Fimmtudagur, 30. október 2008
"Hið gjaldþrota fyrirtæki deCode...." Sverrir átti kollgátuna.
Ekki á ég von á að Hannes nái að bjarga deCode þó hann sé kominn heim?!....eða er hann ekki kominn heim til að hjálpa við "mjaltirnar" - en slík voru laun þessara manna að telja verður að þeir hafi í raun veru fyrstu "mjaltaþjónarnir"!
Sverrir Hermannsson talaði ævinlega um "hið gjaldþrota fyrirtæki decode" - en hann var mjög mótfallinn þeirri stjórn sem það fyrirtæki hafði - að honum var hlegið og gætti hneykslan á tímum - en hvað hefur gerst?!
Eftir stendur að þeir vísindamenn sem starfa hjá fyrirtækinu og hafa starfað þar hafa skilað gríðarlega miklu til vísindasamfélagsins - á því leikur enginn vafi. Það er eins mjög sorglegt til þess að hugsa að slíkt fólk missi etv. vinnuna - áfall í raun og hættan getur orðið "brain-drain" í íslensku þjóðfélagi.
En sjálfsagt nær forstjórinn að kenna "ytri aðstæðum" um stöðuna - ekki á ég von á að hann taki á sig ábyrgðina - frekar en aðstoðarmaðurinn Hannes sem þáði ofurlaun.
Já staðan er dökk. Vonandi taka betri tímar við - og að við losnum við þetta óhæfa fólk sem búið er að koma okkur í þessar aðstæður. Það er fólkið sem á að leita út fyrir landsteinana!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 30. október 2008
Kreppa getur líka verið uppspretta nýrra hugmynda - samvinnu og lausna sem duga til framtíðar!
Að fólk fari að hugsa einsog landsbyggðin hefur gert lengi.
Mér finnst um margt áhugavert málefnið sem Björk Guðmundsdóttir er í forsvari fyrir. Hefði í raun viljað taka þátt í þeirri umræðu - sem vísindamaður - frumkvöðull og þátttakandi í uppbyggingu nýs atvinnuvegar sem byggir á sjálfbærni. En maður er jú ekki í "elítunni" fyrir sunnan....:(
En það er klárt mál að landsbyggðarfólk hefur glímt við kreppu um mjög langt skeið - fólksfækkun - ungt fólk leitar annað - atvinnutækifærum fækkar - aðstæður breytast og fólk þarf að hugsa sinn gang.
En allt skapar þetta tækifæri. Ég veit það af eigin raun því að fyrir nokkrum árum þegar ég eins og aðrir missti vinnuna hjá Íslenskri Erfðagreiningu þá þurfti ég að leggja höfuðið í bleyti - hugsa út fyrir kassann. Settist niður með góðu fólki.
Í dag er að komast á laggirnar nýsköpun í atvinnulífinu á Vestfjörðum - afraksturinn. Murr ehf. er stofnað og mun hefja starfsemi á næstu vikum (http://www.murr.is - upplýsingar er að fá hjá murr@murr.is) og sem skapar nokkur störf í Súðavík - það er gott. Þetta er afrakstur margra ára hugmyndar - með úrvinnslu góðra aðila og í samstarfi við Íslensk sláturhús og mun verða kynnt á næstu vikum.
Murr ehf. mun framleiða hágæða gæludýrafóður - sem þróað er af sérfræðingum á því sviði - fremsta fóðurfræðingi á þessu sviði sem við Íslendingar eigum - með hjálp dýralækna með áratuga reynslu af dýraheilbrigði. Einungis er unnið úr hágæða hráefni - ætluðu til manneldis - íslensku hráefni úr heilbrigðum dýrum. Kaupandinn mun vita hvað hann gefur gæludýrunum sínum og fá fóðrið á góðu verði.
Já - kreppa - hvaða nafni sem hún kann að nefnast getur gefið af sér hugmyndir - leitt til nýsköpunar. Og mér þykir vænt um að hugmyndin skuli vera brátt orðin að veruleika sem leiðir af sér ný störf á svæði sem átt hefur undir högg að sækja í mörg, mörg ár.
Sjálfur vinn ég áfram að uppbyggingu fiskeldis - þorskeldis í landinu - þar höldum við ótrauð áfram enda sóknarfærin mikil - og klárt mál að nú er réttur tími til að efla undirstöðu atvinnugreinar landsbyggðarinnar. Upplýsingar um þau mál er að finna á heimasíðu Matís - http://www.matis.is
Notum tækifærið til að byggja upp til framtíðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. október 2008
Stjórnvöld aðstoði ungt fólk sem missir vinnu.
Það hlýtur að koma til greina að Íslensk stjórnvöld aðstoði ungt fólk sem er að missa vinnuna. Eitt af því sem ætti að vera hægt að gera er að frysta námslán í tvö ár en flestir skulda námslán eftir skólagöngu. Eins hljóta stjórnvöld að aðstoða barnafólk og taka þátt í kostnaði vegna leikskóla - og daggæslu.
Þetta eru bara tvö dæmi sem svo sannarlega myndu skila sér beint til þeirra sem á þurfa að halda.
Það finnst mér....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. október 2008
Það er frost á Fróni - frýs í æðum blóð....samt sjást nokkrir karlar fara um á silkináttfötum!
Nú er frost á Fróni - kuldi og snjór. Kalt er í sinni og vonin lítil um betri tíð. Líklegast er ástandið ekkert skárra hér fyrir Vestan en annarstaðar. Illa gengur þeim bormönnum að finna heitt vatn þó þeir hafi nánast borað alla leið í Bónus - finna bara ekki sprunguna góðu. Spurning hvort að kreppan hefur jarðfræðileg áhrif - að allt hreinlega kreppi - líka sprunguna.
En nýjir tíma bera í skauti sér nýja möguleika. Fyrirhugað er að hafa Playboy kvöld á Diner einum í Súðavík - svona til að ylja sér við í skammdeginu. Eins og allir vita þá eru kanínurnar hans Hefners gullfallegar - og hann sjálfur gengur aldrei um neinu nema silkináttfötum. Og nú stendur leitin að hinum Vestfirska Hefner yfir - og verður sá hinn heppni að vera á svipuðu reki og hafa eigi minni kynþokka yfir að ráða.
Ég frétti af manni sem þurfti að leita aðstoðar í smiðju eina hér í bæ - sjálfur var ég fjarri góðu gamni liggjandi í flensu. En þegar mann garmurinn kemur upp stigann að kaffistofunni mátti heyra að menn voru að ræða sauma og silki af mikilli innlifun. Gesturinn skildi ekkert og taldi sig vera kominn á saumastofu - slík var umræðan.
Þegar hann rak nefið inn um gættina mætti honum sjón sem hann hafði ekki átt von á - þarna sátu þeir karlarnir - hver öðrum afslappaðri og allir í silkináttfötum. Og um það snérist umræðan - skyndilega voru þeir orðnir sérfræðingar í málefnum Hefners. Einn þótti hafa göngulagið - annar vaxtarlagið en sá þriðji fullyrti að hann væri með þetta fræga Hefnersbros.
Já þeir eru allir að gera sig klára karlarnir á kaffistofunni. Einn var þó fjarri góðu gamni - sá er telja má líklegastan til sigurs - sumir segja hann ennþá vera að telja peningana sem hann tók út úr Glitni banka hinum gamla - en þó fullyrtu karlarnir að hann væri heima að sauma náttföt.
Hvað er rétt í þessari sögu veit ég ekki - en hitt stendur þó eftir að þeir sóma sér allir vel sem Hefner enda voru þeir frægir á böllunum í gamladaga......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 25. október 2008
Spýtum í lófann og tökum slaginn - nýtum tækifærið og eflum nýsköpun á Íslandi.
Það er ljóst að við slíkt skipbrot sem Íslenska þjóðin upplifir nú þarf þjóðin á öllu sínu fólki að halda. Nú þegar veit ég til þess að ungt fólk er farið að leita til útlanda eftir vinnu og það er í raun það versta sem getur gerst - að missa gott fólk úr landi.
Ríkisstjórnin verður nú þegar að marka stefnu í uppbyggingu á sviði nýsköpunar og sprotafyrirtækja.
Ekki dugir að vísa til staðbundinna atvinnuþróunarfélaga og misgóðra "nýsköpunarsjóða" sem hvorki hafa fjármagn né þekkingu til stórra verkefna.
Nú þarf að taka til hendinni - bæta í og leggja fjármuni í að byggja upp. Við höfum mörg tækifæri - sum byggja á áratuga langri þekkingu og reynslu - önnur eru ný af nálinni með mikla framtíðarmöguleika.
Ég vil nefna ýmsa möguleika er tengjast grunnatvinnuvegum okkar - fiskveiðum og landbúnaði. Hér er margt hægt að bæta - og um leið mörg ný tækifæri. En vandamálið hefur verið að lítið fé hefur verið lagt í raunverulega nýsköpun á sviðinu. Á Íslandi er gríðarleg þekking á sviði veiða og vinnslu sem væri hægt efla mjög til nýskpöpunar - sem kostar og allir vita að íslensk útgerð berst í bökkum. En hví ekki að leggja t.d. tvo milljarða í sjóði til að styrkja nýsköpun á sviði sjávarútvegs - tveir milljarðar eru smápeningar miðað við þær upphæðir sem bankarnir virðast hafa leikið sér með á sviði bónusgreiðsla og launagreiðsla til örfárra manna. Og það sama á við um landbúnaðinn. Íslensk náttúra bíður upp á marga möguleika í landbúnaði - sem því miður kostar peninga að þróa - peninga sem við ættum ekki að hika við að leggja fram. Nú er tækifærið.
Það er fásinna að ætla að auka þorskkvóta til muna. Hinsvegar eru gríðarlegir möguleikar í þorskeldi. Þar er óplægður akur og möguleikar okkar Íslendinga felast í þekkingu og reynslu. Eflum þennan iðnað til muna.
Það sama á við um eldi annarra tegunda. Sérstaða felst í hreinleika Íslands - bæði til lands og sjávar - og þessa sérstöðu verðum við að nýta betur.
Ég vil nefna lífvísindi. Á Íslandi hefur skapast gríðarleg þekking á sviði lífvísinda og má í því sambandi nefna Íslenska Erfðagreiningu. Nú er talað um að ÍE sé að fara úr landi - sé á barmi gjaldþrots og fáist á spott prís. Hví ekki að efla háskólana í landinu og kaupa þetta fyrirtæki? ÍE væri með því móti góð viðbót og undirstaða menntunar og þekkingar á lífvísindum - myndi tengja saman háskólana í landinu og sú aðferðafræði sem þar er notuð myndi nýtast fjölmörgum öðrum greinum.
Ég vil nefna þekkingu á sviði virkjana og jarðvarma. Hér hefur skapast gríðarleg þekking sem reynt var að selja forkólfum útrásarinnar. Nú standa þessi fyrirtæki eftir í almannaeigu og eiga að haldast sem slík. Nú er lag að efla þann þekkingariðnað - og selja þá þekkingu dýrum dómum.
Gerum nú skurk í að byggja upp það sem við höfum stutt allt of lítið - byggjum á okkar fólki og okkar reynslu. Verum óhrædd að horfa til Íslands - í stað þess að einblína stanslaust út í heim.
Á Íslandi eru fjöldi ungra sprotafyrirtækja sem þurfa á styrk að halda til að geta eflst og orðið að alvöru atvinnufyrirtækjum. Fjárfestum í þessum fyrirtækjum - sem geta skapað svo miklu meira.
Svo má ekki gleyma því að Ísland hefur á síðustu vikum verið rannsóknastofa í hagfræði - nú höfum við möguleika á að nýta þessar ófarir til þekkingaröflunar. Gerum það í stað þess að kenna hver öðrum um. Eflum kennslu á því sviði og fáum heim íslensku sérfræðingana sem starfa úti í löndum og hafa setið á hliðarlínunni með innáköll og góð ráð. Gerum Ísland að miðstöð hagfræðiþekkingar.
Nú er tækifærið - tækifærið okkar Íslendinga. Spýtum í lófana og tökum slaginn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 25. október 2008
Okkur íbúum þessa lands hlýtur að verða gert kleift að segja okkar skoðun með kosningum á næsta ári - annað er bara ekki hægt!
Mér finnst staðan vera einhvernvegin svona - í einfölduðu máli.....
Stjórnvöld kenna bönkunum um sem kenna vöxtum og krónunni um sem er seðlabankanum að kenna sem er stjórnað af stjórnvöldum um sem kenna ytri aðstæðum um sem segjast hafa bent íslenskum stjórnvöldum á vandann sem er að finna hjá útrásarmönnum sem fjárfesta í útlöndum af því að ísland er of lítið sem þó á að gangast í ábyrgðir fyrir þá sem þeir neita svo að axla sjálfir sem yfirfærist á okkur íbúana sem ráðum ekki við það og veltum því yfir á börnin okkar.
Eftir standa þeir sem stýrðu ferðinni moldríkir ennþá og algjörlega með siðleysið skínandi úr andlitinu - orðum og æði - reysa sér hallir innanlands sem utan - aka og fljúga um á ofurfarartækjum - í klæðskerasaumuðum fötum....
Eftir stöndum við sem vitum ekkert hvað verður í framhaldinu - hvort við eigum í okkur og á - hvort við höfum vinnu á næstunni - getum átt húsin okkar eða bílana - búið okkar nánustu örugga æfi...
ÉG SEGI: VIÐ VERÐUM AÐ KLÁRA MÁLIÐ Á NÆSTA ÁRI MEÐ KOSNINGUM!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 24. október 2008
Steingrímur J. Sigfússon...ala...Georg Bjarnfreðarson.....
Ég held að í stöðunni þá hafi ekki verið annað en að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Það er ennfremur ljóst að sú vinna sem IMF hefur lagt í að fara yfir stöðu mála er forsenda þess að ákveðnar þjóðir láni okkur fé - Norðmenn þar á meðal.
Ég skil því ekki hvað vakir fyrir Steingrími með þessuendalausa hjali um að þessi gjörningur sé rangur og án þess að koma með nokkur vitræn mótrök - á tímum þegar fólki ber að horfa fram á veginn. Eitt er að berjast gegn stóriðju og virkjunum - en að berjast gegn björgun þjóðarbúsins er allt annað - og greinilega eitthvað sem hann er ófær um.
Forsætisráðherra Svía segir það ekki hafa verið á dagskráhjá þeim að styðja okkur án frekari athugunar - sem verði að túlkast aðkoma IMF og ég er viss um Sænsk alþýða sem er hliðholl okkur hefði krafist þess.
En langt er í land að mál séu uppgerð og Íslenska þjóðin mun ekki láta sópa neinu undir teppi - hvorki ábyrgð eða misbeitingu valds. Hvað sem menn eða fyrirtæki heita - allt þarf að rannsaka og öllum steinum þarf að snúa við.
Þetta mál þarf að kryfja - skoða - nýta til lærdóms svo að börnum okkar blæði ekki heimska okkar og óforsjálni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 24. október 2008
Og loks þegar ég hélt að nú lægi leiðin uppávið....þá dynja slæmar fréttir yfir okkur...
Þá las ég þessa hræðilegu frétt - hvernig eiga mennirnir að klára sumarhúsin sín...reka villur í útlöndum.....borga fyrir einkaþotur.....og bara lifa...... Ég bara spyr!
Já siðferðið er á háu plani.... eða þannig.
En þetta reddast.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Þeir eru hataðir...fyrirlitnir og lagðir í einelti - þeir eru minnihlutahópur!
Nýr hópur er kominn inn á borð hjá Fjölmenningarsetri -
Þetta eru "útrásarvíkingarnir".
Nú ku vera búið að finna lyf við þessu útrásaróeðli - við kvilla sem nefndur er "ótímabær útrás" og viti menn - það er sama lyfið og notað er við getuleysi!
Því mér er tjáð að með aukinni getu heimafyrir minnki útrásarþörfin - eða eins og Paul heitinn Newman sagði: "hví að fara út til að fá sér hamborgara þegar maður á steik heima"!
Já loks er ljós í myrkri þessara manna.
Ein pilla á dag kemur þessu í lag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 22. október 2008
Skattsvikarar í djúpum skít - sagan endurtekur sig...eða þannig.
Nú er ríkisskattstjóri kominn í ham og rannsakar kortafærslur ríka fólksins - af erlendum reikningum væntanlega af óuppgefnum inneignum. Það er vel og vonandi verður þetta unnið á skömmum tíma því íslenska þjóð þyrstir í blóð...blóð...blóð.....peningablóð.
Þetta minnir um margt á meint skattsvik Braga í Bragakaffi - eða þannig.....
Svo var að í þá gömlu góðu daga þegar enn var veidd rækja fyrir Vestan og bátar þurftu viðgerðir og viðhald - þá var oft margt um manninn í smiðju Braga. Þessum mönnum fylgdi auðvitið ýmislegt - sumt gott en annað síðra - sem voru hægðir útgerðarmannanna. Jú, þeir þurftu að ganga örna sinna líkt og flestir dauðlegir - og klósettið hjá Braga var það eina á höfninni.
En einsog lög gera ráð fyrir þá þarf að þurrka það sem ekki fór af sjálfsdáðum - og þar stóð hnífurinn í kúnni - eða skattstjóranum - því hann sendir Braga skriflega áminningu um yfirvofandi rannsókn á "óeðlilegri notkun salernispappírs"! - Jú, sérfræðingar í framtölum og afföllum reiknuðu út að metrafjöldinn sem færi af salernispappír hjá Braga gæti bara ekki talist eðlilegur - til þess störfuðu of fáir rassar í smiðjunni - jafnvel þó þeir rembdust daginn út og inn tækist þeim aldrei nota slík ógrynni af salernispappír!
Þessari áminningu svaraði Bragi efnislega. Hann útskýrði að hann myndi hefja strangt aðhald - enginn færi með meira en 50 cm nema að fengnu sérstöku leyfi - og nú glumdi í smiðjunni "búinn....notaði bara hálfan meter"!!!
Aldrei heyrðist meira frá Skattstjóranum vegna málsins.
Já nú er öldin önnur - nú skíta þessir menn yfir heila þjóð og láta okkur sjálf um að þurrka restarnar - á okkar kostnað sem ekki er frádráttarbær frá skatti!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)