Það er magnað með þetta kvenfólk og undarlegt minni þeirra!

Alveg er það með ólíkindum hvernig minnið getur leikið konur með aldrinum. Allar nema mömmu sem man allt svo vel og svo rétt.

Þegar ég var að alast upp með fjórum systrum þá þekktist ekki að ofbeldi á börnum væri bannað - í það minnsta var þeim systrum mínum sem eldri voru frjálst að níðast á mér og skilja mig útundan.

Í dag væri slíkt lögreglumál.

Ég var sagður óþolandi, frekur og skemmdavargur sem sliti í sundur dúkkur og klíndi út augnskugga og aðra málningarvöru.

Sem er náttúrlega kolrangt.

En ég man þetta allt saman eins og það hefði gerst í gær. Og mamma líka. Það kom nefnilega upp úr dúrnum þegar við systkinin hittumst um daginn í Grunnavík í Jökulfjörðum ásamt mömmu og pabba - að þær voru búnar að steingleyma þessu.

Við skoðuðum myndir frá gamalli tíð og mikið var hlegið. Ekki var minnst á hina réttu mynd - af þeim að níðast á mér ræflinum. Það var gleymt.

Ekki hjá mér - en þeim. Og mömmu - henni get ég alltaf treyst.

Sjálfsagt er þetta einhverskonar kvenna og systra heilkenni sem beinist aðeins að yngri bræðrum og karlmönnum.

En svo gerast þær mæður og þá allt í einu elska þær syni sína og mega ekki til þess hugsa að á þeim sé níðst - af neinum.

Konan mín er með þetta heilkenni eins og systur mínar. Hún til að mynda er farin að halda því fram við þá sem heyra vilja að ég hafi elt hana á röndum með grasið í skónum hér um árið.

Sem er kolrangt.

Að ég hafi nöldrað og elt hana heim. Ekki látið hana í friði og að lokum hafi hún séð aumur á mér og verið mér góð.

Sem er líka alveg kolrangt.

Ég man þetta allt saman og auðvitað var þetta þveröfugt. Það var ég sem fékk ekki frið. Það var ég sem var eltur. Það var ég sem var góður - eins og alltaf.

Þetta veit ég. Og hún mamma sem alltaf er mér góð og trú.

Mikið vildi ég að þessar konur væru eins og hún mamma. Bara skil þetta ekki.

Pabbi er heppinn maður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Hugsaðu þér sonur minn á 5 systur. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.8.2009 kl. 02:52

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Kannast við þetta allt..

Níels A. Ársælsson., 27.8.2009 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband