Lakkviðgerðir á skódanum hans afa

Skódinn hans afa var ljósblár. Líkt og aðrir bílar þá hætti honum við að ryðga með tilheyrandi ófögnuði. Rústrauðir blettir og bólgið lakk er jú ekkert sem menn vilja sjá. Ekki afi heldur. Hann var því búinn að koma sér upp ákaflega sniðugri aðferð við að lagfæra slíkan ófögnuð - ryðgöt og skemmdir.

Hann nýtti sér son sinn, dýralækninn, sem hafði í fórum sínum heftiplástur - sem notaður var við ýmsar lækningar á særðum dýrum - og börnum ef þurfa þótti.

Afi einfaldlega límdi yfir ryðið og dró fram lakkdós sem innihélt lakk í svipuðum tón og skódinn. Penslaði létt yfir heftiplásturinn svo vart mátti sjá mun - í það minnsta taldi afi að svo væri. Ekkert slor það. Einföld aðgerð sem hann dundaði sér við úti á bílastæðinu fyrir framan elliheimilið. Kveikti sér þá gjarnan í vindli og blés reyknum út í loftið. Dæsti og pústaði.

Svo gerðist það einn daginn að skódinn lenti í meiriháttar tjóni. Það gerðist þegar litla systir mín dundaði sér við að skreyta skódann - með því að líma á hann "fallega" litla miða - sem hún líklega komst yfir í stórubúðinni sem við kölluðum svo - en það var KEA búð sem stóð við tjaldstæðið og stendur kannski enn.  Afi hafði verið að dunda úti við - líklegast að sýsla í bílnum - ofan í húddi að yfirfara vélina - en hvað um það - allt í einu birtist sá gamli í herbergi þeirra hjóna - móður og másandi - eldrauður í framan og kemur ekki upp orði. Veit ekki sitt rjúkandi ráð - bendir til pabba og ríkur á dyr. Eitthvað mikið hafði gerst.

Við eltum afa út og sáum það að sú litla hafði dundað sér við að líma miðana á skódann. Á sjálfan skódann hans afa. Og afi gamli stóð og dæsti.

Skömmu eftir að við komum heim réttir pabbi mér nokkrar rúllur af heftiplástri og segir mér að skjótast niður á elliheimili - afi bíði eftir mér - hann þurfi að lagfæra rispur á bílnum sem hlutust af því að fjarlægja límmiðana - með skrúfjárni!

Já skódinn hans afa var merkilegur gripur. Ég held að hann hafi meira og minna hangið saman á heftiplástri - og mér er til efs að hann hafi mælst á radar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hættu svo að þvaðra um hann afa þinn!

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:18

2 Smámynd: Ingimar Eydal

Nei...nei í guðs bænum ekki hætta, þetta er yndislegt :)

Ingimar Eydal, 4.12.2008 kl. 13:22

3 identicon

Endilega eki hætta, þetta eru góðar sögur og skemmtilegar, allavega það sem ég er búin að lesa

(IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:42

4 identicon

Fyrri athugasemd var ekki beinlínis beiðni um að hann hætti að þvaðra um hann afa sinn. Ég stóðst bara ekki mátið að vitna í heimsbókmenntirnar þar sem refur einn hreytir þessu í blásaklausan bakara þegar hann er að ræna af honum piparkökum. Og getiði nú!

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 15:13

5 identicon

Sæll Ágúst

Endilega haltu áfram á þessari braut

Ekki veitir af að fá svolítin húmor í tilveruna

Svo er ég alveg viss um að pabbi þinn hafi sögur af afabróður þínum Oddi

Kveðja

Friðrik í Hvammi

J Friðrik kárason (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband