Laugardagur, 9. apríl 2011
Kynbótadómur í fermingur fyrir norðan.
Þegar börn eru fermd þá er það svo að gjarnan kemur fólk saman til að fagna. Í sjálfu sér er það ekkert skrítið því þetta ku vera viðburður sem skiptir máli í lífi hvers einstaklings sem svo kýs.
Það skemmtilega við slíkan hitting, ef svo má að orði komast, er að rifjaðir eru upp gamlir tímar, fólk jafnvel kynnist og á stundum menn dæmdir fyrir árangur, útlit eða heppnuð afkvæmi.
Í dag upplifði ég slíkt.
Ég hitti gamlan bónda úr Bárðardal. Sauðfjárbónda til áratuga og mikinn sauðfjár ræktanda. Hann tók mig tali og dásamaði veisluna og frænku sína sem verið var að ferma. Spyr mig svo hvort ég sé sonur Gústa dýralæknis. Ég kvað svo vera. Þið eruð ágætt fólk til útlitsins - en mikið helvíti er hann fallegur bróðir þinn með skeggið! Ha? segi ég....nei þetta er nú hann Ingólfur mágur minn segi ég. Noh segir þá bóndinn - já hann er assgoti fallegur - og svo þykkur til herðanna! Hvað gerir þessi maður?
Ég hló við og sagði honum það. Sagðist svo auðvitað átta mig á því að ófáa hrútana hljóti hann að hafa þuklað um dagana. Þessi myndi sóma sér á meðal bestu verðlaunahrúta! Þá hló bóndi.
Mikið varð Ingólfur mágur glaður - og mikið hlógum við systkin - jafnvel dýralæknirinn tók andköf. Auðvitað hafði Ingólf ekki grunað að dagurinn yrði hans - að loks yrði hann dæmdur af manni með þekkingu - sem vissi vel að þykkt á herðum og baki skipti máli - í ræktunarstarfi!!
Verð ég þó að viðurkenna að skeggið skyggir á dóminn - minnir um margt að kvikmyndaleikara í ákveðinni tegund mynda - sem eiga það að sammerkt að vera bannaðar börnum!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.