"Það er allt af fara til helvítis - þetta getur ekki gengið svona"!

Bragi gusar þessu yfir mig þegar ég rek inn nefið í Vélsmiðju Ísafjarðar.

Hann sat í bláum samfesting - inni á kaffistofu. Kaffistofan í bárujárnsklæddu járngrindarhúsi. Það er líka ágætt því þetta er smiðja - full af tækjum til járnsmíða. Fyrir hinn venjulega mann sem þar kemur inn er ekki laust við að maður fyllist lotningu - slík er skipulögð óreiðan að maður í raun dáist að öllu saman. Hér er allt til alls og endalaus umferð af mönnum með brýn erindi - allskyns vandamál. Vandamál sem fá skjóta lausn hjá þeim feðgum sem þar ráða. Og sumum úrlausnunum fylgja líka góð ráð frá Braga líkt og þegar hann sagði mér í óspurðum fréttum að allt væri að fara til helvítis - bara á næstunni - og svo fóru bankarnir.

Yfirbyggingin í fyrirtækinu er lítil og kontórinn eftir því. Kontórinn er nefnilega bara lítil skonsa undir stiga - lítill stóll við lítið borð. Og í skonsunni situr stjórinn og fer yfir mál dagsins - skrifar reikning eða hringir í umboð - allt eftir þörfum. Og þetta er hann búinn að gera um langa hríð. Greinilegt er að stærðin skiptir ekki máli - nei - vinnusemi - eljusemi og hreinskipti eru hér einkennisorðin.

Og ofan á þessum litla kontór er kaffistofan fræga - þangað sem karlarni koma til að ræða málin.

Ekki er íburður á kaffistofunni - sem kölluð er Bragakaffi í höfuðið á stjóranum. Hefðbundin kaffistofa með borði og nokkrum stólum. Þó stólarnir séu hver öðrum líkir þá það ekki svo einfalt. Nei ekki aldeilis. Fara verður mjög varlega þegar valinn er staður til að setjast. Vissir gestir eiga sína stóla - Bragi á sinn og ekki má með nokkru móti setjast í þá.

Þessu má ekki breyta.

Hinir stólarnir eru öðrum til taks og notkunar. Allt eftir því hve margir mæta. Stólunum er aldrei fjölgað. Þeir bara standa sem ekki fá sæti. Svo er það bara.

Þennan tiltekna dag sem ég rek inn nefið og fæ orðsendinguna frá Braga og sem ég nota í titlinum eru þarna þeir Óli frá Gjögri, Maggút og Garðar auk Braga og minna mikilvægra kaffigesta.

Bragi er stjórinn - fer hægt yfir enda slæmur í hnjám - treystir ekki læknum og því ekki að ræða það að láta draga úr lið og setja gervi í staðinn - skrítið þegar maðurinn sjálfur er jú oft að skipta um "liði" í hinum og þessum vélum. En hann veit betur - engum að treysta nema sjálfum sér og allra síst eins og staðan er í dag - allt gjörsamlega að fara til helvítis. Bragi er brúnaþungur maður og allsendis óhræddur að segja sína meiningu - sem rétt - þetta er jú hans meining og hann hefur haldið henni fram svo árum skiptir. Og hvað er að gerast - allt stendur heima - en hver hlustaði? Enginn..... og við þessir ungu menn vitum ekkert - kunnum vart að vinna og gerum ekkert af viti.

Honum á vinstri hönd er Garðar. Garðar er gamall bankamaður - elegans og kurteis - kíminn á svip ljós yfirlitum og með gleraugu. Líklegast myndu margir segja að hann væri þéttvaxinn - feitlaginn jafnvel - en hann er bara með sínu lagi og ekkert öðruvísi en það. Hann hefur alltaf með sér sitt kaffibrauð - svona til öryggis ef ekkert er í boði. Kúnstugur karakter sem lætur ekki allt uppi - á sér leyndarmál sem hinum körlunum finnst gaman að geta sér til um - þá brosir Garðar og verður ennþá dularfyllri á svipinn. Fussar svo og sveiar og segir þetta bara getgátur sem ekkert sé að marka.

Honum á vinstri hönd situr svo annar - hávær og ávalt með skoðun á öllu "þó hann viti það ekki" eins og hann segir sjálfur. Það heyrist hátt í honum - og orðin koma í gusum yfir þann sem hann talar við - með handabendingum og sveiflum - allt eftir mikilvægi orðsendingar. Ruglast oft í rýminu og rífst og skammast yfir allsendis óskyldum málum - enda skiptir það svo sem ekkert máli - hann er þarna til að rífast og ræða málin - taka þátt og lát karlana heyra það!...þetta er Maggút. Maggút á það til að taka sér pásur frá Bragakaffi. Lætur þá ekki sjá sig svo dögum og vikum skiptir. En á þó undarlega oft leið framhjá kaffistofuglugganum á bílnum - á kaffitímum.....og einhver verður hans var þá fær hinn sá sami hnefann steyttan á móti sér - svo brunar Maggút áfram. Nú já, segir þá Bragi. Svo kemur að því að Maggút hægir vel á bílnum og flautar fyrir utan - og steytir hnefa - þá vita kaffistofugestir að nú styttist í að Maggút gefist upp á mótmælum og komi inn - yfirleitt bara dagaspursmál. "Nú jæja, þá fer hann að birtast" segir Bragi og hlær.

Og svo er það Óli frá Gjögri. Léttstígur og lipur - einhleypur strandamaður sem eyddi allt of mörgum árum fyrir sunnan. Svo leiddist honum "ljóta" fólkið og "leiðinlega" fyrir sunnan að þegar hann kom heim í Árneshreppinn stóða hann lengi fyrir framan góðan spegil og spjallaði við sjálfan sig - "til að sjá eitthvað fallegt og heyra eitthvað skemmtilegt" - og ekki lýgur Óli - sem þó elskar að trekkja upp Maggút. Fær sér smók frammi í smiðju - þurfti að hætta með pípuna út af hósta og tók þá upp sígarettureykingar. Ákaflega léttur og skemmtilegur náungi sem gaman er að spjalla við - og svo auðvitað gerir hann í að æsa Maggút. "Og ekki lýgur Óli frá Gjögri" segir alltaf Maggút - sem núna er í sjálfskipaðri útlegð. Faðmaði þó Óla að sér og sagði hann vera fínan - ólíkt hinum helvítis fíflunum sem ekkert væri að marka. Svo rauk hann út.

Já - lífið er makalaust á Bragakaffi.

Karlarnir hver öðrum skemmtilegri og kúnstugri. Kynslóð sem gengið hefur í gegnum margt - sem skilaði af sér góðu búi sem mín kynslóð tekur við og kaffifærir.

Kúnstugir karlar á ekta kaffistofu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig H

Ég elska þessar frásagnir af Bragakaffi, körlunum svo rétt lýst sérstaklega Maggút.

Rannveig H, 17.11.2008 kl. 20:44

2 identicon

Hann faðir minn heitinn kom oft þarna við enda var hann færakarl eins og sumir. Alltaf gaman að heyra lýsinguna hjá þér á ástandinu í Bragakaffi

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 07:58

3 Smámynd: Agnes Ólöf Thorarensen

Ég fylgist alltaf alltaf skrifunum þínum af körlunum í Bragakaffi,alltaf gaman að lesa og ég er sammála Maggút.Óli frændi minn lýgur "ALDREI ". Bestu kveðjur frá Hellu.  
 
 







Agnes Ólöf Thorarensen, 18.11.2008 kl. 08:47

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gaman að þessum harðkjarna Ísfirðingum.

Theódór Norðkvist, 18.11.2008 kl. 11:20

5 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Sæll Tolli.

Ég legg til að þú skrifir handrit að leikriti um "Bragakaffi" sem frúin þín leikstýrir svo á næsta leikári Litla Leikklúbbsins. Húmorinn þinn og þessi myndræni ritstíll er frábær og lýsir á skemmtilegan hátt þessum sérstöku vestfirsku karakterum sem eiga enga sína líka. Ég man þegar Maggút kom í heimsókn til frænku sinnar í Súðavík sem bjó í næstu götu við mig, þá heyrði ég í honum inni í mínu húsi þegar honum var mikið niðri fyrir.

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 19.11.2008 kl. 15:24

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Eftir sautján ár á mölinni fær maður netta heimþrá við að heyra sögur að vestan. Myndin í bloggi Ólínu hefur svipuð áhrif. Bragakaffi er alveg ekta og það er sannarlega bara til einn Maggút. Þessi mesti berjatínslumeistari Íslands! Meira af svona góðu, takk.

Haraldur Hansson, 20.11.2008 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband