Skódinn hans afa míns.

Skódinn hans afa míns var í raun miklu meira en skódi. Miklu meira en sálarlaus bíll - þetta var skódinn. Ekki nokkur lifandi mannvera fékk að setjast undir stýri - nema Gunni hennar Díu frænku af því að hann var menntaður vélstjóri. Hér dugði ekkert minna. Háskólapróf í dýralækningum dugði ekki til líkt og pabbi fékk að vita þegar hann bað afa um að fá lánaðan bílinn í vitjun og hans bíll var á verkstæði. Nei ekki aldeilis. Afi mætti heim og sótti pabba. Keyrði hann bara sjálfur í sveitina.

Og drunurnar í skódanum rufu þögnina í Eyjafirðinum. Búfénaðurinn lét sér þó fátt um finnast nema kannski beljan sem beið eftir dýralækninum - sem seinkaði til muna sökum þess að bílstjórinn var ekki með neinn asa - hann hélt sér á sínum hraða - á sinni leið - þegjandi í bílnum. Því ekki mátti tala - það truflaði bara aksturinn.

Þegar búið var að draga kálf úr kúnni var auðvitað haldið heim á leið. Að vísu þeginn bolli af kaffi og eilítið skrafað. Brekkurnar í Eyjafirðinum voru nokkrar og reyndu á skódann - einkum kúplinguna. Afi var nefnilega ekkert fyrir að það að skipta niður - til þess var kúplingin að safna pústi og láta svo vaða. En smá saman dró af kúplingunni sem ekki var hönnuð til slíkra verka.

Á endanum gafst kúplingin upp og draga þurfti skódann með afa og dýralækninn innanborðs á verkstæði. Og ekki hvaða verkstæði sem var - nei hér giltu auðvitað fastar reglur. Og svo ekki nóg með það - þegar afi gamli gerði sér grein fyrir að líklegast stæði bíllinn aleinn yfir nóttina niður á verkstæði og jafnvel yfir helgi þá sló hann í borðið og sagði nei. Skódinn skildi dreginn heim á sitt stæði við elliheimilið. Þar átti skódinn heima en ekki aleinn og umkomulaus fyrir utan verkstæði niður á Óseyri - innanum óþekkta bíla sem guð mátti vita hvaðan kæmu - eða hver ætti!

Já - skódinn hans afa var enginn venjulegur skódi. Þetta var bíllinn hans - hans og enginn skildi halda annað.

Ekki veit ég hvernig á því stendur að ég er að rausa þetta um skódann hans afa....kannski vegna þess hve stutt er til jóla...hvur veit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannski er hugsuninn komin vegna alla fínu jeppana sem þú sérð á götunum í dag. Hann afi þinn hefur verið skemmtilegur karakter ekki ólíkum þeim í smiðjunni góðu

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 10:12

2 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Ekki var þetta MB1000 '67?

Björgvin R. Leifsson, 3.12.2008 kl. 23:36

3 identicon

Yndislegt

Inda frænka (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 10:31

4 Smámynd: Ingimar Eydal

Alskemmtilegasta færsla sem ég hef lesið þar sem af er þessu ári  Bjargaðir deginum, kæri gamli skólabróðir.

Skódinn (nb. þessir gömlu) snerta nefnilega ýmsar taugar undirritaðs og eitthvað kannast maður við sérviskuna sem hefur greinilega loðað við ýmsa Skódaeigendur þessa tíma.

Mæli með því að þú skrifir meira af þessu tagi, safnir saman í bók og þá veit ég hvað ég gef í jólagjöf

Ingimar Eydal, 4.12.2008 kl. 13:20

5 identicon

Skódinn hans afa er sennilega merkilegasti bíll íslandssögunnar. Vorið 1982 kallaði afi mig á sinn fund upp á elliheimili. Ég mætti og hann byrjaði að tala um ábyrgð mína, frumburð minn sem senn mundi fæðast, margvísleg innkaup sem ég þyrfti að sinna á næstu vikum og mánuðum. Ég jánkaði öllu og velti því fyrir mér hvert karlinn væri að fara. Og á endanum kom það. ,,Þar sem þú átt engan bíl er þér velkomið að nota Skódann hvenær sem þú villt." Og þetta var einhver mesta upphefð sem mér hafði hlotnast og kallinn toppaði sig í næstu setningu. ,,Svo vil ég endilega að þú farir á Skódanum i helgarferð í Mývatnssveit nú i sumar."

Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 15:19

6 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Já skódann fékk ég aldrei að prufa - bæði of ungur og svo hefði ég líklegast aldrei talist hæfur - enda ekki sonur vélstjóra!!

Ingimar, pabbi þinn var nú alveg einstakur skóda maður! Mig minnir einhvernveginn að skódinn hans hafi lent á safninu í Köldukinn?

Gaman að þessu.

Þorleifur Ágústsson, 4.12.2008 kl. 15:29

7 identicon

Takk Tolli, þetta var gaman að lesa. Tek undir með IE haltu áfram...

Guðný Björk Eydal (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband