Í minningu undirbúnings jóla.

Nútíma jólaseríur hafa ekki þann sjarma sem þær höfðu hérna einu sinni. Nú fylgja aukaperur og þó ein slokkni þá loga hinar. Nánast viðhaldsfrítt og með öllu óspennandi.

En það var auðvitað ekki alltaf svo hér áður fyrr. Og sumir voru einfaldlega mikið flinkari við halda sínum seríum við en aðrir. Enda voru seríur á þeim tíma yfirleitt allar komnar til ára sinna - nánast lífstíðareign með tilheyrandi viðgerðum með mismiklum árangri. En upp skyldu þær fara - um hver jól.

Mér er ógleymanleg hefð sem skapaðist - en hún var sú að ég var kallaður niður á elliheimili til að hjálpa afa að setja upp seríur.

Nú hefði mátt halda að slíkt hefði verið auðvelt og fljótlegt - einkum í ljósi þess að gömlu hjónin bjuggu í einu herbergi - sem þótti vel duga fyrir gamalt fólk - því ekki voru komnar íbúðir á þeim tíma. En ekki aldeilis. Seríurnar hans afa voru nefnilega komnar til ára sinna og ómögulegt að vita hvort þær færu í gang. Afi var margbúinn að tengja sama víra og líma - og ef þær kveiktu ekki á sér þá þurfti að vinna sig í gegnum alla seríuna - peru fyrir peru - til að finna þá sem var dauð. Það var nefnilega svo að þegar ein peran gaf sig - þá slokknaði á allri seríunni.  Ef það reyndist ekki nóg - þá var hitt eftir - sem var að leita að réttri peru - en Afi átti allskyns perur af ýmsum gerðum sem honum höfðu áskotnast í gegnum árin og engin leið að vita hver var í lagi!

Þessu tók afi með tilheyrandi fussi og sveii. Alltaf sama sagan. Ár eftir ár. Og amma sat í sófanum og hló að þeim gamla - sem æstist þá til muna og fussaði yfir þeirri gömlu. Amma var ekkert í seríudeildinni - hennar hlutverk og sem hún sinnti af kostgæfni var að setja kransa yfir "dána fólkið". En það voru myndir af látnum ættingjum - og sem héngu á veggjum herbergisins. Ekki mátti gleyma neinum - enda var amma þess fullviss að með því væri fylgst að handan.

Afi púlaði - ég handlangaði og amma hló. En kostulegastar voru seríurnar tvær sem voru svo mjög komnar til ára sinna. Þær voru fallegar - plastblóm utan um ljósaperur - og sem merkilegt nokk voru einhverveginn ekki hannaðar til að þola það að hitna. Þær voru nefnilega gæddar þeim eiginleika að þegar perurnar hitnuðu þá skutust plastblómin af þeim - með tilheyrandi hvelli og fussi í afa. Og í ömmu gall "þar skaut Villi" - svo skelli hló hún.

En þessi Villi hafði verið nágranni þeirra í Ránargötunni og faðir þeirra Samherja bræðra. Amma sagði nefnilega að hann hefði verið svo ansi lunkinn með flugeldana - og svo sannarlega kunnað að skjóta upp - við tilheyrandi fögnuð viðstaddra.

Þetta var guðdómlegur tími.

Að loknu öllu stússinu skaut afi á sig koníaki sem hann geymdi í fataskápnum sínum úti í horni. Þetta þótti ömmu nú ekki passlegt svona á jólum og sagði ævinlega "hvunær ætlar þú að læra að fara með vín eiginlega.. Þolleifur?" - þá fussaði afi og sagði: "þó ég verði hundrað ára þá ætla ég ekki að læra það". Fékk sér sitt koníak og dáðist að seríunum. Búinn að steingleyma erfiðinu við að koma þeim saman.

Þar til skyndilega heyrðist smellur og í ömmu gall "þar skaut Villi"!!

Svo komu jólin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband