Gleðileg jól - farsæl komandi ár....

Það er svo undarlegt með mig að ég hef aldrei haft þörf fyrir að halda veislur. Sex ára gamall sagði ég mömmu að nú væri ég hættur að halda uppá afmælið mitt - og stóð við það. Það var ekki fyrr en á 40 ára afmælinu sem ég hélt smá partý í Jökulfjörðum.

Og svo eru það jólin. Mér er einhvernvegin svo um megn að nenna þessu. Að vísu á ég ekkert í vandræðum með að borða jólamatinn og nammið - sé það fyrir mig lagt - eða eins og kona mín segir: "sé það ekki nægilega vel falið". Og étið get ég. En þetta kostar allt saman. Kostnaðurinn felst í mínum huga í því að mér er hreinlega skipað að skrifa á jólakort - til fjölskyldumeðlima og vina. Auðvitað hef ég ekkert að segja - man ekkert hvað gerst hefur markvert á árinu - en sem betur fer eru kortin for-prentuð - maður skrifar bara t.d. "kæri vinur..." eða "elsku systir"....og svo kemur halelúja setning for-prentuð - svo kvittar maður bara undir.

Yfirleitt gengur þetta vel með fyrstu tvö, þrjú kortin. Svo byrja ég að draga í efa að nokkur nenni að opna svona kort hvort eð er. Penninn hættir að skrifa og mér finnst ég fá "ritstíflu" - líður illa og kvarta sáran undan höfuðverk - nú eða tímaleysi. En ekkert dugar - kortin skulu skrifuð hvort sem mér líkar betur eða verr.

Aumingja fólkið sem fær þessi kort. Það les þau með bros á vör - ekki vitandi hverslags pína þetta var fyrir mig að skrifa þessar línur. Og til að kóróna allt saman þá man ég aldrei hvar hver á heima og kortin fara hingað og þangað...sum berast líklega aldrei á réttan stað.... - eða hver á hvaða börn. Allt fer þetta í einn hrærigraut svo ég er farinn að kenna Jonna við Hörpu og Palla við Kollu!...og líklegast leiðir þetta til hjónaskilnaða - því auðvitað er hægt að misskilja og halda að ég viti meira en ég veit - vitandi ekki neitt um ekki neitt eða neinn - frétti alltaf allt síðastur.  

Já - kvöl og pína. Hverju datt þetta annars í hug. "Elsku vinur..." bla bla bla "þökkum allt liðið"...bla bla....og maður ekki búinn að hitta viðkomandi í mörg ár...hvað þá meir - og þar fyrir utan eru nú oft ástæður fyrir því að maður er hættur að hittast....sumar meira að segja ekki landfræðilegar..... Líklegast er þetta allt saman gert til þess að maður njóti jólanna þegar þau loks koma og þetta er afstaðið - svona eins og verðlaun eftir að hafa verið duglegur hjá tannlækninum.

En ég er í það minnsta að prufa mig áfram með nýja jólakortatækni sem er svo hljóðandi:

"Kæri vin,...eða systir...eða bara hver sem er"..."Gleðileg jól og farsæl komandi ár "...."hafið það sem allra best...kv, Tolli og fjölskylda"

ps. Vinsamlegast geymið kortið og lesið á ný um næstu jól!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

sparar vissulega tíma, fé, fyrirhöfn, tré, endurvinnslu, blek og síðast en ekki síst.. gæti bjargað geðheilsu þinni sýnist mér.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.12.2007 kl. 18:24

2 Smámynd: Fanney Björg Karlsdóttir

hehehe...nokkuð flottur bara.... í bullandi uppreisn.....

Fanney Björg Karlsdóttir, 18.12.2007 kl. 18:43

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Góð hugmynd, ég var að fatta í kvöld að ég á eftir að kaupa jólakortin í ár, og síðan skrifa og senda þau, vonandi man ég það á morgun ;)

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.12.2007 kl. 03:47

4 Smámynd: Júdas

Góð aðferð er að senda annað slagið engi jólakort og hrista þannig af sér tilfinningalaus og um leið óþarfa jólakorta"vini".   Júdas hefur oft gert það og náð vinunum úr 12 í 7 sem er ekki slæmt.................... 

Júdas, 20.12.2007 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband