Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Olíu-aðal með aðstoðarmenn fyrir Vestan. Kenndi Dressmann klæddum lágmenningarlýðnum að meika monný.

Ég gerðist laumufarþegi fljótandi um á olíufati - hlustaði á framtíðina og heyrði hvernig gullið svarta hló og lofaði framtíð engri lík. Olíu-aðal bar af - var með einkatúlk - í klæðskerasaumuðu með Rólex og gullkeðju. Eitthvað annað en Dressmann liðið að Vestan sem sat hinu megin borðsins. Jebb - hann kann að meika bisness - "bínn ðer dönn ðat and bot ðe tísjört" - talaði ensku með Texas hreim - Djei Arr mættur. Ég var stjarfur - seikó tölvuúrið mitt stoppaði og saumsprettan á kakíbuxunum virtist stækka. Úff. Ég fór út. Aungramanna að norðan hefur ekkert að gera á svona fundi - enda var mér ekkert boðið - ég laumaðist inn.

En auðvitað er þetta spennandi - múltíbisness með pótensíal og afleidd störf. Mér finnst við að við eigum að skoða þetta. En því miður...... - við eigum að borga fyrir að skoða þetta - úr eigin vasa - eða skildi ég þetta ekki rétt þegar olíu-aðal sagði: "jú peifor the umhverfismat and sei jess - and ðenn ví vill meik ðe moný". Já - þeir ætla sér nefnilega að sleppa við að borga fyrir matið - á umhverfinu. Þeir eru engir Landsvirkjun - þeir eru bisnessmenn með pótesíal - með kontakta út um allt - alltaf í bisness.

það er í mínum huga algjört skilyrði fyrir svona framkvæmdum að alvöru umhverfismat verði framkvæmt - og að þessum köllum verði gert það ljóst að slík vinna kostar og þar sem þeir eru að predíka bisness með múltíbilljón pótensíal þá geta 150 milljóns æslendic varla verið mikið - nokkrar tunnur af olíu - eða svo. Dropi í svartahafið.

Já - skoðum málið fyrir 150 milljónir - metum stöðuna og gefum þeim svar. Náttúrustofa Vestfjarða mun sjá um málið - það er ég viss um og í góðu samstarfi við sérfræðinga á sviðinu. Fyrr getur þetta ekki komist á umræðustig.

Það er mín skoðun.


Að vera negldur í höfuðborginni - mjög sársaukafullt og skilur eftir sig ör - í veskinu...

Þegar ég vaknaði í morgun og leit út um gluggann varð mér ljóst að ég hefði valkost - valkost um að vera heima eða fara suður og verða negldur af manni, mönnum eða jafnvel konu eða konum - í úníform.

Ég ætlaði nefnilega suður með fjölskylduna á morgun - keyrandi. En eins og allir sem hér búa og líklegast víðar á landsbyggðinni vita - þá hafði snjóað hressilega í nótt - og spáin er eins fram að helgi. Ég kemst því ekkert suður. Flugið er svo dýrt að það er ekki valkostur - og bíllinn er á sumardekkjum og því er það ekki valkostur að keyra suður. Ég á að vísu nagladekk á felgum - tilbúin til notkunar - en úniformin í höfuðborginni fá kikk út úr því að sekta saklausan landsbyggðarlýðinn - hef ég heyrt.

Svo að nú sitjum við heima - í snjónum og förum hvergi. Lífið gengur sinn vanagang fyrir sunnan geri ég ráð fyrir - án okkar.

Ég vona bara að eigendur Kambs á Flateyri séu á nagladekkjum þegar þeir fara suður með milljarðana.....því ég er viss um að starfsfólkið á ekki til skiptanna og hvað þá fyrir sektinni ef svo væri.


Á Akureyri er foss - sem sökum leirburðar er ekki hægt að virkja. Fossinn heitir Tungufoss.

Akureyringar eiga sér áhugamál - áhugamál sem þeir sinna framar öllum öðrum - en það er halda til haga upplýsingum um náungann - upplýsingum sem engum nýtast nema þá sem viðbit í kaffiboðum og á vinnustöðum. Og það er einmitt vinnustaður á Akureyri sem því miður er þekktur fyrir slíkt upplýsingarstreymi - er uppspretta mikils upplýsingaflæðis sem síðan fellur yfir almúgann sem fossinn frussandi - Tungufoss - öllum til ama og leiðinda - sorgar og sárinda. Já þeim er vorkunn sem á þessum vinnustað starfa og vilja ekki taka þátt í leirburðinum - en stjórnendurnir eru ákveðnir og vaxtarlagið sýnir að þeir kunna að safna í sarpinn - sögum og sögnum - færðum í stílinn eftir kúnstarinnar reglum.

Mikil auðlynd held ég að fælist í virkjun þessa foss - og umhverfisáhrifin jákvæð. En því miður held ég að staðreyndin sé sú að leirburðurinn sé slíkur að virkjunarmöguleikar séu hverfandi.

Ég varð nefnilega óþægilega var við þetta þegar ég hitti gamla skólafélaga á 20 ára stúdentsafmæli. Ég á nefnilega góða vinkonu á Akureyri sem þurft hefur að upplifa þetta ásamt sínum manni - öndvegis fólk í alla staði - en fossinn eyrir engum sem fyrir verður.

En sem betur fer þá er það svo að þetta fólk á góða vini sem vita betur og vita líka að Tungufossinn fyrir norðan mun á endanum þorna upp og hverfa - og eftir stendur minningin um foss sem alltaf var litaður af leirburði. Það er ömurleg minning - en áunnin.

 

 

 


Á Ítalíu minnist enginn á Framsókn - ekki hræða.

Eftir langa kosninganótt flaug ég til Ítalíu - reyndar með millilendingu og bið á Kastrúp. En það var svo sem ágætt því þá auðvitað fékk maður fréttir af niðurstöðum kosninganna - sem auðvitað komu mér ekkert á óvart. Framsókn kolféll - en hangir ennþá á Sjálfstæðisflokknum líkt og maurinn á fílnum í brandaranum góða eða West Ham í premíersjipp.

Íslenskir kjósendur hafa auðvitað kveðið upp dóminn - Íslendingar velja Sjálfstæðisflokkinn til áframhaldandi starfa - reyndar án Framsóknar - en við vitum auðvitað að í pólitík þá launar maður sínum fyrir vel unnið starf - í það minnsta trúi ég því að um það snúist viðræður formannanna - og að niðurstaðan verði sú að Framsókn stingi út úr fjárhúsunum - hugsi um búpeninginn og sái fræinu - og uppskeri svo í samræmi við það - í það minnsta gefi gróandanum séns í kjörtímabil eða svo. Það má eiginlega segja að upp hafi komið riða í flokknum - og flokkurinn skorinn. Í það minnsta á höfuðbólinu.

Ég vil nefnilega sjá Samfylkinguna koma í stjórn - en auðvitað eru þeir skíthræddir - nú einfaldlega af því að Sjálfstæðismenn eru sterkir og hræðslan við að smitast af Framsóknarriðunni er mikil. En ég get fullvissað þá um að ef stofninn er sterkur og laus við sýkingu þá er ekkert að óttast - Samfylkingin verður að sýna hvað í sér býr - að kraftur sé og áhugi við að starfa með Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn - ekki bara "vera með" - eða eins og Össur myndi kalla það "ekki lifa lífi laxalúsarinnar" - sjúga og nærast þegar vel gengur en láta sig hverfa þegar ytri aðstæður verða erfiðar.

En auðvitað ræð ég engu - ég er bara á Ítalíu að spjalla um velferð fiska í rannsóknum og eldi - velferð sem við Íslendingar þurfum að fara að taka þátt í að móta - því auðvitað er það ljóst að við lifum ekki á sauðkindinni einni saman - ó nei - þorskeldið er það sem koma skal og þar eru tækifærin og þar eru möguleikarnir og þar og þar og þar.....og það má ekki enda eins og laxeldið og loðdýrin.  er mikilvægt að við leggjum í púkkið - vöndum til verka og tökum þátt í samvinnu sem miðar að því að gera þorskeldi að arðbærri atvinnugrein - ekki síst þar sem slíkur iðnaður fer að mestu fram á landsbyggðinni. En það er einmitt það sem Sjávarútvegsráðherrarnir Árni og Einar hafa svo sannarlega gert - enda var það mér mikil ánægja að segja gamla skólabróður Árna Matt frá góðu gengi hans í kosningunum - Jimmy Turnball - dýralæknir frá Stirling starfar nefnilega með mér í verkefninu - og hann og Árni lærðu saman dýralækningar á sínum tíma - já svona er heimurinn lítill.

Og ekki skemmir maturinn á Ítalíu - ég sem ætlaði að koma köttaður heim.....bara búinn með antipasti...pasti....secundo......og hvað þetta heitir allt - ég verð að læra að tala ítölsku til að geta sagt takk fyrir mig og get ég fengið reikninginn!!

úfff.


Að setja upp skipstjórahúfu - taka fram pípu og boða Frjálslyndi. Er það nóg til að stýra stórri skútu?

Ég á vin. Ég á skemmtilegan vin sem gaman er að tala við. En nú bregður svo við að kall er kominn í ham - hann er kominn í Frjálslyndan ham og er með ólíkindum fyndinn. Ekki bara í orði - það er hann alltaf - en nú er kall farinn að líkjast Stjána Bláa án spínats - grennri til framhandleggjanna. Hann er nefnilega kominn í sjóarajakka með hvíta derhúfu með akkeri og pípustert í tranti. Jebb - kallinn er í brúnni og bölsótast yfir kvótaleysi - ósanngirni og bölvun Vestfjarða. Enda á hann trillu - sem reyndar er ekki á sjó - neibb hún stendur á bak við hús - bundin við snúrustaur. Það tekur nefnilega tíma að koma trillunni á sjó - og á meðan skal kvótakerfið kosið burtu - svo að trillan geti veitt - dregið afla á afskipta og losnað frá snúrustaurnum.

Já - kosningar draga fram ýmislegt - misskemmtilegt að vísu en allt er það áhugavert. Ég er búinn að gera upp hug minn - byggi mína skoðun á því sem ég þekki - á því sem stendur mér næst og því sem ég treysti. Í þeim efnum er ég ekki bara að hugsa um mig - nei - ég er að hugsa um það sem mig langar að leggja af mörkum - um það sem ég eyddi mörgum árum í að læra - þrátt fyrir að margir teldu á sínum tíma að ekki væri vænlegur kostur að fara í framhaldsnám í mínu fagi - nei ekki gera það - þú færð ekkert að gera - engin framtíð. En í dag hef ég nóg að gera - framtíðin spennandi og það sem skiptir mestu máli - ég fæ stuðning þeirra er stýra skútunni. Þar er nefnilega kapteinn sem hefur stutt uppbyggingu rannsóknaumhverfis og þorskeldis á Vestfjörðum af heilum hug - maður sem ég treysti fullkomlega til áframhaldandi verka - maður sem sýnt hefur í verki að honum er alvara.

Það er kallinn í brúnni - sá sem ég treysti - sá sem ég dæmi eftir þeim verkum sem ég þekki til - og sá sem ég kýs. Og kallinn heitir Einar K. Guðfinnsson. Af þeim sökum set ég X við D á morgun - það er klárt og ég vona að þú gerir það líka.

Það er mín skoðun.


Björgólfur Thor og Sturla ábyrgir fyrir lélegum árangri Eika.

Eiki steinlá í gærkveldi. Frændur okkar Finnar - sem auðvitað eru ekkert skyldir okkur - kjósa ekkert hálfkák - Eiki var einfaldlega ekki nægilega þungur. Norðmenn hugsuðu um sitt fólk - þó ekki nægilega vel - Danir um dragið og Svíar nenntu ekkert að horfa.

En auðvitað er ekkert hægt að kenna grönnum okkar um ófarirnar - nei ástæðan er mikið nær. Það eru auðvitað Björgólfur Thor og Sturla sem eyðilögðu möguleikana. Hvernig eigum við Íslendingar að geta komist áfram þegar hálft landið er ekki í GSM sambandi - ekki sendum við SMS'ið með bréfdúfum?!

Og Björgólfur - maðurinn á öll símafyrirtæki í austri - hann hefði hæglega getað ýtt á einn takka og þar með slökkt á kerfinu - og þá hefðum við auðvitað komist áfram. Ég segi: ÞETTA ER SKANDALL. Þessi svokallaða útrás er ekki að skila okkur neinu - í það minnsta sem máli skiptir.....Wink


Eru Vestfirðingar sjálfum sér verstir - Gerum Vestfirði að sexý valkosti.

Það er ekki laust við að maður velti fyrir sér hvers vegna Vestfirðingar almennt skuli ekki berja sér á brjóst og tala um möguleika frekar en það sem farið er. Auðvitað skil ég ósköp vel alvarleika horfins kvóta og minnkandi atvinnu - en  hitt er þó alvarlegra þegar í boði er góð atvinna og það fyrir menntað fólk - að enginn utan Vestfjarða skuli sækja um. Nýjasta dæmið er auglýst staða Skólameistara MÍ - um þá stöðu sótti bara innanbúðarfólk. Ekki það að ég sé að segja að það hafi ekki verið hæft fólk - það er bara áhyggjuefni að enginn sýni því áhuga að flytja Vestur og takast á við mjög svo spennandi starf.

Nú er staðan sú að við hjá Matís erum að leita að fólki - höfum upp á að bjóða 3 spennandi og vel launaðar stöður - stöður sem hæfa fólki með ýmsa menntun - fólki sem vill takast á við ný verkefni og starfa í spennandi umhverfi. En því miður erum við í stökustu vandræðum með að finna það fólk - fólk sem af einhverju ástæðum virðist hræðast það að búa fyrir Vestan - þar sem náttúran er perla -  fólkið er gott og börnin njóta meira frelsis en þekkist í Reykjavík.

Já Vestfirðir hafa upp á margt að bjóða - sem því miður er að drukkna í bölmóði vestfirðinga sjálfra.

Ég segi því - tökum höndum saman um að gera Vestfirði að spennandi kosti - sýnum öllum að hér viljum við búa - og það af því að hér sé gott að vera - ekki af því að við þorum ekki annað.

Lifi Vestfirðir.


Þetta hef ég prufað - ótrúlegar græjur......

Í Japan er flest til - og ég gleymi aldrei rafstýrða klósettinu sem var svo flókið að maður var nánast kominn með allt í brækurnar áður en maður fattaði á hvaða takka átti að ýta -  og svo heyrðist "thank you for your visit - welcome back"......


mbl.is Vara við eldhættu í salernisskálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Magri - horfinn á bak við turnana tvo - þar sem afi ætlaði upp klettinn forðum.

Þegar ég var á Akureyri um daginn og sá óskapnaðinn í Baldurshaga og hvar hann Helgi gamli hírðist á hól - þá mundi ég eftir ævintýri sem hann afi minn lenti í á skódanum góða.

En fátt var afa mikilvægara en að hafa skódann í lagi - enda var hann ævinlega með skiptilykilinn á lofti til að "laga" eftir viðgerðamennina - herða ró hér og þar í vélinni - líma með heftiplástur yfir ryðgöt og mála svo ekkert "sæist".

Og ekki fór það fram hjá nokkrum manni með minnsta vott af heyrn þegar sá gamli fór út til "að setja í gang" eins og hann kallaði það - en þá var skódinn þaninn úti á bílaplaninu fyrir framan elliheimilið Hlíð á Akureyri svo að undirtók í nálægum hverfum - og blásvartur strókurinn stóð upp brekkuna fyrir ofan svo að útslepp frá nútíma málmbræðslum bliknar í samanburði.

Og það var eftir eina af Dalvíkurferðum okkar (sjá eldra blog) að afi uppgötvar þegar hann kemur brunandi í hlað á elliheimilinu að skódinn er bremsulaus - en sem betur fer þá náði sá gamli að hægja ferðina með því að taka stóran sveig upp í brekkuna ofan bílastæðisins - en það gerði hann iðulega til að "hitta" betur í stæðið sitt - þó svo að auðvitað væri það ekki hluti af akveginum - já stæðið hans því auðvitað var hann búinn að eigna sér stæði við innganginn.

Bíllinn var fluttur á verkstæði en þegar sá gamli frétti að ekki yrði gert við bílinn samdægurs heldur stæði til að gera við hann daginn eftir - þá sótti kall bílinn. Það kom ekki til greina að láta skódann standa aleinan við verkstæðið um nóttina - allskyns lýður gæti átt þar leið um og þar fyrir utan þekkti skódinn ekkert til þar - neibb, heim fór gamli á skódanum. Hringdi svo í pabba morguninn eftir til að láta draga sig á verkstæðið - en pabbi átti Ford Bronco og aftan í honum var dráttarkúla - sem auðvelt var að smeygja lykkju yfir til að draga. En pabbi vissi auðvitað ekkert hvert eðli bilunarinnar væri - hélt að um kúplingavandamál væri að ræða - en endurnýja þurfti reglulega kúplingu í bílnum því gamla var ílla við að vera alltaf að skipta um gír - slúðraði bara á kúplingunni enda "er hún til þess".

Og svo var haldið af stað - og ferðin gekk ljómandi - lítil umferð og að mestu sléttlendi. Svo er það þegar tekur að halla undan fæti í Þórunnarstrætinu - þar sem m.a. lögreglustöðin á Akureyri stendur - að pabba finnst nú vera léttast drátturinn - og ekki líður á löngu en ljósblár skódinn brunar fram úr Broncónum með gamlan kall með hatt í framsætinu og sem líktist afa ískyggilega mikið. Jú mikið rétt - gamli tók framúr enda á bremsulausum bílnum - og það sem kom í veg fyrir að hann kippti Bronconum þversum í götunni var að lykkjan húkkaðist upp af dráttarkróknum - hvílík mildi. En áfram þaut skódinn - fram hjá lögreglustöðinni og á móts við Baldurshaga - þar sem háhýsin standa núna.

Svo af einhverjum orsökum tekur sá gamli sveig yfir túnið í Baldurshaga og stefnir á móts við Helga Magra þar sem hann stendur alsaklaus á klettinum neðan lögreglustöðvarinnar - og viti menn gamli nær á klifra hálfa leið upp klettinn á skódanum en stoppar svo - skódinn standandi uppá endann líkt og hann teygði sig í átt til Helga - og undir stýri gamall maður með hatt - sem blés eins og físibelgur - og andvarpaði í sífellu.

Já það var óborganleg ljósmynd sem birtist á forsíðu Dags - En aldrei aftur - því nú er semsagt búið að byggja skrímsli þar sem afi ætlaði upp klettinn.


"Ófreskja íhaldsins" - Göran Persson kominn út úr skápnum.

Ég fékk mjög skemmtilega skrifaðan texta í morgun - texta sem var í eigu gamals manns á Ísafirði og er síðan á fyrri hluta 20. aldar. Ég ætla að deila honum með ykkur til að undirstrika hvað lítið hefur nú breyst í málflutningi vinstri manna. Höfundur textans er mér ókunnur enda skiptir það svo sem ekki neinu máli - pólitísk skoðun hans er ljós af lestri þessa skemmtilega texta

"Ég skal gefa þér gull og græna skóga, ef þú vilt lyfta mér í gullstólinn, segir íhaldið. Það hefur aldrei heyrst að sá flokkur hafi gert sér ómak útaf kosningaloforðum, það hefur aldrei heyrst, að hann hafi beytt sér fyrir bættum kjörum almennings. Það virðist vera vatn á hans myllu að viðhalda skipulagsleysi og glundroða, svo að einn geti troðið annan niður. Þar er þó ein regla ríkjandi og henni dyggilega fylgt, hú er að styrkja þann sterka, en gera þann veika veikari. Íslenzka alþýða hefu ýtt ófreskju íhaldsins örlítið til hliðar, en hefur ekki enn tekist að reka hana af höndum sér. Ófreskja þessi býður í ofvæni með loðna loppu afturhaldsins eftir tækifæri til þess að kyrkja réttinda og umbótamál alþýðunnar. Sósíalistar hafa verið og eru ofsóttir af auðvaldinu, það hefur verið ofin um þá og stefnu þeirra, lyga og blekkingarvefur. Margir sjá í gegnum þennan vef, en þó altof fáir enn sem komið er. Eina leiðin til að sigrast á þessum ofsóknum og hleypidómum, er að halda uppi fræðslustarfsemi um stefnu sósiallista. Við höfum enga þörf fyrir trúðleikara til þess að þyrla upp moldryki, svo að stefnumálin finnist ekki í myrkviðinu, þá látum við þeim einum eftir sem þörf hafa á slíkum loddaraleik".

Já - skemmtilegur texti.

Ég las ennfremur í morgun um að Göran Persson - fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar og Sósíaldemokrati - Samfylkingarmaður - hefur selt sig auðvaldinu - selt sig hæstbjóðanda en hann er búinn að ráða sig sem ráðgjafi og ætlar að græða vel - skítlykt af málinu segja félagar hans hjá Samfylkingunni - já þegar stigið er af sviðinu og tjaldið fellur - þá tekur raunveruleikinn við - það má öllum vera ljóst!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband