Hið óskiljanlega.

Það er undralegt tómarúm sem myndast við fráfall vinar. Hugsanir berjast um í höfðinu og engar útskýringar eru til staðar né að hægt sé að gera sér grein fyrir orsök. Þetta bara er og maður er bara að glíma við að reyna að skilja það sem algjörlega er óskiljanlegt - lífið.

Á sama tíma og einn reynir að gera allt til að fá að lifa lengur - reynir annar að gera allt til að stytta sér aldur. Hvaða skynsemi er í þessu ástandi - að vilja svo gjarnan lifa en á sama tíma vera svo óskaplega þreyttur á þessu lífi. Hver er raunveruleg ástæða þess að við erum hér og hvert er þetta hlutverk sem okkur er ætlað - er það fyrirfram ákveðið eða er hér um óskipulagt ferli að ræða sem enginn hefur nokkra stjórn á? Við bara erum?

Maður vaknar á morgnana - sinnir sínum tilbúnu mannlegu erindum allan daginn - fer heim og undirbýr sig með mat og svefni fyrir næsta dag - dag eftir dag. Engin eiginleg markmið nema auðvitað að hafa það sem allra best - mælt með mælistiku þjóðfélagsins og útkoman verðu meiri kröfur um að vilja meira til að hafa það ennþá betra og vinna meira og græða meira til að geta haft það ennþá betra sem leiðir af sér ennþá dýrari venjur sem krefjast ennþá meiri innkomu sem krefst meiri vinnu og sem veldur því að við höfum minni tíma til að gera það sem við í byrjun ætluðum okkur að gera - að njóta lífsins. Undarleg hringavitleysa sem er manni gjörsamlega óskiljanleg - en allir taka þátt í - hver með sínum hætti. Og svo verður allt hljótt. Tómarúm. Enginn tími lengur - bara búið.... 

Það er ekki fyrr en við komumst í nálægð við dauðann að maður spyr sig þessara spurninga. Og það eina sem við getum verið viss um er að við deyjum - það eitt er staðreynd. En hvenær vitum við ekki - hvernig vitum við ekki. En við förum og eftir standa þeir sem eiga inni tíma - og standa eins og við áður í okkar sporum og spyrja sig spurningarinnar - hvenær fer ég - hvernig fer ég og hvað verður um þá sem eftir verða. 

Er dauðinn kannski ekkert annað en áminning til þeirra sem eftir lifa um að njóta lífsins - vera sjálfum sér og öðrum til ánægju. Taka þátt í lífinu og láta gott af sér leiða. Ég vil trúa því. Ég vil líka trúa því núna þegar ég upplifi tómarúm og leita eftir útskýringum að við eigum erindi yfir móðuna miklu - að okkar bíði eitthvað meira.

Ég vil trúa því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ekki minnsti vafi í mínum huga að það bíður okkar eitthvað betra fyrir handan.  Þar hittast ástvinir og félagar þegar tíminn kemur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2007 kl. 00:38

2 Smámynd: Linda

Já það býður okkar svo miklu meira enn við getum gert okkur vonir um. Þakka þér fyrir þetta yndislega pistil, ég er hræði yfir þeirri einlægni sem skín í gegn orða þinna.  Takk fyrir og Guð blessi þig.

Linda, 27.8.2007 kl. 03:17

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Fallegur og einlægur pistill. Og djúpar hugsanir. Ég er þess sannfærð um að okkar bíður mikið hlutverk. Þessi jarðvist er bara lítill partur af öllu heila ferlinu. Eigðu fallegan mánudag.

Ylfa Mist Helgadóttir, 27.8.2007 kl. 11:38

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæl og takk fyrir komment. Jú það er rétt - margir lifa að þeim finnst á "aukatíma" - en kannski gerum við það öll. Í það minnsta er lygilega margt sem við gerum til að reyna að stytta líftímann sem okkur er jú svo annt um - reykingar...drykkja og allt það. Óskiljanlegt.

Þorleifur Ágústsson, 27.8.2007 kl. 13:20

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Já á sumum stundum verður tilgangsleysið eitthvað svo augljóst og ófalið. Þetta er góð og þörf hugleiðing hjá þér. Alltof margir hafa fest í þessari endalausu hringrás að drepa timann svo þeir þurfi ekki að staldara við og spyrja sig mikilvægra spurninga. Samhryggist þér innilega vegna vinar þíns. En hann skildi eftir handa þér mikilvæga gjöf..mundu það. Þessar stundir og spurningar.

Kveðja

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.8.2007 kl. 19:17

6 Smámynd: Hugarfluga

Rosalega falleg pæling. Ég samhryggist þér vegna fráfalls vinar þíns. Ég er fegin að ég rambaði á síðuna þína. Takk fyrir mig.

Hugarfluga, 27.8.2007 kl. 20:22

7 Smámynd: Guðrún Ösp

Samúðarkveðjur.  Vinir eru með því dýrmætasta í þessu lífi.  Falleg skrif og pæling þín greinilega á sama stað og mín þessa dagana.  Maður verður að taka þetta sem reynslu sem skilar sér í sterkari einstaklingum sem eftir standa. 

Guðrún Ösp, 28.8.2007 kl. 20:56

8 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

samúðarkveðjur til þín Þorleifur, þekkti Kristján ekki, en ég og mamma hans erum fjórmenningar, hann kom til mín og konan hans fyrir nokkru síðan að skoða hús sem ég leigði í víkinni, yndælismaður.

Hallgrímur Óli Helgason, 29.8.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband