Fótboltaferð - ósanngjörn brottvísun Sölku af knattleikvangi.

Við áttum stórkostlega ferð um helgina. Eins og góðum ferðum ber byrjaði ferðin á því að reyna á þolrif bílstjóra og farþega - meta ógleðistuðul farþeganna. Í slíkri bílferð á sér samanþjöppun tilfinninga í lokuðu rými sem ekki má opna - í það minnsta á ferð - og alls ekki á ferð fyrir Vestan - þar sem vegir eru ennþá ómalbikaðir og vart annað en troðningar á stundum - allt myndi fyllast af ryki. Við ókum nefnilega sem leið lá suður í Brjánslæk - eftir kræklóttum og ósléttum slóða - yfir heiðar og uppá fjöll.

Ég var bílstjóri - dreng hnokkar og knattspyrnukappar tveir sátu í aftursæti og hundur í búri í farangursrýminu. Frúin í framsætinu - vopnuð þekkingu á réttu aksturslagi og leiðbeinandi mjög. Svo mjög að mér leið á tímabili sem hamri í hendi smiðs - hélt um stýrið og steig bensínið en fékk engu ráðið - frúin gall "beygðu hér" - "hægðu á þér þar" - setningar sem flestar voru snöggar - komu allt í einu og enduðu flestar á "guð minn góður" eða "hægðu á þér maður". En keyra sjálf vildi hún auðvitað ekki - nei ekki aldeilis - hún var að fara í frí og langaði að njóta útsýnisins - skoða landið.  Mér fannst hún mest fylgjast með veginum - sá við hann og á honum ýmislegt sem ég veitti enga athygli - hættulegar beygjur sem ég kallaði aflíðandi - snarbratta og krókótta stíga. En svona er þetta bara - ekkert við því að gera fyrst við vorum komin af stað - ég bauð henni að verða eftir - fyrst á Flateyri svo á Hrafnseyri en hún þáði ekki boðið - sagði bara "hvað er þetta maður - ég er bara með leiðbeinandi skilaboð - ég er nú með í bílnum og kemur þetta við". 

Bílstjórinn var því hvíldinni feginn þegar í Baldur var komið og svaf hrjótandi alla leið - að vísu í bíósalnum og átti hrotu-söngurinn ekki vel við rómantíska myndina sem  sýnd var - drengirnir skömmuðust sín og breiddu jakka yfir höfuð þreytta bílstjórans - en það dempaði lítið sönginn.

Þegar komið var í Hólminn - þá var eins og maður væri að koma til annars lands - vegir malbikaðir  - beinir og breiðir. Meira að segja frúin fækkaði athugasemdum niður í bara "leiðbeinandi aksturshraða" - og við ókum sem leið lá í Borgarnes.

Fyrri leikur 5.flokks BÍ var um kvöldið. Stemningin var magnþrungin - allir ætluðu að gera sitt besta. Foreldrarnir stóðu á hliðarlínunni - horfðu hver á sitt barn - sinn son - hvöttu og dáðust - og fengu sting fyrir hjartað þegar tæklingar voru harðar - bölvuðu dómaranum sem auðvitað var heimamaður - það bara skein af honum - hann dæmdi á strákana okkar - hefði allt eins getað verið í þeirra búning.

Of sein á leikinn komum við hjónin gangandi í glærum plast regnslám - svona eins og beint af hjólhýsastæðinu - vantaði bara sígarettu og bjór í höndina - sonurinn leit á okkur greyp fyrir andlit sér og dæsti - líklegast þreyttur eftir ferðina.

Og strákarnir stóðu sig eins og hetjur - voru yfir - voru á sigurbraut. Ég og frúin vorum ánægð - og Salka líka. Hitt liðið í fýlu - þoldi ekki álagið og okkur - en gátu ekkert gert. Í miðjum látunum snýr sér við maður - maður sem tilheyrði andstæðingunum - horfði á okkur - vissi ekki hvað hann gat gert til að skemma stemninguna - en hugsaði stíft - leitaði leiða. Segir svo snögglega "út af með hundinn" - ha, segi ég. "já, út af með hundinn - hann er bannaður". Er hundurinn bannaður spyr ég - af hverju? "Nú bara, hann er bara bannaður". Já nú átti að kenna Sölku um ófarirnar - það átti að negla hana líkt og þeir gerðu við aumingja DANANN um daginn sem hljóp inn á í leika við Svía - nema að Salka var edrú og hafði ekkert hlaupið inn á völlinn.

Ég mótmælti - sagði þetta brot á jafnréttisreglunni - að Salka væri eini hundurinn á svæðinu - að hún væri í minnihluta - væri nýbúin að skíta og því engin hætta. "Skiptir ekki máli" sagði kallinn - "hún gæti skitið á grasið" - Ekki séns sagði ég - hún væri nýbúin að skíta á gervigrasvellinum þeirra og því myndi hún ekkert skíta á grasvöllinn. Þá urðu þeir alveg sjóðandi vitlausir. Ég og Salka röltum í mestu rólegheitum út af leikvanginum. Okkar menn búnir að vinna leikinn. Okkur var skítsama. Salka hægði á sér og meig við hornfánann - leit við og tók létt spól líkt og hún gerir gjarnan eftir að hafa migið - eða skitið. Ekkert gat breytt því að strákarnir okkar unnu. Ekkert. Þetta var gott kvöld í Borgarnesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband