Á rauðu í Reykjavík - rómantísk upplifun landsbyggðarmannsins.

Það er guðdómlegt að koma á höfuðborgarsvæðið. Ekki bara út af perlunni, kránum og ráðhúsinu - Nei, vegna þess að það er svo margt fólk þarna fyrir sunnan.

Að sitja í bílnum á rauðu ljósi og fylgjast með náunganum í næsta bíl - eitthvað svo innilegt og notalegt. Aldrei beint einn - en samt eitthvað svo í friði. Svona stórbæjar bragur. Iðandi mannlíf og allir á leiðinni eitthvað - eitthvað annað?

Þetta er svo skemmtilega öðru vísi en hérna á landsbyggðinni. Hér eru við að glíma við fámennið og náttúruna - glíma við veðrið og ófærðina - fjöllin og firðina - endalausu. Aldrei stopp á rauðu ljósi - enda engin rauð ljós að stoppa á. Tja, nema kannski gömlu gatnaljósin í Bolungarvík þar sem hægt væri auðvitað að hafa kerti fyrir fólk að kveikja ef áhugi væri fyrir hendi - svona "rómó á rauðu í Víkinni" - í ástarvikunni.

Nei - ég segi - Reykjavík hefur rómantíkina. Að sitja í biðröð á háanna tíma er auðvitað ekkert annað en yndislegt og eykur alla samkennd borgaranna. Ekki þessi ömurlega einvera með vondum vegum og vegleysum líkt og hér fyrir Vestan og víða á landsbyggðinni.

Ég legg því til að við hættum þessum að hugsa um mislæg gatnamót - sundabraut og undirgöng. Höldum sjarmanum í Reykjavík - nándinni og náungakærleikanum lifandi. 

Einbeitum okkur frekar að því að eyða einsemdinni úti á landi  - þverum firðina og borum fjöllin - sýnum samkennd - keyrum saman - bíðum saman - heilsumst og verum vinir. Eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Tökum ekki mark á Bjarka Tryggva, söngvaskáldinu góða sem gaf út plötuna "einn á ferð" - verum saman - ekki ein!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fiðrildi

Hmmm . . held það sé kominn tími á að þið Dysta flytjið bara í bæinn.  Varla ætlið þið að úldna þarna fyrir vestan ?  1-2 ár eru ok á landsbyggðinni . . en common . . þig drullulangar aftur í menninguna :)

Fiðrildi, 18.10.2007 kl. 08:09

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Hugmynd mín með skrifunum í gær var að snúa umræðunni um landsbyggð vs. reykjavik á hvolf. Búandi úti á landi þá heyrir maður svo oft hve mikilvægt það sé að laga gatnakerfið í reykjavík - en minna skiptir það máli úti á landi - þar á að vera "erfitt" að komast um - nú til að höfuðborgarbúar komist í ævíntýri á stóru jeppunum sínum.... hugsunarháttur sem auðvitað hugnast ekki landsbyggðarfólki sem þarf að búa við þetta.

En eitt get ég sagt: ég bjó í tæp 9 ár í borg í útlöndum - í mörg ár í rvk og það er gott að komast út á land aftur. Borgarlífið býr innra með okkur - sem þýðir að það er sama hvar maður býr - ef maður er sáttur við sig og sitt þá líður manni vel. Það er engin rómantík í því að hanga í biðröð á rauðu ljósi...

þú verður bara að koma í heimsókn - með líffræðinemendurna þína og sjá hvernig alvöru vísindi eru framkvæmd ....á landsbyggðinni

Þorleifur Ágústsson, 18.10.2007 kl. 09:39

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég fékk mikinn félagskap, og nálægð við fólk, meðan ég dvaldi á Sigló í sumar. Rölti í kaffi til fólks og spjallaði við fólk á förnum vegi, talaði um tíðarandann við trillukarlana. Þó er varla sála eftir á Sigló.

Nú er ég í Reykjavík...einn.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2007 kl. 23:38

4 Smámynd: Steingrímur Rúnar Guðmundsson

Arna við höfum allt til alls hérna úti á landi. Bara minna af öllu.
Ég bjó í tæp 4 ár á höfuðborgarsvæðinu og get ekki sagt að ég hafi nýtt mér það til fulls. Enda ekki mitt uppáhald að sitja í bíl í 40 mín á leið í vinnu.
Leit á það sem launahækkun aðkomast aftur út á land. Minni akstur minni bið.
Svo er maður bara 40 mín að fljúga héðan ef þú ert að fá nóg. Eftir 2 daga í borginni viltu fara heim aftur.

Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 23.10.2007 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband