Helgi Magri - horfinn á bak við turnana tvo - þar sem afi ætlaði upp klettinn forðum.

Þegar ég var á Akureyri um daginn og sá óskapnaðinn í Baldurshaga og hvar hann Helgi gamli hírðist á hól - þá mundi ég eftir ævintýri sem hann afi minn lenti í á skódanum góða.

En fátt var afa mikilvægara en að hafa skódann í lagi - enda var hann ævinlega með skiptilykilinn á lofti til að "laga" eftir viðgerðamennina - herða ró hér og þar í vélinni - líma með heftiplástur yfir ryðgöt og mála svo ekkert "sæist".

Og ekki fór það fram hjá nokkrum manni með minnsta vott af heyrn þegar sá gamli fór út til "að setja í gang" eins og hann kallaði það - en þá var skódinn þaninn úti á bílaplaninu fyrir framan elliheimilið Hlíð á Akureyri svo að undirtók í nálægum hverfum - og blásvartur strókurinn stóð upp brekkuna fyrir ofan svo að útslepp frá nútíma málmbræðslum bliknar í samanburði.

Og það var eftir eina af Dalvíkurferðum okkar (sjá eldra blog) að afi uppgötvar þegar hann kemur brunandi í hlað á elliheimilinu að skódinn er bremsulaus - en sem betur fer þá náði sá gamli að hægja ferðina með því að taka stóran sveig upp í brekkuna ofan bílastæðisins - en það gerði hann iðulega til að "hitta" betur í stæðið sitt - þó svo að auðvitað væri það ekki hluti af akveginum - já stæðið hans því auðvitað var hann búinn að eigna sér stæði við innganginn.

Bíllinn var fluttur á verkstæði en þegar sá gamli frétti að ekki yrði gert við bílinn samdægurs heldur stæði til að gera við hann daginn eftir - þá sótti kall bílinn. Það kom ekki til greina að láta skódann standa aleinan við verkstæðið um nóttina - allskyns lýður gæti átt þar leið um og þar fyrir utan þekkti skódinn ekkert til þar - neibb, heim fór gamli á skódanum. Hringdi svo í pabba morguninn eftir til að láta draga sig á verkstæðið - en pabbi átti Ford Bronco og aftan í honum var dráttarkúla - sem auðvelt var að smeygja lykkju yfir til að draga. En pabbi vissi auðvitað ekkert hvert eðli bilunarinnar væri - hélt að um kúplingavandamál væri að ræða - en endurnýja þurfti reglulega kúplingu í bílnum því gamla var ílla við að vera alltaf að skipta um gír - slúðraði bara á kúplingunni enda "er hún til þess".

Og svo var haldið af stað - og ferðin gekk ljómandi - lítil umferð og að mestu sléttlendi. Svo er það þegar tekur að halla undan fæti í Þórunnarstrætinu - þar sem m.a. lögreglustöðin á Akureyri stendur - að pabba finnst nú vera léttast drátturinn - og ekki líður á löngu en ljósblár skódinn brunar fram úr Broncónum með gamlan kall með hatt í framsætinu og sem líktist afa ískyggilega mikið. Jú mikið rétt - gamli tók framúr enda á bremsulausum bílnum - og það sem kom í veg fyrir að hann kippti Bronconum þversum í götunni var að lykkjan húkkaðist upp af dráttarkróknum - hvílík mildi. En áfram þaut skódinn - fram hjá lögreglustöðinni og á móts við Baldurshaga - þar sem háhýsin standa núna.

Svo af einhverjum orsökum tekur sá gamli sveig yfir túnið í Baldurshaga og stefnir á móts við Helga Magra þar sem hann stendur alsaklaus á klettinum neðan lögreglustöðvarinnar - og viti menn gamli nær á klifra hálfa leið upp klettinn á skódanum en stoppar svo - skódinn standandi uppá endann líkt og hann teygði sig í átt til Helga - og undir stýri gamall maður með hatt - sem blés eins og físibelgur - og andvarpaði í sífellu.

Já það var óborganleg ljósmynd sem birtist á forsíðu Dags - En aldrei aftur - því nú er semsagt búið að byggja skrímsli þar sem afi ætlaði upp klettinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband