Á léttari fóðrum.

Jæja nú er sumarið komið. Ég merki það reyndar ekki á neinni sérstakri hitabylgju - nei ég merki það á léttari fóðrum. Konan hefur nefnilega í tvígang þurft að horfa á mig léttklæddan utanhúss - og í kjölfarið er búið að skera niður fóður hjá mér um fjöldann allan af kaloríum. Ég er sem sagt kominn á kúr - heilsu og megrunarkúr.

Auðvitað gegn mínum vilja - maður er jú alltaf eins og grískur guð þegar horft er í spegil - í það minnsta þegar ÉG horfi í spegilinn. Einskonar öfug anorexía - finnst ég alltaf vera svo tálgaður - skorinn -  þó öllum finnist ég vera svona meira hnoðaður - ávalar línur. Ég bendi fólki á að hér sé um kjörþyngd að ræða - ég hafi kosið og þetta sé niðurstaðan - kjörstöðum sé búið að loka og hver skuli hugsa um sig. En ekki frúin - hún hefur skoðanir á mínu vaxtarlagi. Fyrsti dagurinn var í gær - eiginlega í fyrradag en ég svindlaði - fór á hótelið í hádeginu og át eins og frönsk gæs í lifrar-át-taki.

En í gær var endanlega tekin ákvörðun um að ég yrði niðurfóðraður eins og það heitir í þorskeldinu. Fiskur - kálmeti og ekkert gos - "nóg er nú til af vatninu góða" segir frúin og fær sér rauðvínsglas. "Drekktu vatn maður - það er svo hollt". Auðvitað er það hollt - búið að hellast um fjöll og firnindi - hollt og hæðir áður - blandað rollu og gæsaskít áður en það lendir í glasinu hjá mér. Auðvitað er það hollt. En ég er svangur. Hræðilega svangur - hvernig í ósköpunum á ég að geta haldið í horfinu á hálfum skammti - gengur bara ekki upp. Ég ætlaði ekki að þora í rúmið í gærkveldi - hryllti við tilhugsuninni að dreyma steikur í alla nótt - vakna svo upp glorsoltinn og fá gulrót. Nei ekki aldeilis spennandi. Og auðvitað vaknaði ég svo í nótt- banhungraður.

En ég vissi að með því að stilla klukkuna - vakna þegar aðrir sofa - þá væri ég öruggur. Hálfsofandi gat ég fengið mér að borða - afsökunin auðvitað sú að ég gengi í svefni - steinliggur - góð afsökun. Ég fór niður í eldhús. Urrandi svangur. Lyktarskynið í hámarki - ég hnusaði út í loftið - eitthvað gott hlyti að vera til - frúin hafði verið að baka í gærkveldi - að vísu fyrir fjáröflun en ég kenni bara hundinum um og henni sjálfri fyrir að skilja kökuna eftir á glámbekk - fyrir framann hundkvikindið sem ekki skilur mikilvægi fjáröflunar. En helvítis kakan var hvergi. Súkkulaði bræðingurinn sem var eftir þegar búið var að setja á kökuna var í vaskinum - og búið að fylla skálina af vatni og sápu. Ég smakkaði samt - kúgaðist af sápunni en maður verður að gefa sig allan í þetta ef árangur á að nást. Og það var sama hvað ég leitaði - fann ekkert ætt. kakan var horfin - falin.

Skyndilega verður mér litið á borðstofuborðið - þar stendur diskur með afgang af silung og salati frá kvöldinu áður - vatnsglas við hliðina og miði - á miðanum stendur "verði þér að góðu elskan og mundu að bursta tennurnar og ekki vekja mig þegar þú kemur uppí rúm aftur - góða nótt".

Já það er vandlifað á léttum fóðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Guðbjörn Þorgeirsson

Vildi bara hrósa þér fyrir skemmtilegar greinar...mjög svo frumlegar og já léttgeggjaðar líka hehe ;o) 

Það finna sig örugglega margir í þessari færslu hjá þér.

Tómas Guðbjörn Þorgeirsson, 14.6.2007 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband