Vel varinn maður - það er málið - dörtí víkend fyrir Vestan.

Sumir hafa þörf fyrir að hafa vit fyrir - öðrum og þá sérstaklega maka sínum. Svoleiðis er það oft á mínu heimili - yfirleitt fylgir útskýring að um sé að ræða væntumþykju. Konunni þyki bara svo vænt um mig að hún sé bara að gera það sem er mér fyrir bestu. En nú er ég búinn að fletta ofan af þessu svindlaríi. Málið er í raun ekkert flókið - ég er líklega bara svona einfaldur - ég trúi. Í mörg ár hefur mér ekki tekist að verða brúnn og frúin hefur alltaf sagt við mig að ég verði bara ekkert brúnn - og borið á mig varnarsmyrsl svo ég brenni nú ekki. Með þennan áburð í farteskinu höfum við ferðast til útlanda - til heitu landanna - margoft. Alltaf er hef ég verði smurður áburðinum góða - nú til að ég brenni ekki - og alltaf hef ég haldið mínum íslenska bleik-gráa tón. Það má segja að ég hafi ekkert verið að skipta lit - og bara haldið mínum "tóni". 

Í ljósi þessara staðreyndar - að ég skipti ekki lit - hef ég gjarnan verið til taks fyrir frúna. Hún hefur auðvitað tekið lit þar sem hún liggur og slakar á - nú af því að hún brennur ekki - verður brún. Og auðvitað fylgir slíkum sólbaðslegum gríðarlegur þorsti - hitinn er svo mikill. Og hvað er þá betra en að hafa ólitskiptan mann í skreppið - eða til að passa strákana. Já þetta hefur verið mér óskiljanlegt mál - en hvað veit ég - konan hefur jú vit fyrir mér -og ég brenn segir hún.

En nú gerist það að gróðurhúsaáhrifin koma Vestur og ský dregur vart fyrir sólu. Sumarhitinn er ljómandi og bleikur bregður á leik - kominn á stuttar buxur og ber að ofan. En auðvitað vandast málið - nú maður má náttúrlega ekki brenna - og konan ekki heima. Ég fór því alsendis óhræddur að gramsa í sólarolíuskápnum inni á baði - og komst að hinu sanna. Á flöskunni sem ég hef séð konuna nota við áburðinn stendur - protection number 60 - protection for all radiations - even in space. Hananú hvái ég. Jaháá - það er náttúrlega verið að gera sér leik að einfaldleika mínum - verið að halda mér bleikum svo hægt sé að nota mig til þjónustustarfa. Nei takk, nóg komið - gúdd bæ.

Ég hrifsaði til mín "Tropical sunoil number 0" - löðraði mig hátt og lágt og renndi mér fótskriðu eftir baðherbergisgólfinu út í sólina -  líkt og Skarphéðinn heitinn Njálsson forðum daga - út í garð og í sólbað. Olían svínvirkaði - sólin vermdi og ég fann hvernig litarefnin í húðinni tóku til starfa - súkkulaðilituð slikja fór að myndast. Þetta vakti eftirtekt í götunni - ekki af því að ég lægi eitthvað á glámbekk - nei - tropical olían var með sterkum kókóskeim - ilmandi góð. Svo vel höfðaði hún til flestra að yfir mér sveimaði flugnaský - mér leið eins og nýskitinni kúadellu - eitthvað svo lokkandi - en samt svo dörtí - svona eins og þau fyrir sunnan "dörtí víkend in blú lagún".

Og auðvitað leið ekki á löngu þar til maður var ávarpaður á ensku - svo dökkur varð ég.

Já að vera rétt löðraður gerir gæfumuninn. Nú er bara að fá sér gullkeðju og þá er sigurinn unninn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skafti Elíasson

maður segir nú bara eins og indjánarnir "úgg"...við bleiknefnjana

Skafti Elíasson, 11.7.2007 kl. 19:45

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Varð þér ekki fótaskortur í fótskriðunni félagi?

Var það ekki Skarphéðinn Njálsson sem renndi sér þessa heimsfrægu fótskriðu á ísnum yfir Markarfljót og klauf Þráin bjálfann Sigfússon í herðar niður með öxinni Rimmugýgi?

Þráinn var perradjöfull sem fékk hormónasjokk þegar hann sat blindfullur í giftingarveislu hjá Gunnari og Hallgerði og sá fjórtán ára dóttur Hallgerðar. Skildi við eiginkonuna Þórhildi skáldkonu í hvelli, tók stelpuna með sér heim að Grjótá og giftist henni náttúrlega.

Svona hátterni þætti ekki huggulegt af mér, ég segi nú ekki annað. 

Árni Gunnarsson, 12.7.2007 kl. 12:13

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Rétt er það - upp kemst um fákunnuga - er reyndar að lesa Njálu í fyrsta skipti (lélegt það...) og því auðvitað allsendis ódæmbar á nokkurn skapaðann hlut - líkt og kona mín bendir mér einatt á - en hún er íslenskukennari við MÍ og kennir þ.a.l. Njálu. Ég hef þó farið á Njáluslóð með vini mínum Arthúri Björgvini og hafði bæði gott og gaman af. En er að vinna í mínum málum. Réttast væri að setja á stofn Njálumeðferðarstofnun - fyrir bjálfa eins og mig.

Þorleifur Ágústsson, 12.7.2007 kl. 12:27

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Ódómbær....á þetta að sjálfsögðu að vera. Maður fer á taugum yfir að hafa vitnað ólöglega í Njálu - sjálfa.

Þorleifur Ágústsson, 12.7.2007 kl. 12:28

5 Smámynd: Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson

Já sko, gott ef þetta er ekki málið, ég er nefnilega einn af þessum vel vörðu bleiku íslensku karlmönnum sem stend í sendiferðum á spánarströndum og geri öllum örðum þann grikk að fá ofbirtu í augunn þegar ég dröslast þetta um ströndina fram og til baka, hef grun um að þú hafir þarna komið upp um eitthvert samsæri kvennana alvega svona fyrir slysni enda ef þær bera á okkur krem sem gerir manni kleift að spranga um á sólinni sjálfri þá er ekki nema von að lítið gerist í sölböðum á klakanum eða annarstaðar.

Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson, 12.7.2007 kl. 16:08

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ef þú lofar að þegja yfir því Þorleifur þá get ég játað fyrir þér að það er lafhægt að reka mig á gat í Njálu. Og í algerum trúnaði:- það hefur oft verið gert.

Árni Gunnarsson, 12.7.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband