Mamma - móðir - systir - sambýliskona - sama kyn en ótrúlegur munur....

Ég svaf eitthvað undarlega nótt eina í byrjun desember - og þá fór ég að hugsa um mömmu mína. Það er nefnilega svo að ég á fjórar systur og mömmu - og sambýliskonu. Allt eru þetta kvenmenn - en þó litningasamsetningin sé eins eru líkt og að hin undarlegasta þróun eigi sér stað hjá kvenpeningnum - að um þrjú algjörlega ólík lífsform sé að ræða sem þó eru nátengd og óaðskiljanleg. Og við karlpeningurinn erum alltaf þátttakendur án ákvörðunarréttar.

Fyrstu kynni af systrum mínum eru auðvitað þau að maður er algjörlega afskiptur. Ekki nokkur áhugi frá þeirra hendi á því hver maður er - eða hvað maður er að gera - nema þegar auðvitað maður er fyrir - rangur maður á röngum stað - svo sem eins og heima hjá sér þegar systir eða systur eru heima með vinkonum sínum. Ekkert er auðvirðulegra en bróðir þegar ekki er tími fyrir hann. Nema þegar maður er mjög ungur - þá er maður óttaleg dúlla - og fær að fara með í sund og svoleiðis. En um leið og systur eru komnar á gelgjualdur þá er maður úti í kuldanum - ískulda. Það allra versta - það er þegar maður veikist. Nú, þá er maður auðvitað ekkert veikur - ímyndunarveiki af verstu gerð. Ræfill og bjálfi.

En mamma - hún hjúkrar manni og hugsar um mann. Þar er ekki verið að draga í efa alvarleika krankleikans. Nei, mamma er best. Og maður verður bara svo lítill....þó aldurinn segi kannski eitthvað annað.

Svo eldist maður. Það fer af stað ferli sem lýsir sér með óttalegu útvexti. Nef og ýmsir útlimir fara að vaxa úr hófi og eru í engu hlutfalli við restina af líkamanum. Eins fer hormónakerfið í kerfi - og maður hreinlega klikkast - sem lýsir sér auðvitað í því að maður fær áhuga á stelpum. Þessum sem maður er búinn að alast upp við að hati mann. Og þessar sem maður bauð ekki afmælið sitt fyrr en á 11.ári - skrítið. Já þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Og auðvitað fá þær mann út í allskyns vitleysu - nú til að sína hvað í manni býr - hver getan sé. Og stundum keyrir úr hófi og pabbinn verður vitlaus.

En mamma - hún skammar mann ekki. Hún passar sinn mann og er góð. Auðvitað voru það stelpurnar sem plötuðu mann út í vitleysuna. Ætli hún þekki það ekki, á fjórar. En bara mig einan.

Og svo nær maður sér í eina. Konu sem maður þó vissi að var systir - og þar af leiðandi í vonda liðinu. Og maður verður svo ástfanginn. Börn fæðast. Konan sem sagt orðin móðir. Og maður er vongóður að allt fari nú að lagast - að hún verði mamma. En þá fær maður gú morren. Konan og móðirin er bara ekkert mamma. Það kemur auðvitað best fram í því að manni er útjaskað ennþá meira - látinn skúra, taka til og jafnvel sendur út í búð - í hvernig veðri sem er. Og ekki skánar það ef maður svo mikið sem fær nánast lífshættulega flensu. Þá er ekkert að manni - bara leti og ímyndun - rekinn á fætur og bent á að þetta sé ekki hótel.

En mamma - hún skilur mann. Og þegar ég hringi í hana og segi farir mínar ekki  sléttar um veikindi og almennan krankleika þá huggar hún mann og segir að fara nú vel með sig. Já og hvort mann vanti ekki ný nærföt eða sokka. Já hún mamma. Ég veit eiginlega ekki hvaðan hún kom - eða í það minnsta hvers vegna mér hefur ekki tekist að finna svona konu - bara svipaða,  bara eitthvað í áttina - það er alveg nóg. En það er bara ein mamma. Bara ein. Mamma.

Hvernig skildi pabbi hafa verið svona ótrúlega heppinn. Að finna MÖMMU??

Já það er gott að eiga góða mömmu. Og svo steinsofnaði ég með bros á vör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Þetta var hláturskammtur vikunnar fyrir mig :)

gerður rósa gunnarsdóttir, 17.12.2007 kl. 20:39

2 Smámynd: halkatla

halkatla, 17.12.2007 kl. 23:40

3 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

já móðurástin....... er engri annari ást lík.....frábær pistill.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 17.12.2007 kl. 23:41

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Frábært. Ég var einmitt að hugsa um hina algóðu móður í gærkvöldi. Vann á barnadeild að morgni, öldrunardeild að kveldi. aldur 0-100, allir að leit að mömmu!!!Vann einu sinn á vöknun (eftir svæfingar) Fullorðið fólk spurði gjarnan fyrst um mömmu.Sumir báðu um dúsuna sína. Njóttu aðventu,

Hólmdís Hjartardóttir, 18.12.2007 kl. 01:29

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær pæling, ég á einmitt 5 stelpur og einn strák, ég vona að ég sé svona mamma eins og þú lýsir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.12.2007 kl. 01:33

6 Smámynd: Hreinn Ómar Smárason

Fékk tengil á þennan pistil sendan frá Jóku frænku minni og vinkonu og kann henni miklar þakkir fyrir. 

Frábær lesning og lygilega margt sem maður kannast við, þó systur mínar hafi reyndar alltaf verið góðar við mig, enda eru þær miklu eldri en ég og voru fluttar að heiman áður en ég byrjaði í skóla. 

Mamma er lang best!

Hreinn Ómar Smárason, 18.12.2007 kl. 11:00

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þú finnur alltaf friðhelgina hjá Mömmu.   

Valdimar Samúelsson, 18.12.2007 kl. 17:23

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 Yndisleg færsla.

bara svona ef þú ert ekki búinn að fatta það sjálfur... pabbi þinn er sennilega líka búinn að velta því lengi fyrir sér afhverju hann gat ekki náð sér í svona konu eins og og mömma... sko mömmu hans.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.12.2007 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband