Salka týnd - lífsreynslusaga af Eyrinni.

Þegar ég ætlaði að segja góða nótt við hana Sölku mína í gærkveldi kom í ljós að Salka var horfin. Hvernig gat þetta gerst - hún sem vék aldrei frá okkur - og við höfðum ekki einu sinni skotist út á veitingahús að fá okkur að borða - við vorum ekki einu sinni í útlöndum - við bara vorum í algjöru kæruleysi að glápa á sjónvarpið - ég og konan.

Guð minn góður - það þyrmdi yfir mig líkt og ég hefði framið glæp - alvarlegan glæp. Ég gerði náttúrlega það sem mér fannst réttast að gera - ég fór að leita að sökudólg - hver hafði stolið Sölku - hver hafði komist óséður inn í húsið og hreinlega stolið Sölku fyrir framan nefið á okkur. Auðvitað gat það ekki staðist - og ég þurfti því að hugsa ráð mitt upp á nýtt - og auðvitað komst ég þá að þeirri niðurstöðu næst bæri að reyna að kenna syninum um - skamma hann duglega fyrir kæruleysið. En hann hafði bara ekkert verið heima - svo ég sagði honum þá að þessar skammir væru fyrirbyggjandi - að hann hlyti að gera einhvern óskunda á næstunni og þá væri eins gott að ég væri búinn að skamm'ann.

Konan var næst á listanum - auðvitað gat ég ekkert látið hana sleppa - sökudólginn sjálfan - ekki til að tala um. Ég strunsaði inn í stofu - tók mér stöðu fyrir framan hana - setti hendur á mjöðm og ætlaði að láta nokkur vel valin orð falla - því miður tók ég ekki inn í reikninginn að verið var að sýna Grays anatómí og skammirnar mínar voru sem lofræða samanborið við gusuna sem ég fékk - enda skyggði ég gjörsamlega á rennblautan koss frá doktor Grey.

Ég fór fram og ákvað að kannski væri réttast að leita bara að Sölku - umkenningartæknin væri bara ekki að gera sig. En maður er jú karlmaður og oftast spyr maður áður en leitin hefst - og yfirleitt endar leitin á að konan gefst upp og finnur fyrir mann það sem leitað er að - og það nánast alltaf á þeim stað sem maður var auðvitað búinn að margleita á.

En hvar var hundspottið. Ég hafði skroppið með hana niður í Neðstakaupstað - á túnið þar sem henni finnst gaman að hnusa og fá sér að skíta - en það var fyrir fjórum klukkustundum - og hún hafði ekkert skitið - rétta lyktin var ekki til staðar og ég bölvaði - hafði engan tíma í svona bið. Fór heim. Ha,...skildi ég hundinn eftir? Guð minn góður - hvílíkur húsbóndi - og með það brunaði ég á bílnum niður í Neðstakaupstað. Og þar sat Salka - og beið eftir húsbóndanum. Glöð kom hún hlaupandi á móti mér - hægði skyndilega á sér og hnusaði út í loftið - tók snögga u-beygju og setti sig í stellingar - stellingu sem mynnti mann á Grískan guð með meltingartruflanir - eithvað svo tignarleg en samt svo álkuleg - lyktin var fundin - ilmurinn sem þarf til að koma meltingarveginum af stað - rétta lyktin. Og Salka skeit. Við fórum heim - Greys anatómí var búinn - konan beið í dyrunum. Ég sagði ekki orð - ætlaði inn - nennti ekki að ræða þetta - enda fannst mér ótækt að hún skyldi ekki minna mig á að ég hefði gleymt hundinum. Frúin kom inn á eftir mér - horfði á mig með einhverjum meðaumkunarsvip - svona líkt og hún vorkenndi mér fyrir að vera ég - og spurði svo - "hvar er bíllinn"? - ha, svaraði ég ... bíllinn? andsk....hundurinn.....var týndur og ég fór að leita.....ansdsk....

úti var komin ausandi rigning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snildar frásögn.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 16:19

2 Smámynd: Unnur R. H.

ekki smá góður

Unnur R. H., 5.6.2007 kl. 23:49

3 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Þú ferð að minna mann á Skapta í Slippnum

Þorsteinn Gunnarsson, 7.6.2007 kl. 22:16

4 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Já og Eyþóri í Lindu.....

Þorleifur Ágústsson, 7.6.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband