Fullkomið tillitsleysi - Bragi bregður sér frá!

Það ríkir ófremdarástand hér á Ísafirði. Ástæðan er einföld - Bragi bregður sér frá - fer bara sisona í skemmtisiglingu og skilur "kaffigestina" eftir úti í kuldanum!

Og Magnús er brjálaður - lemur sér á brjóst - baðar út öllum öngum og hrópar í bræði "ég veit´ða....Steinþór kann ekki að hella uppá - það verður ekkert kaffi.....lengi".

já, nú er ástandið slæmt. Mjög slæmt. Haustið sækir að og varla orðið sitjandi á bekknum við guðshúsið nema stundum - ekkert að gera - ekkert kaffi og ekkert spjall.

Já - síðustu kaffitímarnir í Bragakaffi hafa verið þrungnir spennu - svona eins og beðið væri eftir endalokunum - eftir að Bragi brygði sér frá. Langar þagnir og fussað og sveiað.

Og svo er það hann Óli í Gjögri - ekkert fréttist af honum. Sögur eru rifjaður upp og Magnús er ennþá að bera til baka söguna um augun....trúir því ekki ennþá - ekki satt.

Og þá rifjast upp sagan af því þegar Óli fann njósnabaujuna rússnesku - í róðri og tók hana í tog heim. Þegar heim var komið var baujan opnuð - innvolsið skoðað og það hirt sem nýtilegt þótti. Svo lá bara baujan þarna og Óli vissi ekkert hvað ætti að gera við hana. Kannski ekki gott að láta'na liggja svona á glámbekk. Að vísu kom hún í góðar þarfir þegar Óli var í tiltekt í skúrnum og gat losað sig við uppsópið af gólfinu - stakk því í baujuna og skrúfaði lokið á. En nú eru góð ráð dýr - hvurn fjandann skal gera við bauju helvítið. Ráðið væri auðvitað að draga hana út á sjó aftur - skil'enni. Og það gerir Óli og prísar sig sælan að losna við baujuna.

Svo gerist það að bátur siglir fram á baujuna og gerir landhelgisgæslunni viðvart. Sérfræðingur er sendur norður - sérfræðingur í baujum og sprengjum - enda veit enginn hvað svona baujur hafa að geyma - nema náttúrlega Óli. Sérfræðingurinn ræðir við annan sérfræðing og saman taka þeir sérfræðilega ákvörðun - ráðið sé að hafa samband við herinn í Keflavík. Rússarnir eru kannski að hlera  - héldu þeir og því rétt að kaninn kanni málið. Stór herþyrla er send norður á Gjögur að sækja baujuna - best að flytjana suður til rannsóknar eða eyðslu. Óli fylgist með á hlaðinu - þegar baujan er hífð uppundir þyrluna - sem flýgur svo tignarlega í burtu með baujuna hangandi neðanundir - og hverfur yfir fjallgarðinn. Baujunni verður að farga - gæti innihaldið hættulegan farm - njósnatæki eða þaðan af verra.

Já þetta var tignarleg sjón þegar herinn sótti ruslið á Gjögur. Óli kímir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig H

Ég skemmti mér konunglega yfir Óla og Maggud, Ég held að Bragi Magg sé kotroskin núna "bara í siglingu". Það verðu nóg um sögur a Bragakaffi þegar hann snýr til baka.

Rannveig H, 3.9.2008 kl. 22:06

2 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Maggúd var mættur klukkan 09.20 í morgun og helti uppá. Bauð síðan upp á kremkex með því. Það er spurning hvort að Braga verður hleypt inn þegar hann kemur aftur úr fríinu.

Ingólfur H Þorleifsson, 4.9.2008 kl. 14:10

3 Smámynd: Agnes Ólöf Thorarensen

Góður...tíhíhí......

Agnes Ólöf Thorarensen, 7.9.2008 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband