Gatið á Þuríði - klámstefnan tekin á Bolungarvík.

Það verður að segjast eins og er að klám-doktorinn fyrir sunnan gaf mér nýja sýn á umhverfisvandann - sem ég hlýt að kalla umhverfisklám.

Það var nefnilega þannig að ég keyrði fósturson minn og vin hans á fótboltaæfingu í morgun - líkt og ég geri yfirleitt á laugardagsmorgnum. Nú, það hefði ekkert verið sérstaklega merkilegt um síðustu helgi en núna er ég svo uppfræddur um klám og hve lævís klámiðnaðurinn er. Þegar ég ætlaði að gera mig líklegan til að beygja inn á bílastæði íþróttahússins við Torfnes á Ísafirði þá blasa þar við skilti sem á var letrað stórum stöfum "INN" og "ÚT" - bara sí svona! En sem betur fer tókst mér að beina athygli drengjanna frá þessari beinskeittu tilvísun í algenga lýsingu úr hrárri klámmynd.

 Nú, ég náttúrulega gat ómögulega dvalið þarna nema um skamma hríð og ákvað að leita ásjár og útskýringa hjá góðum vini og framsóknarmanni í Syðridal - enda eru framsóknarmenn alræmdir klámhundabanar eins og frægt er orðið. En það var þegar vesturíslenskum klámhundi var meinaður aðgangur að bændahöllinni - sem er víst ekkert pútnahús. En þegar ég ek mína leið, virðist ég taka klámstefnuna út Hnífsdalsveg því að þegar mér verður litið út um austurglugga bifreiðarinnar þá sé ég hvernig Hnífsdalsbryggjan stendur kolsvört og grjóthörð, böðuð sjávarlöðri og beinist beint inní Ísafjarðardjúpið - sem í geislum morgunsólarinnar var með eindæmum lokkandi. Ég átti satt að segja erfitt með að hreinlega stöðva ekki bifreiðina og taka þátt í leiknum - en áfram varð ég að halda til leita aðstoðar framsóknarmannsins.

Og brátt var mér öllum lokið. Jú, Óshlíðin hefur aldrei þótt neitt sérstaklega blíð þó æsandi geti verið - sérstaklega þegar úr henni rennur flóð. Mér varð nefnilega litið rétt sí svona upp frá akstrinum og þar var hún, seiðandi þar sem hún bar við himin - stórfengleg og íturvaxin með gatið gapandi og mér fannst hún segja við mig "komdu,já vertu velkominn í Víkina". Já hún Þuríður er ekkert annað en umhverfisdóni af verstu gerð - sannkölluð klámdrottning þar sem hún gín yfir vegfarendum á leið til Bolungarvíkur. Þetta verður að stöðva - og það áður en aumingjans fermingarbörnin hljóta skaða af - nóg er nú samt að lesa um kaldranaleg örlög reykvískra unglinga sem leiðast út á klámbraut fermingargjafa í ömurlegum stellingum.

Og þarna lauk ferðinni. Ég gat ekki haldið áfram á þessari braut - hægði ferðina, stöðvaði bílinn og steig út. Horfði á Þuríði um stund, hugsaði málið. Horfði fram veginn og hugsaði minn gang. Hvað átti ég til bragðs að taka. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var ekki sá fyrsti sem hafði fengið þessa opinberun Þuríðar - það hafði greinilega verið annar á undan mér - líklegast einhverjum öldum áður því sá hinn sami var steinrunninn, orðinn að vita - sjófarendum til leiðsagnar. Hann stóð þarna beinstífur og benti upp í gatið á Þuríði  - en eitthvað var hann nú samt ámátlegur greyið - eitthvað svo stuttur, í raun bara hálf-viti. Kannski ekkert skrítið eftir að hafa staðið þarna í kuldanum áratugum saman - skroppinn saman og mátti muna sinn fífil fegurri. Örlög dónans sem fetar þröngt einstigi klámsins. Það voru ekki örlög sem ég vildi hljóta og fór því heim.

Já, svo var nú það. Þetta klám er stórhættulegt og gott til þess að vita að maður býr í samfélagi sem ekki leyfir slíkt.

það er mín skoðun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband