Kosningaskrif - nokkrum árum of sein á ferðinni...

 Það er nokkuð merkilegt að lesa grein Sólborgar Öldu sem birtist hér á síðum Bæjarins Besta (bb.is) og fréttablaðinu (visir.is) í gær..Það sem einkum er merkilegt er greinilegt þekkingarleysi Sólborgar á stöðu rannsókna í þorskeldi og þess starfs þegar hefur verið unnið á því sviði. Enda er jú greinin skrifuð skömmu fyrir kosningar og líklegast í tengslum við komandi kosningar. En það er ekki markmið mitt að ræða pólitík við Sólborgu. Ég ætla einfaldlega að benda henni á nokkrar staðreyndir er varða uppbyggingu þá sem Matís ohf. (áður Rf) hefur staðið að, ásamt samstarfsaðilum, á sviði rannsókna í þorskeldi. Staðreyndin er nefninlega sú að grein Sólborgar er nokkrum árum of seint á ferð – líklegast vegna slæmra samgangna? Ekki veit ég. Uppbyggingarstarf á sviði þorskeldis hófst fyrir nokkrum árum. Og hluti af uppbyggingu almennt er að sjálfsögðu vinna að skilgreiningu þess sem byggja þarf upp – það gefur auga leið. Og þetta allt án þess að kosningar væru í aðsigi – enda er það ekki heillavænlegt að birtast korteri fyrir kosningar og byrja að ræða um þörf á markvissri uppbyggingu. Nær væri að kynna sér málið og taka þátt í því góða starfi sem verið er að vinna óháð því hvort að viðkomandi ætli sér í framboð eður ei. Og hver er staðan í uppbyggingu rannsóknaumhverfis á sviði fiskeldis í sjó?
  1. Samstarf: Nú þegar er myndaður öflugur hópur innlendra og erlendra vísinda- og eldismanna. Þessir aðilar hittast reglulega, síðast í Björgvin í Noregi og verður næsti fundur haldinn á Ísafirði í Maí. Sem dæmi um þátttkendur í því samstarfi má nefna: Matís ohf., Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., Alfsfell ehf., Hafrannsóknastofnunin, Náttúrustofa Vestfjarða, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Vaki-DNG, Stirling háskóli í Skotlandi, Gautaborarháskóli í Svíþjóð, Landbúnanaðarháskólinn í Uppsala í Svþjóð, Hafrannsóknastofnunin í Björgvin í Noregi, Intravision Group í Oslo í Noregi og svo mætti lengi, lengi telja. Fyrirhugaður fundur er á Ísafirði árið 2009 í einu af mörgum rannsóknaverkefnum sem Matís ohf., á Ísafirði tekur þátt í – áætlaður fjöldi fundargesta er hátt í 200 – enda um gríðarlega stórt verkefni að ræða með heildarveltu um 120 milljón evrur.
  2. Rannsóknir. Fjölmargar rannsóknir eru þegar farnar af stað og allar eiga þær sammerkt að tengjast Vestfjörðum. Þessar rannsóknir eru flestar til lengri tíma – yfirleitt 3-5 ár sem er sá tími sem rannsóknasjóðir miða yfirleitt við.
  3. Áherslur. Þær áherslur sem eru í rannsóknum á fiskeldi í sjó tengjast flestar því sem talið er nauðsynlegt á hverjum tíma. Ekki er um geðþótta ákvarðanir að ræða heldur er gengið út frá vísindalegum rökum og þörfum fiskeldisiðnaðarins. Sem dæmi um áherslur í rannsóknum sem þegar er byrjað að vinna eru: Líf- og lífeðlisfræði þorsks í eldi, sameindalíffræðilegar rannsóknir á þorski með tilliti til vaxtar, gæða og kynþroska hjá þorski í eldi, áhrif sjókvíaeldis á umhverfi, samspil eðlisfræðilegra umhverfisþátta og sjókvíaeldis, velferð fiska í eldi.
 En hvað er málið – afhverju eigum við ekki bara að stofna “setur” – setur til rannsókna og guð má vita hvað? Það er engin lausn að stofna setur. Það sem skiptir máli er að rök séu fyrir því sem gera á – að markmiðin séu ljós og verkefnin af þeim toga að peningar fáist. Og það er einmitt mergur málsins. Það er enginn vísindasjóður í heiminum sem styrkir “setur” og það er ekkert “setur”sem leysir vanda – það er ljóst. Það sem skiptir máli er að út frá þeim aðstæðum sem eru til staðar á hverjum stað sé unnið markvisst að uppbyggingu rannsókna – og það höfum við gert hér fyrir vestan. Svo um munar og eftir er tekið. Nú er staðan sú að rannsóknaverkefni sem tengjast fiskeldi í sjó (þorskeldi) eru með heildarveltu upp á ríflega 300 milljónir. En það er bara byrjunin. Það þarf að sýna árangur og skila afrakstri. Og það er einmitt það sem þegar er farið að gerast og verður kynnt á vísindaráðstefnum á komandi misserum.

Niðurstaðan og staðreynd málsins er því sú að uppbygging er þegar hafin og mun halda áfram með þátttöku aðila úr vísinda og atvinnulífinu. Sú uppbygging mun hinsvegar þurfa allan þann stuðning sem ríki og sveitarfélög geta veitt – og talsmenn slíkrar uppbyggingar eru þeir sem landinu stjórna og kosnir til starfans af fólkinu öllu. Ég á því ekki von á öðru en að Sólborg og hennar fólk komi hingað Vestur og heimsæki okkur sem að uppbyggingunni vinna og skrifi nýja grein um hve vel henni hafi litist á allt saman og hvað þau hlakki til að stiðja við bakið á þeim hugmyndum – verkefnum og tækifærum sem hér eru.

Það er mín skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband