækkar það ennfrekar þeim löxum sem ná að hrygna á komandi hausti.
Því lengur sem laxar dvelja í sjó þeim mun stærri verða þeir og er þar Grímseyjarlaxinn etv. þekktastur. En lífsferill hans var á þá vegu að hann mun hafa dvalið fjögur ár í ferskvatni, tvö ár í sjó og hrygndi eftir það, gekk til sjávar og dvaldi þar í tvö ár til viðbótar áður en hann hrygndi á ný og svo á annað ár í viðbót í sjó. Þetta er uppskrift að risalaxi stangveiðimannsins!!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.