Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Hvaða endemis kjaftæði er þetta eiginlega?

Mér finnst vera eitthvað svo mikið kjaftæði á ferðinni þessa dagana.

Að nokkrir þingmenn sofi upp við Elliðavatn frekar en heima hjá sér - ekki svo að maður fagni ekki fyrir hönd makanna sem væntanlega hafa verið guðslifandi fegin að vera laus við þá þó ekki væri nema yfir blánóttina. Guð minn góður - hver vill yfir höfuð sofa hjá til dæmis nöfnunum Árna og Árna....

Að menntamálaráðherra taki sér dagpeninga í skemmtiferð til Kína og lendi í hreint farsakenndum aðstæðum í athyglisbaráttu við forsetafrúna sem lét mynda sig við að nudda leikmann landsliðsins!

Að einhver kaupi svitastorkna íþróttatreyju af Ólafi Stefáns fyrir milljón - já til að, ekki klára, heldur hefja byggingu á skóla í Jemen - þegar augljóst er að peningunum væri betur varið í að aðstoða fátæka á Íslandi.

Að sumir MS sjúklingar fái lyf sem ku vera mjög gott - ekki allir - nei bara sumir!

Að forsetafrúnni skuli vera fyrirmunað um að læra íslensku - og sé nú með Kína leiknum stimpluð sem "krúttleg".

Að það skuli vera fréttnæmt að Björgólfur Thor skuli fljúga með "almennu" flugfélagi til Kína - líkt og að hann skuli vera með eitthvað öðruvísi rassgat en aðrir íslendingar!

Já og þetta með golfið - mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig stendur á því að ekki sé hannaður "dræver" sem slær beint.....hvaða kjaftæði er það eiginlega?

Og hvaða andskoti fór að spyrja spurninga sem þurfti að svara: "stöndum við undir allri þessari fjárfestingu..þessari útrás....þessum kaupum...." - og kom kreppunni af stað - hverslags fáránlegar spurningar eru þetta eiginlega.....þetta kallar maður að spyrja í hugsanaleysi.....???

 

tja maður spyr sig.....

 

Nei ég er mest undrandi


Styrkjum íþróttahreyfinguna "til árangurs" ekki "fyrir árangur"!

Auðvitað er það gott og gilt að styrkja landsliðið - og kalla það verðlaun fyrir frábæran árangur. En væri ekki ráð að styrkja Íþróttahreyfinguna "til árangurs" en ekki "fyrir árangur"?!

Réttast væri að fara nú yfir stöðuna - hvar skóinn kreppir - hvar eru möguleikar til árangurs - og styrkja svo um munar - gera 5 ára plan og meta svo stöðuna!

Og svo auðvitað að nota tækifærið og gera ungum íþróttamönnum af landsbyggðinni kleift að sækja stór íþróttamót á höfuðborgarsvæðinu með því að:

  • Bæta vegasamband....
  • Efla Íþróttir og aðstöðu á landsbyggðinni....
  • Niðurgreiða ferðalög ungra íþróttamanna.... 
  • Efla Íþróttakennslu og fræðslu almennt....
Og svo mætti lengi telja.....
mbl.is HSÍ fær 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnarlömb sýrunnar - ógeðslegar afleiðingar afbrýðisamra eiginmanna og feðra.

 Í Pakistan og Bangladesh er ætandi sýra notað sem vopn. Ekki í stríði - heldur til þess að valda skaða og niðurlægingu hjá konum. Og það sem verra er - mennirnir þurfa ekki að gjalda fyrir fólskuverkin!

Þetta er gríðarlegt vandamál í þessum löndum og hefur Amnesty International miklar áhyggjur af málinu.

Og hvað hafa konurnar gert til að þurfa að þola slík fólskuverk mannanna?

irum

 

 Irum Saeed, 30 ára var á leið á markað að kaupa mat þegar helt var yfir andlit hennar ætandi sýru. Ástæðan var afbrýðisamur maður sem hún hafði nokkrum árum áður neitað að giftast.

 

 

 

 

najafNajaf Sultana, 16. ára fæddist sem stúlka - það þoldi pabbi hennar ekki!! Mann fjandinn helti yfir hana eldfimum vökva og kveikti í. Atburðurinn átti sér stað þegar stúlkan var fimm ára og til að fullkomna mannvonskuna henti hann barninu út. Nú býr hún hjá frændfólki og hefur farið í fimmtán aðgerðir til að laga andlitið. 

 

 

 

 

 

sabiraSabira Sultana, 30 ára var gift og ófrísk. En maður hennar var vonsvikinn með lítinn heimamund sem hann fékk frá foreldrum stúlkunnar. Eftir tuttugu aðgerðir þorir loks Sabira að horfa í spegil - en ætandi sýra veldur gríðarlegu tjóni á vefjum og skilur eftir ljót ör. 

 

 

 

 

 

saira Saira Liagats, 26 ára. Hún átti sér draum um að ljúka námi - það þoldi eiginmaður hennar ekki. Eiginmaðurinn sem keypt hafði stúlkuna og gifst henni 15 ára helti ætandi sýru yfir andlit stúlkunnar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já mannskepnan er á tímum óskiljanleg - óvægin og hreint út sagt ógeðsleg.

Að kaupa kýr.

Það eru uppi hugmyndir um að leyfa frjálsan innflutning á kjöti. Mér er tjáð að það gerist nú strax í haust. Ekki ætla ég sérstaklega að ræða það eða úttala mig um mína skoðun á slíku - en ljóst er að við Íslendingar lifum í samfélagi við aðrar þjóðir og verðum líklegast að sætta okkur við þá staðreynd. 

Hvort að frjáls innflutningur muni hafa áhrif á bændur og afkomu þeirra skal ósagt látið - þó auðvitað eigi maður von á því. En hitt er ljóst að við búum við ákaflega sérstakar aðstæður hér á íslandi - við eigum gömlu landnámsrollurnar óbreyttar og það sama má segja um kýrnar. Sem hafa eiginleika sem ekki finnast í öðrum tegundum. Svo er spurningin hvort að við viljum yfir höfuð varðveita þessa stofna - varðveita sérkenni okkar  íslensku kinda - okkar íslensku kúa ?

En það sem eftirvill  er merkilegt í allri þessar umræðu - eða kannski ekki - er hve lítil nýliðun er í greininni - ungt fólk vill ekki gerast bændur - sér ekki hag í því og treystir ekki framtíð greinarinnar. Þetta er mér sagt.

En hvað er hægt að gera? Á að efla ríkisstyrki til greinarinnar - eða taka þá af með öllu? Á að opna landið fyrir innflutningi á nýju kúakyni - sem er stærra og mjólkar meira? Á að leyfa óhindrað að flytja inn allt það kjöt sem hugurinn girnist? Láta markaðsöflin ráða?

En eitt sinn þótti spennandi að vera bóndi. Ég man eftir því að ungur maður úr Reykjavík flutti norður í land og keypti jörð - ætlaði að verða kúabóndi. Hann hafði samband við föður minn, héraðsdýralækni og fékk aðstoð við val á hentugum kúm í fjósið. Bændur í nágrenninu brugðust vel við og seldu honum gripi - kýr á ýmsum aldri.  Nú var það svo að bændurnir höfðu misjafnar skoðanir á hvernig besta samsetningin ætti að vera á bústofninum og mikið var skrafað og skeggrætt. Sá að sunnan var ekki alltaf með á nótunum og treysti á að bændurnir vissu hvað honum væri fyrir bestu. En svo kom að því að hann stóð á gati - kallaði á dýralækninn föður minn - tekur hann afsíðis og segir "segðu mér, hvað er þetta Kvíga sem bændurnir vilja endilega selja mér"??

Já, að hefja búskap er ekki einfalt. 


Nunnunum sagt til syndanna - Bósasaga hins Lútherska

Því fylgir ábyrgð að vera aðalhundurinn í götunni. Jafnvel þó lítill sé og skrækur. En Bósi er ekkert grín - það veit hann sjálfur best af öllum og það skulu allir fá að heyra. Og þó Bósi sé nú mest að taka fólk í gegn sem á leið um götuna án hans leyfis - þá er hann farinn að blanda sér í trúmál. P2150005

Allt byrjaði þetta í byrjun sumars þegar Bósi hvarf í heimsókn í Skálholti. Eftir mikla leit birtist hann í kirkjudyrunum og var hinn bjartasti - búinn að heimsækja helgidóminn að virtist og vonaði maður að hann hefði farið þar um án þess "að tefla við páfann"...

Og nú gerist það síðsumars að í götuna koma nokkrar nunnur - sem eiga þar athvarf og heimsækja á stundum. Svo kemur fyrir einn daginn að nunnurnar eiga leið framhjá húsinu okkar og það mislíkaði Bósa hrapalega. Hann hreinlega missti sig. Urraði og gelti á nunnurnar svo að undirtók í Skutulsfirði. Ræfils Salka skammaðist sín og lét lítið fyrir sér fara - enda hefur hún í raun aldrei litið á Bósa sem hund - meira svona sem fyrirbæri. DSC02124

Og nunnurnar brostu og báðu guð að passa Bósa - en við það æstist auðvitað Bósi ennþá meira - engin nunna skildi skipta sér af honum - hann væri ramm Lúterskur og hefði heimsótt kirkju því til staðfestingar.

Já, maður spyr sig hvernig þetta endar með Bósa og hvort að maður eigi hættu á að hann endi í sértrúarsöfnuði?

 


Viskunnar menn

Nú er berjatíminn að hefjast. Sumir hafa meira vit  á berjum en aðrir og enn aðrir hafa enn meira vit á berjum en sumir. Og svo hittast þessir menn og drekka kaffibolla á loftinu hjá Braga. Þá situr maður hljóður og hlustar á visku mannanna sem tínt hafa ber um allar hlíðar og firði.

Þetta eru Grasa-Guddur nútímans. Fremstur fer í flokki Magnús og liggur karlinn sá ekki á skoðunum sínum og þekkingin hreinlega svífur út í belg og biðu - og ef mældur væri í desíbilum vær'ann langt yfir hættumörkum. Ekki veit ég hvort málverkið á suðurgafli smiðjunnar skírskoti til þessa. En berin þekkir hann betur en flestir - eða eins og hann segir sjálfur "ég veit það....þó ég hafi ekki hugmynd um það" með tilheyrandi handapoti til áherslu.

Húsráðandi sjálfur hefur nú tínt nokkra pottana og lent í hvílíkum berjum að annað eins hefur aldrei sést - nema auðvitað hjá hinum sem allir hafa lent í enn meiri berjum en allir hinir til samans sem hafa þó verið í ótrúlegu berjamagni og svo miklu að annað eins hefur ekki sést......nema náttúrlega af sumum sem sáu meira. 

Er nema furða að maður sitji hljóður og fullur aðdáunar yfir þeim ævintýrum sem þessir menn hafa upplifað - og ekki ýkja þeir - draga heldur úr!

Já, svo er nú það. Berin verða tilbúin eftir tíu daga - það segja karlarnir. 

 


Frændur vorir og forfeður...

Það er mörgum hugleikið að leita upprunans. Í sjálfu sér er það hið besta mál og undir hverjum og einum komið að gera slíkt.

Ekki var ég beint í þeim erindagjörðum nú fyrir skemmstu þegar ég heimsótti okkar gömlu höfuðborg, Kaupmannahöfn, ásamt konu og sonum tveim. Markmið ferðarinnar var í annan stað að sýna piltum fornar slóðir okkar íslendinga og hinn staðinn að leyfa þeim að njóta lystisemda stórborgar - tívolí með meiru.

En þegar slík borg er heimsótt er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að rekast á fleira fólk en dani - frændur vorir og forfeður, norðmenn eru auðvitað þar á hverju strái. Mér gafst því tími til að virða fyrir mér fólkið og velta fyrir mér hvernig í ósköpunum við íslendingar urðum eins og við erum.

En hápunktur samanburðarins var kvöld eitt þegar við fjölskyldan urðum vitni að ákaflega skemmtilegu sjónarspili. Á Strikinu fræga var mættur danskur miðaldra maður - gráhærður mjög og með skegg. Var eitthvað svo heimilislegur þar sem hann sat í hægindastól með baðvog fyrir framan sig. Og hvert var málið - jú hann bauð fólki upp á að láta hann giska á líkamsþyngd....alveg ókeypis - nema ef honum tækist að giska á þyngdina innan tveggja kílógramma skekkjumarka - þá þurfti maður að borga honum 20 krónur danskar!! Baðvogin staðfesti svo rétta þyngd - svo ekki var um vilst enda um virðulega mekaníska vog að ræða - ekkert digital kjaftæði.

Mér var skemmt. Ég fylgdist með karlinum giska - fyrst kom að eldri maður sem reyndist vera 83 kíló og kostaðu þær upplýsingar hann 20 krónur og konan hnussaði og sveiaði... - næst giskaði sá danski á þyngd konu og fór með rétt mál. Ég fylltist aðdáun og fannst hann ansi seigur - því ekki fékk hann að klípa í fólkið né lyfta því - bara að horfa á og meta.

Og þá bar að norðmann. Svona hálf álkulegur, með gulleitt hárið og yfirvaraskegg. Hann var í glænýjum kakí stuttbuxum - og undirstrikaði afslappað útlitið með köflóttum og hnéháum sokkum - sem féllu vel að grænleitum sandölunum. Hann var eitthvað svo "heia norge" í útliti. Ég var viss um að þó að hann týndist þá væri hann aldrei í hættu - honum yrði einfaldlega skutlað í næstu "norsku sjómannakirkju".

En hvað um það - ekki má dæma menn fyrir útlitið. Hann virtist til í tuskið - ber að ofan og þrátt fyrir að vera illa sólbrenndur á öxlunum þá brosti hann hann breiðu brosi og leit á félagana um leið og hann sagði "nu vinner vi tyve kroner gutter"..... sem útleggst "nú græðum við tuttugukall strákar"....

Gúddag, sagði sá danski, Viltu láta vega þig? Akkúrat, svaraði sá norski og kímdi. Það var ekki á hverju degi sem hann gæti grætt svona - fengið sig veginn og það gratís...

Sá danski setti sig í stellingar - horfði djúpt í augun á þeim norska. Gekk hægt fram og aftur og dæsti - já þetta var ekki létt. Norðmaðurinn svitnaði, ekki bara út af hitanum, heldur vegna spennings - undir var jú tuttugukall.

Jæja min ven, sagði sá danski - leit á norsarann og sagði hátt og snjallt "treoghalvtres"....sjötíu og þrjú kílógramm - versigú!

Það fór um norsarann - var þetta rétt....var hann að láta danskann slána hafa af sér tyvekroner.....

......lágur kliður fór um áhorfendur og það hefði mátt heyra saumnál detta....slík var spennan - enda eru tuttugukrónur miklir peningar í noregi - í það minnsta gera þeir allt til að spara þær. En hvað um það, norsarinn steig á vogina.....nálin dansaði....nálgaðist töluna 71...sem var innan umsömdu 2ja kílóa skekkjumarkanna. Norðmaðurinn fölnaði.....ljósrauði liturinn hvarf úr andlitinu og meira að segja yfirvaraskeggið virtist lýsast...fór úr ljósrauðu í drapplitað.....hann skalf...nálin skalf ....vogin skalf......

Svo stökk hann af voginni - rak upp stríðsöskur og sagði svo glumdi í öllu danaveldi  "nálin stoppaði aldrei....ég vinn"....ég vinn...ég vinn...ég vinn.....hún náði aldrei allveg 71 kílói.....hurra...

Danskurinn klappaði honum föðurlega á öxlina og sagðist samþykkja dóminn enda væri hann vopnlaus og gæti ekkert gert til að ná tuttugukallinum...til þess þyrfti jú her - gráan fyrir járnum. Svo hló hann. Svo hlógum við öll sem á horfðum. þetta var sjónarspil. Bardagi upp á líf og dauða....eins og tekið úr Njálu......eða ekki.

Og af þessu fólki erum við víst komin......ja hérna.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband