Lögreglumaður stöðvar gítarsóló Ray Davies á tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói.

Ég stóð ásamt samstarfsmanni á bílaplaninu við hús Oddfellow reglunnar á Akureyri í morgun. Köld norðanáttin með rigningu í farteskinu blés um vanga og dalalæðan sleikti Vaðlaheiðina. Þetta var bara ósköp eðlilegt veður fyrir árstímann á Akureyri - í það minnsta fyrir þann sem þetta skrifar. Öðru máli gegnir ef ég hefði verið staddur annarstaðar og hringt norður til Akureyrar - þá hefði verið sól í heiði og hlýviðri. Það er nefnilega alltaf besta veðrið á Akureyri - þegar maður er ekki sjálfur á staðnum. En það er önnur saga.

Mér varð starsýnt á lögreglustöðina þarna sem hún stóð í brekkunni fyrir ofan Baldurshaga - heitinn og horfinn. Óttalegur kumbaldi og geldur arkitektúr. Stóð þarna í Þórunnarstrætinu bara eins og yfirgefin smurstöð eða misheppnuð teikning frá teiknistofu landbúnaðarins. Svona ofvaxinn húsgrunnur með þaki. Yfir lögreglustöðinni gnæfðu tvær nýjar byggingar þar sem eitt sinn stóð gamalt og virðulegt hús - Baldurshagi.

Ég virti þetta fyrir mér og varð hugsað til þess hvað lögreglan líkt og lögreglustöðin væru stöðnuð fyrirbæri - gamaldags. Bæði áttu það sameiginlegt að hafa verið í minningunni eithvað svo miklu meira og virðulegra. En núna hvorki fugl né fiskur. Húsið hálfgerður kofi og lögreglumennirnir í glansbuxum með piparsprey - búnir að kasta ullarklæðunum gömlu en samt ekki komnir í nútímann. Ekki skrítið að Björn Bjarnason vilji gera eithvað í málinu - vopnbúast og endurheimta virðinguna.

Ég fór að rifja þá gömlu góðu daga þegar tveir lögreglumenn stóðu við suð-vesturhorn vallarstúkunnar á Akureyrarvellinum - kíktu varlega upp í stúkuna þegar menn gerðust orðljótir og fengu í staðinn glott áhorfenda - sem sögðu þá vera að velta fyrir sér hvernig þeir ættu að umkringja völlinn ef til átaka kæmi.

Vinnufélagi minn úr Reykjavík brosti í kambinn og rifjaði upp óborganlega senu frá tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói 1965. Sitthvoru megin á sviðinu stóðu tveir eldri lögreglumenn í ullareinkennisklæðnaði og með hvítar húfur - glansandi fín beltin og silgjurnar glömpuðu í sviðsljósinu. Svo steig hljómsveitin á svið og múgurinn æstist. Ray Davies birtist og lýðurinn öskraði - setti sig í stellingar og ætlaði að byrja með rífandi gítarsólói. Annar lögreglumaðurinn kippist til við gítarriffið og tekur kipp - gengur hægum en öruggum skrefum inn á mitt sviðið og leggur hönd á öxl Ray Davies og segir "hægðu á þér gæðingur" - Ray Davies fipast við enda ekki vanur slíkum axlartökum - horfir forviða á lögreglumanninn sem kinkar kolli og gengur til baka á sinn póst - búinn að róa niður lýðinn og tónleikarnir héldu áfram.

Já þetta var í þá gömlu góðu daga þegar fór saman gamaldags lögregla með góðleg ráð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar sögur, Þorleifur. 

Já, gamaldags lögregla með góðleg ráð.  Ekki ósvipað og sagan sem einn ágætur bloggari þessa samfélags sagði fyrir allnokkru síðan:

Þá var það hreppstjórinn sem passaði að allt færi siðsamlega fram á böllun.  Á einu slíku mætti hann þekktum pilti úr sveitinni sem keyrði oft og iðulega próflaus.  Hreppstjórinn tók einfaldlega í öxlina á honum og sagði:

Þú ættir ekki að keyra svona mikið próflaus, Siggi minn. Það getur alltaf orðið ástím!"

Já, hellin mín.  Ekki gera þetta alveg svona oft, það getur orðið ástím. 

Ekki veit ég hvort þetta lýsir samfélagi þar sem afbrot voru svona saklaus og fátíð eða hvort þetta lýsir samfélagi sem tók svona vægt á afbrotum.  Hvort heldur sem er þá má samfélagið þarna í gamla daga eiga það að það var meiri samkennd á meðal fólks og minni firring.  Það hefur versnað þótt ýmislegt annað hafi batnað.

Kveðjur,
Hallgrímur

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 15:08

2 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Takk fyrir söguna af Kinks tónleikunum hún vakti  mikla kátínu á mínu heimili.               

...Já á  þessum tíma lagði lögreglan ofur kapp á að koma veg fyrir óspektir á almanna færi hvort sem hún lagði föðurlega hönd á lýðinn eða lúbarði með kylfum . 

Jóhanna Garðarsdóttir, 11.10.2007 kl. 23:18

3 Smámynd: Baldur Sveinbjörnsson

Thad er nú bara ad fara i midborg reykjavikur um helgar og sja hvad mikla virdingu skríllinn ber fyrir lögregluni-nákvæmlega enga !

Annars var skondid mál fyrir rétti i Bodø i N-Noregi i fyrra, thar hafdi "gódkunningi" lögreglunnar kallad lögreglumann á vakt fyrir "trekuk" og "pappskalle" án thess ad ég fari út í ad th´yda thad nánar. Löggan kærdi manninn fyrir ad nidurlægja sig á opinberum vettvangi en dómarinn í málinu komst ad thví ad sem lögreglumadur yrdi madur ad thola slík uppnefni. Lögreglan tapadi semsagt málinu. Af sem ádur var.

Baldur Sveinbjörnsson, 12.10.2007 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband