Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Augun á glámbekk - stórmerkileg eru þau læknavísindin....

Ekki er laust við að læknavísindin veki undrun á stundum - jafnvel svo að mann setur hljóðan. Það var einmitt þannig þegar ég kom við í Bragakaffi í morgun og heyrði hreint makalausar lýsingar á aðgerð sem Óli frá Gjögri undirgekkst. Nú er það svo að mönnum ber ekki alltaf saman við kaffiborðið í Bragakaffi um hvað er satt og hvað ekki - en það er aukaatriði - hitt stendur eftir að "hafa skal það sem betur hljómar".

Og svo var það með aðgerðina hans Óla. Ekki ætla ég að dæma um hvort sagan var sögð til að æsa upp Magnús - en hún var sögð og líklegast er hún sönn....nú dæmir hver fyrir sig.... 

Óli ku hafa verið farinn að píra augun meira en góðu hófi gegnir - svo mjög að afgreiðslustúlkur í matvöruverslunum réttu Óla ævinlega skiptimyntina strax þegar hann kom að kassanum - þess fullvissar að nú ætli kall að ræna sjoppuna! Og þetta auðvitað gekk ekki lengur - Óli þorði vart í bankann og meira að segja heimabankinn í tölvunni baulaði þegar Óli reyndi að millifæra. Og suður flaug Óli - pírið yrði að laga - strekkja á og herða svo að augun opnuðust. 

Og nú fara menn að spennast við kaffiborðið - sumir slá sér á lær og kíma - aðrir hrista hausinn og fussa - sérstaklega Magnús.

Óla segist nefnilega svo frá að til þess að læknirinn gæti með góðu móti saumað og snyrt þá þurfti að taka úr honum augun - en þau voru lög til hliðar á bekk og áttu að liggja þar á meðan á aðgerð stóð. Óla varð nú ekki um sel en fannst sjónarhornið nokkuð skemmtilegt - horfði á sjálfan sig liggjandi á bekk og gullfallegar hjúkkurnar stumra yfir honum - með tómar augntóftirnar!

Og þá gerist það óvænta - og það sem Magnús neitar trúa - ein hjúkkan rekur sig í annað augað og með það dettur það í gólfið...."og þá sá ég uppundir´ana" sagði Óli.

Nehei...ég trúi þér ekki segir Magnús og hrópar upp yfir sig...þetta er lýgi...ég trúi þessu ekki.

Jújú segir Óli - allveg makalaust. Verst að ég var ekki með gleraugun...þvi ég sá ekki hvort hún væri í nærbuxum......

Já kaffitímarnir í Bragakaffi eru magnaðir og ekki síðri en undur læknavísindanna.


Fast þeir sóttu sjóinn....grásleppufeðgar draga björg í bú.

Þungbúinn dagur með súld og  gráma. Ég átti leið út hlíðina - um Hnífsdal og við mér blasti Óshlíðin. Vegavinnutæki stóðu mannlaus við yfirgefin hesthús - það eru breytingar í aðsigi - gera á göng til að hleypa lífi til Bolungarvíkur - eða frá - lífi sem vonandi smitar norðanverða Vestfirði alla - á suðurfirðina er ófært - þar er líf - bara ótengt líf.

Óshlíðin var óárennileg í grárri birtunni og skítugir taumarnir láku ofan hlíðina og hálfþöktu snjóinn sem máttlaust reyndi að varpa birtu inn í drungann. Líflaust var orðið sem kom upp í hugann.

Í allri deyfðinni - lífleysinu - sá ég mótorbát kljúfa öldurnar - Sjöfn - um borð glitti í feðga - grásleppufeðga. Fast þeir sóttu sjóinn og drógu net - létu grámann ekki draga úr sér kraftinn heldur hleyptu kappi í kinn - bitu fast á jaxlinn og drógu. Af eljusemi létu þeir norðanvindinn og báruna ekki trufla sig og bláar tunnur á þilfarinu voru merki um dýrmætan afrakstur - aflann - grásleppuhrognin.

Og þegar rýnt var í öldurnar mátti sjá belgina - velkjast um í öldurótinu - merkta eigendum sínum og til merkis um net þeirra feðga - til merkis um vinnusemi og elju - svo langt sem augað eygði. Enginn bilbugur á þeim feðgum - jaxlar sem vita hve mikilvægt það er að leggja ekki árar í bát - mikilvægi þess að draga björg í bú - halda í hefðina. Róa.

Já andstæðurnar voru miklar í gráu landslaginu - lífsbaráttan svo nálæg. Og pólitískt argaþrasið í Bolungarvík svo langt í burtu.


Hjá góðu fólki.

Eitt af því sem ég hef notið í starfi mínu er að fá að ferðast til framandi landa. Ekki hafa þessar ferðir endilega verið til fjarlægra landa en á sinn hátt gefið mér kost á að kynnast menningu og lífi fólks í öðrum löndum - framandi löndum.

Yfirleitt eru þau þjóðareinkenni sem maður kynnist í slíkum ferðum tengd daglegum samskiptum - við kaup á þjónustu eða afþreyingu. Við slíkar aðstæður kemur vel í ljós hvernig fólk er samsett eða gert - svo sem þjónustulund og notalegheit í öllu viðmóti. 

Ég ætla í sjálfu sér ekki að tíunda einkenni þeirra þjóða sem ég hef heimsótt - en mig langar til að segja ykkur frá hreint óskaplega skemmtilegri heimsókn minni og okkar hjónleysa til Kraká í Póllandi. Hvílíkri gestrisni og þægilegu viðmóti hef ég aldrei kynnst á ferðum mínum - hreint með ólíkindum hve mikil rósemi og þolinmæði einkenndi viðmót íbúa Kraká - borg sem er steinsnar frá minnismerki mannvonsku og illsku - Auswitch.

Ég verð að segja að þetta var ekki síst ánægjuleg upplifun í ljósi þeirrar neikvæðu og óbilgjörnu umræðu sem hefur einkennt umræðu um Pólverja á Íslandi - við verðum nefnilega að muna að í nútíma þjóðfélagi - nútíma fjölmenningarþjóðfélagi - þá býr fólk frá úr ólíkri menningu saman og ekki má taka sér þau "einföldu þægindi" að setja alla undir sama hatt. Alls ekki.

Það er í reynd með ólíkindum að þjóð sem hefur mátt þola svo margt slæmt skuli yfir höfuð vera eins sterk og pólska þjóðin er - það eitt ber merki þess að þar býr gott fólk.

Ég hvet alla þá sem langar að heimsækja fallega borg - þar sem maður er hjartanlega velkominn - þar sem reisn og fegurð eru einkennismerki - að heimsækja Kraká í Póllandi - skoða ekki bara minningar um helför og mannvonsku heldur líka stórvirki jákvæðs hugarfars.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband