Það er frost á Fróni - frýs í æðum blóð....samt sjást nokkrir karlar fara um á silkináttfötum!

Nú er frost á Fróni - kuldi og snjór. Kalt er í sinni og vonin lítil um betri tíð. Líklegast er ástandið ekkert skárra hér fyrir Vestan en annarstaðar. Illa gengur þeim bormönnum að finna heitt vatn þó þeir hafi nánast borað alla leið í Bónus - finna bara ekki sprunguna góðu. Spurning hvort að kreppan hefur jarðfræðileg áhrif - að allt hreinlega kreppi - líka sprunguna.

En nýjir tíma bera í skauti sér nýja möguleika. Fyrirhugað er að hafa Playboy kvöld á Diner einum í Súðavík - svona til að ylja sér við í skammdeginu. Eins og allir vita þá eru kanínurnar hans Hefners gullfallegar - og hann sjálfur gengur aldrei um neinu nema silkináttfötum. Og nú stendur leitin að hinum Vestfirska Hefner yfir - og verður sá hinn heppni að vera á svipuðu reki og hafa eigi minni kynþokka yfir að ráða.

Ég frétti af manni sem þurfti að leita aðstoðar í smiðju eina hér í bæ - sjálfur var ég fjarri góðu gamni liggjandi í flensu. En þegar mann garmurinn kemur upp stigann að kaffistofunni mátti heyra að menn voru að ræða sauma og silki af mikilli innlifun. Gesturinn skildi ekkert og taldi sig vera kominn á saumastofu - slík var umræðan.

Þegar hann rak nefið inn um gættina mætti honum sjón sem hann hafði ekki átt von á - þarna sátu þeir karlarnir - hver öðrum afslappaðri og allir í silkináttfötum. Og um það snérist umræðan - skyndilega voru þeir orðnir sérfræðingar í málefnum Hefners. Einn þótti hafa göngulagið - annar vaxtarlagið en sá þriðji fullyrti að hann væri með þetta fræga Hefnersbros.

Já þeir eru allir að gera sig klára karlarnir á kaffistofunni. Einn var þó fjarri góðu gamni - sá er telja má líklegastan til sigurs - sumir segja hann ennþá vera að telja peningana sem hann tók út úr Glitni banka hinum gamla - en þó fullyrtu karlarnir að hann væri heima að sauma náttföt.

Hvað er rétt í þessari sögu veit ég ekki - en hitt stendur þó eftir að þeir sóma sér allir vel sem Hefner enda voru þeir frægir á böllunum í gamladaga......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sé þann fyrir mér sem var staddur heima að telja þúsundinEn kaffistofueigandinn yrði líka flottur í ljósbláu silki

Guðrún (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband