Skemmtileg hefð fyrir jól í Vestrahúsinu á Ísafirði.

Frá því að við fjölskyldan fluttumst hingað Vestur höfum við fengið að taka þátt í ákaflega skemmtilegri hefð sem skapast hefur í Vestrahúsinu. Ólafur Halldórsson annar eiganda hússins - auk félaga síns og meðeiganda honum Gísla Jóni - hafa skapað þá hefð að hafa smá forskot á jólasæluna. Ekki er þó um hefðbundið jólahlaðborð að ræða  eða helgislepju - nei, hér er skemmtileg blanda af gamni og menningu - líklegast ætti maður að segja gamni og alvöru.

Í kvöld var dagskráin á þessa vegu. Starfsmenn hússins og gestir safnast saman í Vestrahúsinu. Ólafur hefur samverustundina með umfjöllun úr fortíð og nútíð Vestrahússins. Að því loknu er hefð fyrir að einhver starfmaður í húsinu segi frá menningu og þjóð annars lands - gjarnan þess lands sem viðkomandi hefur t.d. menntað sig í. Ég t.d. sagði frá frændum okkar Svíum hér um árið. Í dag féll sú dagskrá niður þar sem sögumaður var veðurtepptur í Reykjavík.

Svo kemur "klassíkin" - sem er orðaleikur Ólafs. En sá leikur felst í því að svara nokkrum "laufléttum" spurningum sem tengjast tungumáli þeirra Færeyinga - og satt best að segja er það hin mesta skemmtun - enda um tungumál sem okkur íslendingum finnst skrítið  - en Ólafi hugleikið. Vegleg verðlaun eru fyrir sigurvegarann - að vísu veit ég ekki hver þau eru - enda aldrei unnið!!

Að lokinni Færeyskunni - er yfirleitt boðið upp á menningu - og í ár var það heiðasveinninn hýri og ástin hans hún Ásta, dóttir Sigurðar í Dal, úr uppsetningu Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Skugga-Sveini í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg, sem sungust á langt uppi á ímynduðum heiðum. Ekki var laust við að fiðringur færi um Jón Sterka úti í sal þegar hann heyrði sönglið í útilegumanninum - "réttast hefði jú verið að setja´nn í bönd...." en fallega sungu þau og sýndist mér sveinninn ansi hýr. Ekki var það síst gaman fyrir þær sakir að Ólafur ber nokkra ábyrgð á því að þetta leikverk var sett upp á Ísafirði - en hann var snemma farinn að ræða þann möguleika við Hrafnhildi þegar honum barst til eyrna að hún væri leikhús menntuð.

En þá er komið að því sem aldrei er sleppt - en það er hringdans upp á Færeyskan máta - Vikivaka. Að þessu sinni stjórnaði Ólína Þorvarðardóttir dansinum með glæsibrag og var ennfremur forsöngvari og kyrjaði...."Ólafur reið með björgum fram" og við tókum undir " villir hann, stillir hann"...... Gaman var að fylgjast með fólki í þessum skemmtilega dansi...tvö skref til vinstri og eitt til hægri....flóknara má það ekki vera fyrir minn smekk....auk þess sem dansfélagarnir sitt hvoru megin við mig máttu vart við meira tá-trampi.....

Skemmtileg dagskráin endar svo með veitingum og jólagjöf frá Vestrahúsinu. Já hann Ólafur Halldórsson er einstakur maður og á þakkir skildar fyrir margt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú ert góður penni. Eitt kann ég sem ég lærði af þér þótt ég hafi heyrt það seinna hjá öðrum. Þú varst bara svo ungur þá. Að láta einhvern finna til tevatnsins. Ég hafði aldrei heyrt það notað í talmáli fyrr en ég heyrði þig nota það. Swo wona ég að þú kunnir að borða skötu. Er einn fjórði Westfirðingur og fékk skötuástina þaðan. Ég þarf alltaf sjálf að gera mína skötustöppu með hnoðmör, treysti öngvum öðrum

.

Hólmdís Hjartardóttir, 15.12.2007 kl. 02:42

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, þetta var góð stund í gær.

Svo leysti Ólafur alla út með gjöfum og það veglegum. Sannkallaður höfðingi Ólafur B. Halldórsson.

 Góða helgi Tolli minn. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.12.2007 kl. 12:35

3 Smámynd: Hlynur Kristjánsson

Kæri Jón "Sterki"

Þó svo að fóstri minn segji að ég sé bara 19 ára þá hef ég nú samt, á þeim stutta tíma sem við höfum þekkst, snúið þig tvisvar niður án þess að þú hafir náð að koma nokkrum vörnum við.  Réttast hefði verið að ganga frá þér á fjallinu forðum og geturu þakkað honum tengdaföður mínum honum Sigurði frá Dal það að þú hlaust ekki slys af. 

Ég hef lesið hér á þessari bloggsíðu og heyrt úti í bæ að þú sért að halda því fram að ég sé samkynhneigður, en ekki hýr eins og Mattías vildi hafa það, og er ég nú búinn að fá nóg og langar að minna þig á enn einu sinni hver endaði með Ástu frá Dal!!  Því það var svo sannarlega ekki ÞÚ!   

Vil ég hér með biðjir mig formlega afsökunnar á þessari vitleysu í þér annars kem ég og "mólistera" þig allmennilega. 

Kær kveðja.  Haraldur heiðasveinn.

Hlynur Kristjánsson, 15.12.2007 kl. 15:02

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Halli Hýri.... ma...ma...ma.....bara skelfur á beinunum... "ég féll á míns eigin bragði".... og rétt er það að Matthías hefur líklegast ekki vitað hvað samkynhneigð var og ekki hefur hann heldur gert sér grein fyrir því að hægt væri að snúa út úr þessu ágæta orði. Auðvitað er Haraldur ekkert hýr...hmm og varðandi ykkur Ástu þá höfum við "grasa Gudda" átt okkar móment í tjaldinu á grasafjalli.....sei nó mor. Og engar "mólistéringar vil ég uppúr þurru..".

Þorleifur Ágústsson, 15.12.2007 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband