Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Lakkviðgerðir á skódanum hans afa

Skódinn hans afa var ljósblár. Líkt og aðrir bílar þá hætti honum við að ryðga með tilheyrandi ófögnuði. Rústrauðir blettir og bólgið lakk er jú ekkert sem menn vilja sjá. Ekki afi heldur. Hann var því búinn að koma sér upp ákaflega sniðugri aðferð við að lagfæra slíkan ófögnuð - ryðgöt og skemmdir.

Hann nýtti sér son sinn, dýralækninn, sem hafði í fórum sínum heftiplástur - sem notaður var við ýmsar lækningar á særðum dýrum - og börnum ef þurfa þótti.

Afi einfaldlega límdi yfir ryðið og dró fram lakkdós sem innihélt lakk í svipuðum tón og skódinn. Penslaði létt yfir heftiplásturinn svo vart mátti sjá mun - í það minnsta taldi afi að svo væri. Ekkert slor það. Einföld aðgerð sem hann dundaði sér við úti á bílastæðinu fyrir framan elliheimilið. Kveikti sér þá gjarnan í vindli og blés reyknum út í loftið. Dæsti og pústaði.

Svo gerðist það einn daginn að skódinn lenti í meiriháttar tjóni. Það gerðist þegar litla systir mín dundaði sér við að skreyta skódann - með því að líma á hann "fallega" litla miða - sem hún líklega komst yfir í stórubúðinni sem við kölluðum svo - en það var KEA búð sem stóð við tjaldstæðið og stendur kannski enn.  Afi hafði verið að dunda úti við - líklegast að sýsla í bílnum - ofan í húddi að yfirfara vélina - en hvað um það - allt í einu birtist sá gamli í herbergi þeirra hjóna - móður og másandi - eldrauður í framan og kemur ekki upp orði. Veit ekki sitt rjúkandi ráð - bendir til pabba og ríkur á dyr. Eitthvað mikið hafði gerst.

Við eltum afa út og sáum það að sú litla hafði dundað sér við að líma miðana á skódann. Á sjálfan skódann hans afa. Og afi gamli stóð og dæsti.

Skömmu eftir að við komum heim réttir pabbi mér nokkrar rúllur af heftiplástri og segir mér að skjótast niður á elliheimili - afi bíði eftir mér - hann þurfi að lagfæra rispur á bílnum sem hlutust af því að fjarlægja límmiðana - með skrúfjárni!

Já skódinn hans afa var merkilegur gripur. Ég held að hann hafi meira og minna hangið saman á heftiplástri - og mér er til efs að hann hafi mælst á radar!


Skódinn hans afa míns.

Skódinn hans afa míns var í raun miklu meira en skódi. Miklu meira en sálarlaus bíll - þetta var skódinn. Ekki nokkur lifandi mannvera fékk að setjast undir stýri - nema Gunni hennar Díu frænku af því að hann var menntaður vélstjóri. Hér dugði ekkert minna. Háskólapróf í dýralækningum dugði ekki til líkt og pabbi fékk að vita þegar hann bað afa um að fá lánaðan bílinn í vitjun og hans bíll var á verkstæði. Nei ekki aldeilis. Afi mætti heim og sótti pabba. Keyrði hann bara sjálfur í sveitina.

Og drunurnar í skódanum rufu þögnina í Eyjafirðinum. Búfénaðurinn lét sér þó fátt um finnast nema kannski beljan sem beið eftir dýralækninum - sem seinkaði til muna sökum þess að bílstjórinn var ekki með neinn asa - hann hélt sér á sínum hraða - á sinni leið - þegjandi í bílnum. Því ekki mátti tala - það truflaði bara aksturinn.

Þegar búið var að draga kálf úr kúnni var auðvitað haldið heim á leið. Að vísu þeginn bolli af kaffi og eilítið skrafað. Brekkurnar í Eyjafirðinum voru nokkrar og reyndu á skódann - einkum kúplinguna. Afi var nefnilega ekkert fyrir að það að skipta niður - til þess var kúplingin að safna pústi og láta svo vaða. En smá saman dró af kúplingunni sem ekki var hönnuð til slíkra verka.

Á endanum gafst kúplingin upp og draga þurfti skódann með afa og dýralækninn innanborðs á verkstæði. Og ekki hvaða verkstæði sem var - nei hér giltu auðvitað fastar reglur. Og svo ekki nóg með það - þegar afi gamli gerði sér grein fyrir að líklegast stæði bíllinn aleinn yfir nóttina niður á verkstæði og jafnvel yfir helgi þá sló hann í borðið og sagði nei. Skódinn skildi dreginn heim á sitt stæði við elliheimilið. Þar átti skódinn heima en ekki aleinn og umkomulaus fyrir utan verkstæði niður á Óseyri - innanum óþekkta bíla sem guð mátti vita hvaðan kæmu - eða hver ætti!

Já - skódinn hans afa var enginn venjulegur skódi. Þetta var bíllinn hans - hans og enginn skildi halda annað.

Ekki veit ég hvernig á því stendur að ég er að rausa þetta um skódann hans afa....kannski vegna þess hve stutt er til jóla...hvur veit?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband